Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 16:10:18 (2822)

1997-12-19 16:10:18# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. minni hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[16:10]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar eins og fram kom að ríkið eigi að stjórna þeim rekstri sem það greiðir til og það á við um sjúkrahúsrekstur um land allt þar sem fjórir af fimm stjórnarmönnum eru tilnefndir af sveitarfélögum en aðeins einn af fulltrúa ríkisvaldsins, heilbrrh. Ég tel það óeðlilegt fyrirkomulag og tel að fyrst menn hafa það fyrirkomulag að ríkið fari með þennan rekstur og greiði hann, þá eigi það að stjórna honum líka.

Ég er líka á þeirri skoðun að hægt sé að spara umtalsverðar fjárhæðir með því að samreka þessa tvo spítala. Ég tók ekki svo djúpt í árinni í minni ræðu að tala um að sameina þá. En ég tel að það verði að samreka þá þannig að í sem ríkustum mæli verði komið í veg fyrir tvíverknað og kostnað sem af því hlýst. Verði gripið til þess nú þegar, þá er ég sannfærður um að verulegur sparnaður muni verða í heildina á næsta ári. Hins vegar er ég alveg jafnviss um að eftir sem áður mun vanta miklar fjárhæðir til þess að endar nái saman því að það tekur sinn tíma fyrir sparnaðinn að koma fram og vandinn er mjög mikill nú þegar.

Ég lít svo á að þessi kostnaður muni einfaldlega koma fram við gerð næstu fjáraukalaga. Það er ekki hægt að fresta eða hætta við að greiða þennan kostnað. Hann er fallinn til og mun gera það áfram á næstu mánuðum. Ríkissjóði ber að greiða hann þannig að ég lít einfaldlega svo á að næsta ár verði tímabil þar sem reynt verður að gera breytingar á rekstri þessara spítala en kostnaðurinn sem þegar er til fallinn og mun falla til á næsta ári muni koma fram í aukafjárveitingum.