Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 19:56:40 (2847)

1997-12-19 19:56:40# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[19:56]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er tiltölulega ánægður með útkomuna og að hafa skilað tillögum sem gera ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekinn hallalaus á næsta ári, að borgaðar verða niður skuldir fyrir 5 milljarða. Þetta eru þáttaskil og kemur okkur til góða í framtíðinni. Lánsfjárþörfin fer minnkandi. Ég er ánægður með það. Við verðum að gá að því að þessi afkoma er á rekstrargrunni og það verður að gæta þess að afkoman er drjúgum betri en á síðasta ári þegar gert var upp á greiðslugrunni.

Eitt atriði vil ég leiðrétta sem kom fram í máli hv. 9. þm. Reykn. og stafar áreiðanlega af misskilningi. Það er ekki verið að færa verkefni út úr heilbrrn. Það er verið að styrkja heilbrrn. með þeim starfskröftum sem koma til til þess að fara yfir málefni sjúkrahúsanna og ég held að við getum verið sammála um að þess sé þörf. Heilbrrn. mun hafa forræði á þessum verkum og samráð við fjmrn. um þau en ekki er verið að færa verkefnin út úr heilbrrn., en ég hef orðið var við það í umræðunni hjá fleiri hv. þm. að þessi túlkun er uppi.