Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:28:57 (2850)

1997-12-19 20:28:57# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:28]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir málefnalega og upplýsandi og ítarlega yfirferð um veruleika þessara mála bæði í fortíð og nútíð og einnig sýn hans um framtíðina því að hér er ekki um lítilvæg mál að ræða. Hér er, eins og hann gat réttilega sjálfur, um mjög háar upphæðir að tefla og mjög vandrataður hinn rétti vegur í þessum efnum. Ég hygg að hann hafi fengið um það rangar upplýsingar hafi honum komið til hugar að umræðan hér að honum fjarstöddum hafi verið ómálefnaleg. Hún var það bara alls ekki. Og vegna orða hans um að ekki væri passandi að bera saman brýna þörf í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu annars vegar og uppbyggingu utanríkisþjónustu hins vegar þá er það nú bara þannig að allt kemur þetta úr sama kassanum og úr sömu vösunum, frá skattgreiðendum, og auðvitað getum við ekki annað en horft á þetta í réttu samhengi. Það var dálítið sláandi, og þess vegna kom þessi samanburður, að þær 400 millj. sem þurfti að verja til endurbóta á þessum tveimur sendiráðum voru nánast sama upphæðin og vantaði á fjáraukalögum til þess að rétta af halla stóru sjúkrahúsanna á yfirstandandi ári. Það var kannski ekki síst þess vegna. En látum vera með það.

Ég þakka þessi svör. Þau hafa að mörgu leyti gert ljósara en áður um stöðu þessara mála og framtíðarhorfur. Ég get þó ekki látið hjá líða að spyrja um eitt til tvö atriði.

Í fyrsta lagi: Hvert var söluverð Parísareignarinnar?

Í annan stað: Það er ekki að finna, eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á, heimildir til þess að kaupa húsnæði fyrir starfsfólk í Berlín. Er ekki nauðsynlegt að afla slíkra heimilda?

Og í þriðja lagi: Hvaða stærðargráður eru menn að tala um varðandi varanlegt húsnæði fyrir sendiherra og starfsfólk í Helsinki? Þannig að menn hafi einhverjar hugmyndir um það hvað að baki þessum heimildum stendur.

Rétt í bláendann, virðulegi forseti. Ég bið hæstv. ráðherra að taka eftir því sem ég sagði og segi. Ég lýsti yfir stuðningi við stækkun Leifsstöðvar og tel hana brýna.