Húsaleigubætur

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 13:34:46 (2780)

1997-12-19 13:34:46# 122. lþ. 49.1 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[13:34]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er jákvætt að festur skuli í lög réttur til húsaleigubóta, að hann taki til alls landsins, bæði til íbúða á opnum markaði og í félagslegu leiguíbúðakerfi. Hins vegar er mjög misráðið að hafa húsaleigubætur á hendi sveitarfélaga í stað ríkisins eins og vaxtabæturnar. Þá er fráleitt að húsaleigubætur skuli skattlagðar á sama tíma og vaxtabætur eru skattlausar.

Einnig er það mjög gagnrýnivert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa rækilega tryggt að 1. gr. frv. verði í raun framfylgt en þar er kveðið á um að húsnæðiskostnaður tekjulágra leigjenda skuli lækkaður, ekki versna og ekki verða óbreyttur heldur lækkaður. Ef ekkert verður að gert af hálfu sveitarfélaga sem samfara þessari lagabreytingu eru mörg að markaðsvæða félagslegu leigukerfin, þá mun kostnaður leigjenda í því kerfi aukast og kjörin versna í sumum tilvikum mjög verulega. Hér erum við að tala um hvorki meira né minna en 2.343 íbúðir og stuðning frá sveitarfélögum sem hefur verið metinn á 420 millj. Hvað um þá fjármuni verður er um margt á huldu. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að leigjendur í félagslega íbúðakerfinu verði ekki fyrir tekjuskerðingu í tengslum við þessi lög og skilgreininguna á þeirri ábyrgð ríkisstjórnarinnar er að finna í 1. gr. frv. þar sem kveðið er á um að kjör tekjulágra leigjenda skuli batna. Það er mikilvægt að svo verði. Þess vegna greiði ég atkvæði með 1. gr. og reyndar flestum öðrum greinum frv. sem ef rétt er að staðið munu marka framfaraspor. Ég mun sitja hjá við þá lagagrein frv. sem kveður á um fjármögnun kerfisins enda byggir hún á samningum sem ríkisstjórnin ákvað að koma að án þess að leita eftir samkomulagi við stjórnarandstöðu og án þess að nægar upplýsingar liggi fyrir og verður hún því ein að axla þar ábyrgð.