Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 18:52:43 (2840)

1997-12-19 18:52:43# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[18:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef við lítum aðeins á árið 1991 og árin þar á undan þá þekkja menn hvernig aðstæður voru þá. Það er ljóst að á árinu 1991 voru menn á botni djúprar kreppu. Undangengnar voru víðtækar aðgerðir til bjargar atvinnulífinu í landinu eftir hinn hörmulega viðskilnað Sjálfstfl. sem missti allt niður um sig í efnahagsmálum og undan hverjum sprakk ríkisstjórn í septembermánuði 1988. Nýafstaðin var þjóðarsátt um að taka niður verðbólguna þar sem ríkissjóður lagði sitt að sjálfsögðu af mörkum og var án efa eitt mesta gæfuspor í efnahagsmálum okkar Íslendinga á síðari áratugum. Það var m.a. árangurinn og uppskeran af því sem núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn fengu í arf. Það er óumdeilt að því skilaði sú ríkisstjórn þannig að það er enginn skortur á málsvörn fyrir það þó að ríkissjóði hafi verið beitt á þessum árum og hann hafi verið gerður upp með umtalsverðum halla t.d. á árinu 1991. Ég er alveg sannfærður um að hvaða hagfræðingur sem er, hvar í heiminum sem væri, mundi líta á þessar hlutlægu staðreyndir sem liggja fyrir og viðurkenna þær, að þarna tókst mönnum þrátt fyrir allt mjög vel til.

Varðandi það að þetta hafi síðan batnað hjá hæstv. fjmrh. þá verð ég að segja alveg eins og er: Þó það nú væri að þetta hafi eitthvað batnað í þessu mikla góðæri og þessari miklu uppsveiflu. Hæstv. ráðherra var einn af þeim sem reyndu að gera lítið úr árangri hv. þm. Ragnars Arnalds þegar hann var fjmrh. og rak ríkissjóð með miklum gæsibrag á árunum 1980--1983 og sagði sem svo: ,,Það er lítill vandi að reka ríkissjóð með gróða þegar viðskiptahalli er og mikill innflutningur.`` Hvað hefur gerst í tíð hæstv. núv. ráðherra? Hann hefur fengið upp í hendurnar núna í þrjú og hálft ár eitthvert mesta góðæri eftirstríðsáranna. En árangurinn er samt ekki betri en svo að hann er enn ekki kominn upp fyrir núllið og er orðið örgrannt um að á þessu ævikvöldi hans í embætti fjmrh. takist honum það nokkurn tíma.