Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 19:55:15 (2846)

1997-12-19 19:55:15# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[19:55]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu miklum tilgangi þjónar að harka frekar í þessu. En ég fékk auðvitað ekkert svar við minni fyrirspurn. Ég spurði einfaldlega: Ef ekki er hægt að skila ríkissjóði með tekjuafgangi núna, hvenær þá? Er það þá á næsta ári eða þarnæsta ári eða bara einhvern tíma? Vissulega veit ég að taka ber tillit til þess að menn fóru í ákveðnar skuldbreytingar, það skekkir þessa mynd eilítið, en ekki þó svo mikið að við séum að tala um neinn verulegan tekjuafgang. Þess vegna er að lyktum ein samviskuspurning til hv. formanns fjárln. sem ég þekki sem samviskusaman og grandvaran mann: Er hann í hjarta sínu ánægður með árangur haustsins? Er hann í hjarta sínu ánægður með þann árangur sem birtist í þessu fjárlagafrv.? Finnst honum hafa vel til tekist að skila ríkissjóði þrátt fyrir stórauknar tekjur, í jafnvægi skulum við segja, á núllinu, vitandi um það að útgjaldatilefni upp á hundruð millj. kr. bara í heilbrigðiskerfinu bíða handan hornsins? Er hann glaður og ánægður með afrek sín á þessu hausti? (Gripið fram í: Hann er nú ekki glaður á svip.)