Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 16:51:33 (2824)

1997-12-19 16:51:33# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, StB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[16:51]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Fjárln. hefur lokið afgreiðslu fjárlagafrv. og umfjöllun um það af sinni hálfu til 3. umr. eftir að hafa átt fjölmarga fundi um þau mörgu og margvíslegu viðfangsefni sem fyrir nefndina hafa verið lögð að þessu sinni eins og jafnan áður.

Tillögur meiri hluta fjárln. hafa verið kynntar af hv. formanni hennar. Þær gera ráð fyrir að afgangur verði af fjárlögum næsta árs svo nemur rúmlega 170 millj. kr. Með því er því markmiði náð að afgreiða fjárlögin með afgangi, þó ekki sé hann mikill, sem dugar til þess, og þær ákvarðanir sem þeim fylgja, að hægt verður að greiða niður skuldir um á 5. milljarð króna. Ég vil við lok þessarar umræðu gera nokkur atriði að umtalsefni í minni ræðu.

Fyrst vil ég þó segja að meiri hluti fjárln. hefur ekki fallist á þá kröfu fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni um að unnið verði að hækkun skatta. Við ræddum það við 2. umr., þ.e. þær skoðanir sem fram komu þá, að bæði teldi stjórnarandstaðan tekjur vanáætlaðar og eins væri hægt að auka útgjöldin með því að hækka skattana. Á þessi sjónarmið höfum við ekki fallist. Engu að síður er það svo að við 3. umr. er gert ráð fyrir nokkuð auknum tekjum svo nemur um 2,3 milljörðum kr. og gengur dæmið þannig upp á þann veg sem ég nefndi að afgangur verður af fjárlögum.

Ég vil nefna nokkur atriði sem lúta að 1. gr. frv. og þá fyrst vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um 3 millj. kr. tillögu um framlög vegna kynningarstarfs erlendis á nýtingu auðlinda okkar. Nokkur misskilningur kom þar fram. Þar var um að ræða svar við erindi frá Fiskifélagi Íslands þannig að þessu framlagi er ætlað að renna til Fiskifélags Íslands sem á að sinna þessu verkefni á grundvelli þess erindis sem kom fram frá því.

Þá vil ég nefna nokkuð sem hefur verið getið um í þessari umræðu, þ.e. framkvæmdir á vegum háskólans við nýbyggingu náttúrufræðihúss. Þarna er um að ræða mikilvæga og nauðsynlega framkvæmd á vegum háskólans en það er nauðsynlegt að vekja athygli að því að þær 180 millj. sem þarna er um að ræða eru lántaka sem gengur í gegnum ríkissjóð sem fjármunir sem nýtast í háskólanum. Þannig er staðið að framkvæmdum að sem mestri hagkvæmni verði náð og það er mat þeirra sem stjórna framkvæmdum hjá háskólanum að þetta sé skynsamlegur áfangi, en happdrættið sem fjármagnar dæmið nær því ekki öðruvísi en að þarna verði tekið lán.

Í öðru lagi vil ég nefna Lánasjóð ísl. námsmanna. Árum saman og oft áður voru miklar deilur á Alþingi um Lánasjóð ísl. námsmanna. Nú bregður svo við að við flytjum tillögur um að lækka megi framlög til lánasjóðsins upp á 43 millj. kr. auk þess sem gert er ráð fyrir að breyta grein um lánsfjáráætlun sjóðsins sem kom fram í fjárlagafrv., svo nemur 100 millj. kr. Alger umskipti hafa orðið hjá lánasjóðnum. Frá því fjárlögin fyrir árið 1997 voru afgreidd á Alþingi hefur lögum um sjóðinn verið breytt. Einnig hefur viðamikil skuldbreyting átt sér stað sem hafði í för með sér að meðalvextir tekinna lána hjá sjóðnum lækkuðu úr 6,17% í 5,8%. Hvort tveggja hefur mikilvæg áhrif á fjárhag sjóðsins og þessi vaxtalækkun vegna skuldbreytinga óhagstæðra lána mun, miðað við lánstíma lánanna, spara sjóðnum um 300 millj. kr. Þarna er um mjög miklar breytingar að ræða hjá sjóðnum og mikilvægar aðgerðir til þess að styrkja stöðu hans. Eins og kom mjög greinilega fram í skýrslu framkvæmdastjóra sjóðsins og starfsmanna sem mættu fyrir fjárln. er þarna mjög vel á haldið. Eins og fram kom fyrr í umræðunni, þá fjölgar nemendum í lánshæfu námi og svo virðist vera að lánasjóðurinn geti mjög vel sinnt sínu mikilvæga hlutverki.

Þá vil ég gera að umtalsefni Sérstök framlög, undir landbrn., vegna átaks við framleiðslu lífrænna og vistvænna afurða. Nokkrar deilur hafa orðið um það en í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að 12,5 millj. gengju til þessa verkefnis en áður voru það 25 millj. og lýstu margir mikilli óánægju sinni með það að skera þennan lið niður. Meiri hluti fjárln. leggur til að þessi liður verði hækkaður um 12,5 millj. þannig að hann verði 25 millj. til þeirra verkefna sem þar um ræðir. Það fór ekkert á milli mála þegar fjárlagafrv. kom fram og hv. þm. sáu hvað þar var á ferð, að fjárln. fékk mjög ákveðnar og eindregnar athugasemdir um þetta eins og kom reyndar hér fram í umræðum og e.t.v. ekki síst frá þingmönnum sem sitja á Alþingi og höfðu verið flutningsmenn þeirrar tillögu sem ræðir um. Þess vegna ákvað fjárln. --- ég trúi að öll nefndin hafi verið viljug til þeirrar tillögugerðar --- að fara að ábendingum og gera þessa breytingu. (Gripið fram í: Hvað með sjúkrahúsin þá?)

[17:00]

Þá kem ég að sjúkrahúsunum, herra forseti, og vil hafa nokkur orð um þau. Eins og umræður hafa gengið um þau mál að undanförnu, þá fer ekkert á milli mála að mikill vandi er í rekstri heilbrigðisstofnana hjá okkur. Ég hef farið nokkrum orðum um það áður í umræðum og ætla þess vegna að stytta það að þessu sinni. Við í fjárln. höfum farið mjög vandlega yfir stöðu mála hjá sjúkrastofnunum og reynt að meta hvaða leiðir væru færar. Niðurstaðan er sú sem birtist í brtt. við frv. og leiðir til þess að við erum að hækka framlög til sjúkrahúsanna. Við erum ekki að skera niður. Fjárlagafrv. gerði ráð fyrir hækkunum á framlögum til sjúkrahúsanna en gerði ekki ráð fyrir niðurskurði. Það er alveg nauðsynlegt að rifja þetta upp.

Aðeins til þess að átta sig betur á hvað er um að ræða, þá er í frv., eins og ég sagði, gert ráð fyrir hækkunum á milli ára. Síðan höfum við afgreitt fjáraukalög sem gerðu ráð fyrir 320 millj. til stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík til viðbótar við það sem er á fjárlögum þessa árs, 1997, auk þess sem 278 millj. voru samþykktar, annars vegar 78 millj. til einstakra stofnana og 200 millj. í sérstakan pott sem á að deila úr. Þetta er nauðsynlegt að rifja upp við þessa umræðu. Síðan er gert ráð fyrir því að 300 millj. komi til viðbótar sem verði deilt út á grundvelli tillagna frá sérstökum starfshópi sem á að vinna það verk.

Til þess að meta sviðið allt, þá er nauðsynlegt að skoða aðra þætti. Til viðbótar þeim 300 millj. sem ég nefndi er gert ráð fyrir því að Sjúkrahús Reykjavíkur fái 100 millj. kr. hækkun sem er ætluð til viðhaldsverkefna. Það var mat hv. þingmanna í fjárln. að nauðsynlegt væri að hækka viðhaldsliðinn hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur vegna þeirrar stöðu sem það sjúkrahús er í hvað varðar viðhald húss, en auk þess er síðan fjárveiting til búnaðar og tækjakaupa. Það var mat okkar að með því að hækka þennan lið mundu skapast betri skilyrði, fyrir þá sem fá það hlutverk að gera tillögur um endurskipulagningu og gera þjónustusamninga við sjúkrahúsin, til að ganga til þess verks eftir að fjárveiting til viðhalds sjúkrahússins yrði hækkuð.

Auk þess vil ég nefna að til viðbótar við þá 12,8 milljarða sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að gangi til stóru sjúkrahúsanna, þá eru á óskiptum lið til viðhalds sjúkrahúsa 25 millj. kr. Þá eru á liðnum Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi samtals 178,8 millj. kr. sem á eftir að útdeila til sjúkrahúsanna með fjölþætta starfsemi sem eru auðvitað fyrst og fremst stóru sjúkrahúsin tvö, en þessir fjármunir samanlagt gera þá fjárhæð sem til ráðstöfunar er til þessara sjúkrahúsa. Það er alveg nauðsynlegt að gleyma ekki þessum upphæðum sem skipta hundruðum milljóna.

En stóra vandamálið hjá okkur hins vegar verður væntanlega áfram hvort leið finnst til þess að endurskipuleggja þannig að meiri hagkvæmni verði í rekstrinum. Við höfum fengið hina svokölluðu VSÓ-skýrslu þar sem sagði að hægt væri að ná aukinni hagkvæmni í rekstri stóru sjúkrahúsanna. Það hefur verið unnið víða gagnvart litlu sjúkrahúsunum að því að endurskipuleggja og reyna að ná meiri hagkvæmni í rekstri þeirra. Eins og kemur fram í yfirliti frá Ríkisendurskoðun, þá hefur víða náðst árangur hjá þeim en stóra viðfangsefnið er endurskipulagningarvinna og gerð samninga við sjúkrahúsin.

Hér í dag hefur nokkuð verið rætt um að nauðsynlegt væri að gera breytingar á skipulagi yfirstjórnar sjúkrahúsanna og ég hlustaði mjög grannt eftir því sem hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, sagði um þau efni. Mér finnst gæta jafnan nokkurs misskilnings þegar menn tala um nauðsyn þess að gera breytingar á stjórnum þessara stofnana. Menn segja: ,,Sjúkrahúsi Reykjavíkur er þannig stjórnað að fulltrúar Reykjavíkurborgar eru þar.`` Menn vilja breyta þessu og fá fulltrúa ríkisvaldsins þarna inn. Ég spyr: Hverju mundi það breyta? Er þetta grundvallaratriði til þess að árangur náist? Ég segi nei. Hvers vegna? Ég bendi bara á hverjir eru fulltrúar í stjórn Ríkisspítala. Hefur meiri árangur náðst þar? Ég segi nei. E.t.v. hefur minni árangur náðst þar við að stjórna því stóra fyrirtæki þannig að ég vil vara menn við því að ætla sér að leysa þetta með því að breyta því hverjir tilnefni í stjórnir þessara sjúkrastofnana. Lausnin mun ekki liggja í því. Það verða sömu Íslendingarnir sem fá það verkefni að vera í stjórnum sjúkrastofnana hvort sem þeir eru tilnefndir af sveitarfélagi eða af einum ráðherra sem ætlast til þess að stjórnirnar dansi algerlega eftir nótum ráðherra. Það er auðvitað mikilvægt að trúnaður ríki á milli ráðherra og stjórna þessara stóru sjúkrahúsa. Það er mjög mikilvægt. Það vil ég undirstrika alveg sérstaklega. En ég tel að menn geri of mikið úr því og ætli sér að ná meiri árangri við endurskipulagningu en ég tel að sé líklegt að náist með því verki einu.

Þá vil ég aðeins nefna það sem menn velta nú mjög mikið fyrir sér. Ég heyri á ræðu hv. 5. þm. Vestf. að hann virðist vera orðinn sérstakur talsmaður þeirra sem hafa mælt mjög eindregið með því að búa til eitt stórt sjúkrahús á Íslandi sem yrði staðsett á höfuðborgarsvæðinu að sjálfsögðu. Mér finnst vera svolítill sovéskur bragur á þessu. En ég tel nauðsynlegt að skoða þessi mál. Við í meiri hluta fjárln. og ríkisstjórnin höfum ákveðið lagt til að ganga til þess verks að endurskipuleggja í heilbrigðiskerfinu með því að skipa til þess hóp manna. Ég ætla ekki að lýsa því yfir fyrir fram að hvaða niðurstöðu sá hópur á að komast. Ég tel að hann eigi að skoða rekstur þessara stofnana. Enn og aftur þarf að gera það og reyna að finna út hvar hægt sé að sameina einingar og hvar sé hægt að ná árangri þannig að fjármunirnir nýtist sem best. Það er viðfangsefnið en ekki það að ákveða fyrst að sameina allt saman undir einni stjórn og búa til uppstillinguna í ljósi þeirrar fyrir fram ákveðnu niðurstöðu. Ég tel að það sé ekki skynsamlegur kostur og ekki skynsamleg vinnubrögð. (ÖS: Þú vilt skoða það.) Ég vil skoða þetta mál í heild sinni og hafna engu fyrir fram.

Ég tel hins vegar mjög varasamt, svo ég tali nú frá eigin brjósti og mjög innilega í þá átt, ef við ætlum að létta ábyrgð algerlega af stærsta sveitarfélaginu á Íslandi gagnvart fyrirtækjarekstri. Ég tel það ekki skynsamlegt eins og hefur komið fram í fjölmiðlum í dag og boðið hefur verið upp í þann dans af hálfu borgarstjórans í Reykjavík. Þá ætla ég að láta lokið umræðum mínum um sjúkrahús, enda líður tíminn og þó að mér sýnist að ég hafi hann allrúman.

Ég vil þá nefna nokkur atriði sem lúta að 5. gr. frv. Í fyrsta lagi vil ég nefna tillögu sem meiri hluti fjárln. gerir um að hækka heimild húsbréfadeildar Byggingarsjóðs ríkisins til þess að gefa út húsbréf. Það skiptir auðvitað miklu máli, þ.e. að tryggar og nægar heimildir séu fyrir húsbréfadeildina til þess að gefa út húsbréf þannig að markaðurinn sé liðugur og lifandi og að ekki þurfi að koma til neinnar teppu í honum.

Annað vil ég nefna sem er Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í brtt. fjárln. er gert ráð fyrir heimild til þess að taka lán allt að 475 millj. kr. vegna framkvæmda við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þarna er farin ný leið við fjármögnun mannvirkja og er alveg nauðsynlegt að átta sig á því að þarna hefst mjög stór og mikil framkvæmd, mjög mikilvæg framkvæmd fyrir okkur Íslendinga sem er flugstöðin sem tengir okkur við umheiminn og tekur á móti þeim gestum sem hingað koma til landsins. Auðvitað þarf að tryggja og sjá til þess að dæmið gangi upp, að tryggt sé að áætlaðar tekjur komi inn til þess að standa undir þessu þannig að við stöndum ekki frammi fyrir því einn góðan veðurdag að tekjurnar af flugstöðinni dugi ekki til þess að standa undir þessum framkvæmdum og það þurfi að ganga til þess að skerða aðrar framkvæmdir á sviði samgöngumála vegna þess. Ég vil hafa uppi þessi varnaðarorð.

Þá vil ég nefna Ríkisútvarpið. Eins og hér hefur komið fram fyrr í umræðunni, þá er gert ráð fyrir því að heimila lántöku upp á 300 millj. vegna framkvæmda við Ríkisútvarpið. Þarna er um að ræða feiknastórt atvinnufyrirtæki. Mér skilst að þar séu jafnmargir starfsmenn og dagarnir eru í árinu þannig að miklu máli skiptir að gæta ýtrustu sparsemi og beita gildum og góðum stjórnunarháttum við að nýta það fjármagn sem þar er til ráðstöfunar. Ég tel að sú ákvörðun menntmrh. að færa Ríkisútvarpið, sjónvarp í útvarpshúsið hafi verið hárrétt og hefði í rauninni þurft að koma miklu fyrr fram. Ég tel að mjög mikilvægt sé að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins og þess vegna er þetta fagnaðarefni. Ég tel að það þurfi að sjá svo um að þessi framkvæmd geti gengið eðlilega fram og komist sem fyrst í gagnið og það lánsfjármagn sem hér er veitt heimild til þess að afla nýtist sem best og að sem fyrst verði hægt að fara með Ríkisútvarpið, sjónvarp í útvarpshúsið. Jafnframt tel ég, og vil nefna, að það er algerlega óhjákvæmilegt að jafnhliða og samhliða þessum framkvæmdum og því að koma Ríkisútvarpi, sjónvarpi og Ríkisútvarpi, hljóðvarpi undir eitt þak, verður að bæta úr hlustunarskilyrðum útvarps og sjónvarps. Það ástand sem nú ríkir er algerlega óþolandi, þ.e. að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, skuli hiklaust efna til kostnaðar við dagskrárgerð án þess að vera visst um að allir landsmenn sem eru á forsvaranlegum stöðum til að geta náð útvarpi og sjónvarpi nái efninu. Ég tel að það hljóti að verða verkefni nýs útvarpsstjóra að láta verða þarna breytingar á. Það er ekki nægjanlegt að skapa góð vinnuskilyrði fyrir starfsfólkið ef þjóðin nær ekki að hlusta á það sem framleitt er af efni, hvort sem þar er um að ræða fréttir eða annað útvarps- og sjónvarpsefni. Þetta vildi ég undirstrika, herra forseti, og leggja mjög þunga áherslu á að að gera verður þá kröfu að þarna verði tekið á.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að nú við 3. umr. fjárlaga getum við sagt að horfur eru góðar í ríkisbúskapnum. Okkur tekst að lækka skuldir þjóðarinnar án þess að hækka skatta og skilum fjárlögum með afgangi. Við þurfum að minnast þess að við erum að fjalla hér um afgang á rekstrargrunni, ekki greiðslugrunni. Ef við værum með fjárlög á greiðslugrunni, þá væri afgangurinn sem við værum að ræða hér um mun hærri en þær 170 millj. sem er niðurstaða fjárlaga á rekstrargrunni.

Fleiri orð þarf ég ekki að hafa um þetta, herra forseti, og vil þakka nefndarmönnum í fjárln. fyrir ánægjulegt samstarf og árangursríkt.