Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 19:58:29 (2848)

1997-12-19 19:58:29# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[19:58]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég fagna því svo sannarlega að hv. þm. Jón Kristjánsson hefur tekið af öll tvímæli í þessa veruna, þ.e. að heilbrrn. sem eðli máls samkvæmt ber að hafa forustu um þessi mál hafi þau áfram. Hann hefur ekki þannig að ég hafi heyrt verið skýr um þetta fram að þessu. Hann segir hér að málið verði vitaskuld á forræði ráðuneytisins og ég skildi hann ekki öðruvísi en svo að jafnvel ætti að bæta þar við starfsfólki tímabundið til þess að takast á hendur þessi verkefni og síðan yrðu þau unnin í samráði og samstarfi við fjmrn.

En þá hlýt ég að spyrja: Hvers vegna þessi umræða öll, hvað er þá nýtt af nálinni? Það er nákvæmlega svona sem kaupin gerast á eyrinni. Nákvæmlega svona hafa hlutirnir gerst, þ.e. heilbrrn. ber að fást við vanda af þessum toga og hefur gert það í samráði við fjmrn. Hvað er þá nýtt í málinu? Heitið? Stýrinefnd í staðinn fyrir starfshópur? Hvað er nýtt á ferð? Ég átta mig skyndilega á því að hér eru bara einhverjir gamlársdagsflugeldar á ferð. Það er ekkert nýtt á ferðinni. Það á bara enn einn ganginn, milli þessara tveggja ráðuneyta sem hafa forræði málsins á hendi, verið að reyna að skipta þessari hungurlús, sem 300 millj. eru, á milli þessara þriggja sjúkrahúsa sem vantar 1.500 millj. Það er nú öll stýrinefndin. Hér hafa menn, til að mynda hv. þm. Sturla Böðvarsson, haldið langar og merkar ræður um að þessi stýrinefnd muni skipta algerlega sköpum og þar verði tekin upp ný og breytt vinnubrögð. Ég fagna því svo sannarlega ef einhver minnsta von er til þess. En mér sýnist á öllu að allt verði þetta með gamla laginu.