Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:31:33 (2851)

1997-12-19 20:31:33# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:31]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Söluverð sendiherrabústaðarins í París var 17 millj. franka sem eru liðlega 200 millj. kr. þannig að fasteignaverð þar er mjög hátt eins og þar kemur fram. Að því er varðar sendiherrabústað í Helsinki þá er verið að skoða þau mál og það er skoðað af starfsmönnum utanrrn. og starfsmönnum fjmrn. með það í huga að finna sem hentugast húsnæði. Það er hins vegar oft þannig að það er kannski erfitt að finna alveg nákvæmlega stærðina sem manni fyndist henta þegar verið er að leita að gömlu húsnæði. Það er hins vegar hægt þegar byggt er þannig að það liggur ekki fyrir og e.t.v. verður leigt til að byrja með en það verða menn að vega og meta.

Það sem ég átti við að því er varðar samanburð við sjúkrahúsin, er að mér finnst engin ástæða til þess að vera að draga þessi mál beint saman. Við vitum að ef við sinnum ekki viðhaldi ákveðins spítala þá kemur að því að ekki verður komist hjá því að fara þar í miklar framkvæmdir. Þess vegna er mikilvægt að við reynum að sinna viðhaldi allra opinberra bygginga á hverju ári. En það á við um þetta húsnæði, annars vegar í London og í Washington, að þessu var ekki sinnt og við áttum engan annan kost en að fara í þetta nema láta þessar eignir verða ónýtar og ég veit að hv. þm. hefði aldrei lagt til að það yrði gert ef hann hefði verið í minni stöðu. Ég er alveg viss um að ef hann hefði verið í minni stöðu þá hefði hann ekki getað lagt neitt annað til því ég sé ekki hvað annað var hægt að gera þó ég hefði gjarnan viljað komast hjá því að þurfa að fara í þessi útgjöld.