Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 14:25:33 (2803)

1997-12-19 14:25:33# 122. lþ. 49.9 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér koma til atkvæða þær greinar frv. sem við leggjumst eindregið gegn. Verið er að hækka gjöld sem gefa ríkissjóði tekjur langt umfram það tilefni sem er skýrt sem tilefni gjaldtökunnar. Það hefur komið rækilega í ljós í umræðum um málið að þarna er farið offari í gjaldtöku gagnvart aðilum sem eiga í erfiðleikum og eiga um sárt að binda. Þennan tekjustofn ríkissjóðs er nauðsynlegt að endurskoða í heild sinni sem og reyndar fyrirkomulag allrar þessar gjaldtöku, þessara gjalda eða aukagjalda sem er afar hvimleiður skattstofn eins og hefur komið fram. En sérstaklega óskynsamlegt og óréttmætt er í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir um tekjuöflun ríkissjóðs af þessum slæma skattstofni að hækka þetta eins og hæstv. ríkisstjórn leggur nú til og verður svo sannarlega ekki sagt að það fólk sem verður fyrir þessu sé í miklu fyrirrúmi hjá hæstv. ríkisstjórn. Við greiðum atkvæði gegn þessu, herra forseti.