Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 13:00:40 (2776)

1997-12-19 13:00:40# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[13:00]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt á mörkunum að maður þori í orðaskipti við hæstv. ráðherra. Hann er hér í svoddan styttingi, svo maður segi nú ekki þjósti, að það er alveg á mörkunum.

Svör hæstv. ráðherra varðandi það hvers vegna atvinnuleysisbætur eru ekki tengdar við launaþróun í landinu með sambærilegum hætti og lífeyrisbætur eru mjög sérkennileg og vekja grunsemdir um að hæstv. ráðherra vilji ekki að kjör þessa hóps séu tryggð líkt og lífeyrisþeganna. Það var spurt eftir því hér í gærkvöldi, að ráðherra fjarstöddum, hver væri skýringin á því ef það væri vilji ríkisstjórnarinnar að þessir tveir meginhópar bótaþega deildu í grófum dráttum kjörum með öðrum landsmönnum á sambærilegum grunni, hvers vegna lögunum um atvinnuleysistryggingar væri ekki breytt nú eins og lögunum um almannatryggingar? Við því koma mjög þokukennd svör og þau vekja grunsemdir um að það sé stefna hæstv. ráðherra, það sé pólitík hans að atvinnuleysisbótaþegar eigi ekki að njóta sama réttar, enda hefur hæstv. ráðherra orðið ber að því að segja að nauðsynlegt sé að atvinnuleysisbæturnar séu til muna lægri en lægstu laun því annars liggi menn bara á bótum. Þannig er nú hugarfarið hjá hæstv. ráðherra.

Í öðru lagi er ekki hægt að sleppa hæstv. félmrh. með þau svör hvað varðar desemberuppbót á atvinnuleysisbætur. Hæstv. ráðherra svaraði því á ótrúlegan hátt áðan. Hæstv. ráðherra sagði: Málið er í athugun hjá ríkislögmanni eða var það síðast þegar ég vissi --- ráðherra talar eins og hann búi í öðru sólkerfi en ríkislögmaður --- og ríkisstjórn hefur ekki tekið afstöðu til málsins. Punktur. Hver er vilji hæstv. ráðherra? Hver er skoðun hæstv. ráðherra? Telur hæstv. ráðherra að þessi hópur eigi rétt á sambærilegum kjarabótum nú fyrir jólin og aðrir landsmenn? Þannig hefur það verið. Þeir hafa fengið slíkar bætur undanfarin ár. Það hefur ævinlega tekist að lokum að knýja það fram að lífeyrisþegar og atvinnulausir fengju þær uppbætur sem hafa verið hluti af almennum kjarasamningum. Það er desemberuppbótin. Ætlar hæstv. félmrh. að svíkja atvinnulausa um þetta núna fyrir jólin?