Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:50:36 (2839)

1997-12-19 18:50:36# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kveðjur hv. þm. og vonast til þess að sjá hann hér í fyrramálið líka. En vegna orða hans um afkomu ríkissjóðs er nauðsynlegt að benda á að allar upplýsingar um það er að finna á bls 45 í fylgiriti fjárlagafrv. Þar keemur auðvitað í ljós að árið 1991, það ár sem ég tel að hv. þm. hafi átt nokkra aðild að, er afkoman sýnu verst. Jafnframt kemur í ljós að á árunum þar á eftir hefur afkoman verið að batna. Hún er misgóð en þó ber að geta þess að á árunum 1996 og 1997 batnar hún verulega. Og ef tekið er tillit til þess að á árinu 1996 og 1997 er verið að kalla inn spariskírteini og önnur verðbréf og borga niður vexti sem tilheyra öðrum árum, þá er afkoman vel viðunandi og reikna má með að á yfirstandandi ári verði afgangur séu þessir vextir ekki taldir með. Nú er verið að tala um milljónir eða milljarða á verðlagi hvers árs. Sé þetta hins vegar skoðað sem rekstrarafkoma og hlutfall af vergri landsframleiðslu, þá kemur í ljós að miðað við árin á undan, þ.e. miðað við árin 1988--1991 sem hv. þm. þekkir mjög vel, þá er árangurinn verulegur. Og nú er það að gerast sem menn hafa beðið eftir lengi, að árangur stjórnarstefnunnar á síðustu árum er að skila sér í bættu árferði með þeim afleiðingum að ríkissjóður verður rekinn með afgangi á næsta ári þannig að það er enginn vandi fyrir fjmrh. að standa hér og segja að afkoman hafi farið batnandi. Við vondu búi var tekið og loks er búið að snúa þessum hlutum við.