Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:33:04 (2834)

1997-12-19 17:33:04# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:33]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi tekjuáætlanir þá tel ég mjög mikilvægt að við reynum að meta vandlega tekjur næsta árs og mér finnst ekki skynsamlegt að ætla sér að ná tekjum inn sem einhver vafi leikur á að náist inn. Þess vegna held ég að ekki hafi verið efni til þess að áætla hærri tekjur en við gerum. Við fengum skýrslu um þetta frá fjmrn. og síðan hefur að sjálfsögðu verið leitað til Þjóðhagsstofnunar þannig að niðurstaða okkar er sú sem hefur komið fram í breytingartillögum okkar.

Hvað varðar stjórnir sjúkrahúsa er ég að benda á að það hver skipar stjórnirnar ræður ekki úrslitum um árangur né rekstur stofnananna. Ég er ekki að segja að það geti ekki verið að heilbrrh. skipi þessar stjórnir í þeim tilvikum að ríkið fari algerlega með málefni viðkomandi stofnana. Ég vil alls ekki hafna því. En ég var bara að vara við því að við munum ekki leysa stjórnunarvanda sjúkrastofnananna með því einu að breyta um fyrirkomulag og skipun stjórnarinnar. Aðalatriðið er að þarna fáist gott fólk og það sem er mikilvægara að verksviðið sé skýrt afmarkað. Það sé skýrt afmarkað með reglugerð og skipunarbréfi hvað stjórnir sjúkrastofnana eigi að gera, hver séu valdmörkin og hver sé tilgangurinn með starfi stjórnanna. Þetta er mjög mikilvægt en ekki að það sé losaralegt og algerlega háð persónu.