Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 20:37:58 (2854)

1997-12-19 20:37:58# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SighB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[20:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sú var lengi trú íslenskra stjórnmálamanna að mestur árangur næðist í stjórn efnahagsmála með sem mestri miðstýringu og með sem mestri stjórnun stjórnmálamannanna sjálfra á flestum þáttum efnahagsmála. Með hafta- og leyfakerfi átti að tryggja að útflutningur yrði a.m.k. ekki minni en innflutningur. Með styrkjum og uppbótum átti að tryggja stöðugt gengi. Með niðurgreiðslum og verðlagseftirliti sem stjórnmálamenn stýrðu meira og minna átti að tryggja stöðugt verðlag. Með opinberri stýringu vaxta átti að tryggja eðlilegt ástand á fjármálamarkaði. Með verðstöðvunarlögum átti að tryggja stöðugt verðlag og næðist það ekki fram með verðstöðvunarlögum voru dæmi um það að á sama tíma og almenn verðstöðvunarlög voru í gildi voru sett lög um sérstaka tímabundna verðstöðvun til að tryggja það enn meira að verðlag færi ekki úr böndunum.

Ég man þá tíma þegar eitt af verkefnum ríkisstjórna var t.d. að ákveða verð á smjörlíki. Íslendingar voru fastir í þessum hugsunarhætti miklu lengur en nokkur önnur þjóð í Vestur-Evrópu og eru raunverulega ekki nema tiltölulega fá ár síðan menn köstuðu þessum hugsunarhætti fyrir róða. Og það er nánast merkilegt, herra forseti, hvað urðu þó miklar framfarir á Íslandi miðað við það kerfi sem stjórnmálamennirnir aðhyllust í stjórnun efnahagsmála og líktist engu öðru frekar en stjórnkerfi því sem beitt var í Austur-Evrópuríkjunum og leiddi til algjörs hruns efnahagslífsins þar, til mikillar fátæktar, mikillar mengunar og mikillar afturfarar.

Nú höfum við þó loksins horfið frá þessari stefnu en þó er ekki svo að stjórnvöld hafi engin áhrif á efnahagslífið og það sem þar er að gerast og mun gerast. Mesti áhrifavaldur í höndum stjórnvalda í þeim efnum eru einmitt ríkisfjármálin því að það er fyrst og fremst með stjórn sinni á ríkisfjármálum, eins og kemur fram við afgreiðslu fjárlaga, sem stjórnvöld geta haft áhrif til góðs eða til ills á það sem gerast mun í efnahagsmálum þjóðarinnar á næstu missirum.

Hæstv. fjmrh. lýsti þessu mjög skörulega á erfiðleikaárunum þegar við sátum saman í ríkisstjórn. Þá sagði hann að hlutverk stjórnvalda á erfiðleikaárum og krepputímum væri að ýta undir framkvæmdir, greiða fyrir fólki með auknum tekjutilfærslum og auka afskipti hins opinbera til að draga úr áhrifum kreppunnar og ýta undir bjartsýni og framkvæmdarvilja. Hæstv. fjmrh. sagði þá að það væri afsökunarvert og raunar óhjákvæmilegt að reka ríkissjóð með halla í slíku árferði auk þess sem það væri skynsamlegt. En hæstv. fjmrh. sagði við sama tækifæri að slík stjórnunarstefna væri gersamlega óafsakanleg í góðæri. Á slíkum tímum væri það skylda ríkisstjórnarinnar að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskap með því að reka ríkissjóð með rekstrarafgangi og ég legg áherslu á, með rekstrarafgangi. En það gerist ekki nú þó svo að nú séum við að upplifa eina mestu uppsveiflu sem orðið hefur á síðustu áratugum í efnahagslífi þjóðarinnar sem m.a. leiðir til þess að spár fjmrn. um líklegar tekjur ríkissjóðs rætast ekki því tekjurnar eru svo miklu meiri en fjmrn. gerir ráð fyrir í upphafi árs. Þar eru komin önnur viðhorf en voru á árunum t.d. þegar þessir efnahagsörðugleikar voru að byrja og lengi síðan, á árunum eftir 1987 þegar tekjuspá fjmrn. rættist ekki, þ.e. hún rættist ekki vegna þess að áhrif hagsveiflunnar niður á við voru svo mikil á tekjur ríkissjóðs að þær urðu langtum minni en áætlað var í upphafi árs.

Nú er öldin önnur. Nú eru tekjur ríkissjóðs miklu meiri á árinu sem er að líða en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga fyrir aðeins einu ári. Við erum sem sé nú í miðju góðæri og þá sagði núv. hæstv. fjmrh. að óafsakanlegt væri við slíkar aðstæður að halda þannig á stjórn ríkisfjármála að ekki skilaðist umtalsverður rekstrarhagnaður í ríkisreikningi þegar gert væri upp. Og menn hafa sagt sem telja sig hafa vit á, að ekki væri óeðlileg miðað við árferðið eins og það er á Íslandi í dag að ríkissjóður yrði rekinn með 5 milljarða rekstrarafgangi. En eins og niðurstöðutölur fjárlagafrv. sem við erum að ræða nú við 3. umr. eru, þá eru menn að tala um afgang upp á 0,1%. Upp á einhverjar 370 millj. sem virðist nú, m.a. samkvæmt tillögum sem lagðar hafa verið fram við 3. umr. og líklegt er að verði samþykktar, að lækki ofan í 130 millj. eða eitthvað þar um bil og þá er sem sé afgangurinn kominn niður í undir 0,1% af heildarfjárhæðum tekna- og gjaldamegin og menn hrósa sér af því sem einhverjum árangri. Þetta er að sjálfsögðu hlægileg niðurstaða miðað við þær forsendur sem ég lýsti hér áðan og þá nauðsyn sem hæstv. fjmrh. sjálfur sagði að væri á því að skila ríkissjóði með góðum afgangi í góðæri til þess að vinna á móti þensluáhrifum og varðveita jafnvægi í efnahagsmálum.

[20:45]

Ég verð nú að segja eins og er að báðir þeir ágætu félagar, hæstv. fjmrh. og hv. formaður fjárln. ættu að bera kinnroða fyrir því, virðulegi forseti, að leggja fram fjárlagafrv. til afgreiðslu með rekstrarafgangi af þessu tagi, 0,09% rekstrarafgangi. Það tekur því varla að færa það til bókar því þetta er eins og að færa aukastafi í 10. eða 12. lið, eitthvað slíkt og það skuli menn tala um sem viðunandi árangur eða árangur sem einhver sterkasta ríkisstjórn í þingmönnum talið síðustu ára á Íslandi geti gumað sig af í uppsveiflu góðæris, það er þyngra en tárum taki. Og þetta er svo gjörsamlega í andstöðu við þá varfærnu fjármálastefnu sem Sjálfstfl. þykist í orði kveðnu vera merkisberi fyrir að það er með ólíkindum að þessi flokkur skuli þora að orða sig við slíka stefnu lengur. Og það er líka með ólíkindum að ungir sjálfstæðismenn sem hafa venjulega reynt að halda vöku sinni í þessum flokki skuli ekki hafa ályktað harðar en þeir hafa gert gegn slíkri stjórnmálastefnu því að þessi niðurstaða í uppsveiflu góðæris, að skila 0,09% áætluðum rekstrarafgangi á ríkissjóði er, herra forseti, þeim flokki til skammar og vissulega ástæða til að benda á árangur stjórnunarstefnu Sjálfstfl. í ríkisfjármálum sem lítur svona út.

En er líklegt að þessi árangur náist? Svo er ekki. Í fyrsta lagi hafa menn horft upp á það hér við fjárlagaafgreiðsluna að þegar fjárln. eða meiri hluti hennar lagði fram sínar tillögur í tvígang þá í fyrra skiptið voru útgjöld ríkisins aukin samkvæmt tillögum fjárln. um 1,6 milljarða kr. og nú í seinna skiptið upp á 1.100 millj. kr. eða um 2,7--2,8 milljarða kr. við afgreiðslu Alþingis á fjárlögum. Þetta er tala sem ég minnist ekki að hafa séð áður. Ætli ég hafi nokkurn tíma áður séð svo mikla hækkun á útgjöldum fjárlaga í meðförum fjárln. á mínum þingmannsferli?

Menn voru að tala um hér fyrir einu eða tveimur árum 500 og 600 millj. kr. sem fjárln. var að afgreiða mitt á erfiðleikaárunum þegar menn voru þó að reyna að ýta undir umsvif í þjóðfélaginu með útgjöldum úr ríkissjóði. Nú er verið að auka útgjöld ríkissjóðs um 2.700 millj. kr. í meðferð fjárln. og þar eyða menn hverri einustu krónu sem upp í hendurnar á þeim kemur þrátt fyrir þá þörf sem hæstv. fjmrh. hefur marglýst á því að reka ríkissjóð með góðum afgangi í góðæri.

Í öðru lagi gera menn ráð fyrir því að ná þessum árangri, ef árangur skyldi kalla, upp á 0,09% í rekstrarafgang með því að selja eigur ríkissjóðs upp á 2.700 millj. kr. og ráðstafa innkomu af þeim eignum til útgjalda í rekstri. Þetta er svona svipað og ef fjölskylda sem á í erfiðleikum með að greiða Visa-kortið sitt vegna reksturs heimilisins, seldi kjallarann undan íbúðarhæðinni til að afla fjár til að greiða Visa-kortið, kæmi svo og segði: ,,Rekstur okkar fjölskyldu er í jafnvægi.`` Sleppti að minnast á það að eignir fjölskyldunnar hefðu verið notaðar að nokkru leyti a.m.k. til þess að greiða rekstrarkostnaðinn, til að greiða skuldina á Visa-kortinu. Með þessum aðferðum nær hæstv. ríkisstjórn bókhaldslegri niðurstöðu upp á 0,09% í afgang, með því að selja ríkiseignir upp á 2.700 millj. kr. og nota andvirði þeirrar eignasölu til að borga rekstrarútgjöld. Þar fyrir utan eru þessar 2.700 millj. kr. ekki fuglar í hendi heldur fuglar í skógi vegna þess að aldrei hafa áætlanir fjmrn. um tekjur fyrir sölu á ríkiseignum ræst. Þær áætlanir hafa aldrei ræst allt frá fyrsta degi að þær voru settar fram. Þær hafa aldrei gengið upp þannig að þessir fjármunir sem hér er verið að tala um og verið er að nota til að reyna að jafna afkomu ríkissjóðs á pappírnum eru ekki í höndum hæstv. fjmrh. í dag og enginn getur fullyrt um hversu mikið af þeim muni skilast í hendur honum á næsta ári. Það er aðeins eitt sem hægt er að fullyrða og reist er á dómi reynslunnar. Þessi fjárhæð mun ekki skila sér í ríkissjóð til hæstv. fjmrh. Hins vegar getur enginn mannlegur máttur sagt um það í dag hversu mikið eða hversu lítið af þessari fjárhæð muni skila sér.

Í þriðja lagi hefur það komið fram hjá minni hlutanum og er mjög vel rökstutt og hefur ekki verið hrakið að ekki er farið rétt með hluta af þeim lífeyrisskuldbindingum sem falla munu á ríkissjóð á næsta ári. Samkvæmt lögum frá Alþingi í fyrra um hvernig færa skuli ríkisreikning og fjárlög á að færa um rekstur ríkissjóðs um 4 milljarða kr. sem ekki eru færðir þannig í fjárlagafrv. heldur færðir um höfuðstól þannig að það vantar um 4 milljarða kr. gjaldfærslu gjaldamegin í frv. En hæstv. ríkisstjórn hlýtur að vita að hún sleppur ekki undan þessari gjaldfærslu. Ríkisreikningsnefnd mun sjá til þess að lögum verði framfylgt og hvernig svo sem hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. reyna að komast fram hjá því að framfylgja ákvæðum laga sem sett voru á Alþingi í fyrra þá mun þessi fjárhæð vera færð til rekstrarkostnaðar í ríkisreikningi fyrir árið 1998 og mun koma fram sem hallatala í rekstri ríkissjóðs á því ári. Og það er með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti fjárln. skuli grípa til þess, vitandi vits, að halda svona fjárhæðum utan gjaldahliðar fjárlaga við fjárlagaafgreiðsluna, vitandi það fyrir víst að ríkisreikningsnefnd muni breyta þeirri niðurstöðu við færslu ríkisreiknings og færa þessa fjárhæð eins og hún á að vera, gjaldamegin í rekstri ríkissjóðs.

Í fjórða lagi hefur hér komið fram og verið mjög vel rökstutt, m.a. af frsm. minni hluta fjárln., hv. þm. Kristni Gunnarssyni, að það er vitað, fjárln. veit að í fjárlagafrv. vantar um 2,5 milljarða kr. upp á það að útgjöld sjúkrahúsanna stóru í Reykjavík og á Akureyri séu rétt áætluð. Ef einhverjar fyrirætlanir væru nú uppi um að draga saman í starfsemi sjúkrahúsanna til þess að spara þessa fjármuni sem þýddi að ekki væri bara verið að draga saman í rekstri sjúkrahúsanna til að ná einhverjum sparnaði á næsta ári heldur líka til þess að spara fyrir uppsöfnuðum rekstrarhalla sjúkrahúsanna frá fyrri árum, þ.e. m.a. árinu í ár upp á um það bil 1 milljarð kr. og ef uppi væru áform um það að draga saman eða breyta rekstri þessara sjúkrahúsa þannig að útgjöld þeirra mundu lækka um 2,5 milljarða kr. þá væri út af fyrir sig álitamál að skoða slíkar tillögur. Það mundi að sjálfsögðu þýða að mjög verulegur niðurskurður yrði á þjónustu þessara sjúkrahúsa því að menn draga ekki saman um 2,5 milljarða í rekstri sjúkrahúsa án þess að grípa til mjög róttækra ráðstafana og draga mjög verulega saman seglin í þeirri þjónustu sem sjúkrahúsin veita í dag. En engin slík áform eru uppi. Við stjórnarandstöðuþingmenn getum ekki rætt við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um nein slík áform vegna þess að þeir hafa ekki lýst þeim. Þeir hafa ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að ná slíkri kostnaðarlækkun í sjúkrahúsunum. Þeir hafa engar tillögur um það. Þess vegna er ekki hægt að ræða tillögurnar við þá og spyrjast fyrir um það m.a. hvaða áhrif þær munu hafa. Það eina sem vitað er er að það vantar 2,5 milljarða kr. í fjárlagafrv. eins og það er úr garði gert í dag ef það á að jafna halla fyrri ára og yfirstandandi árs og tryggja að sjúkrahúsin geti rekið sig með óbreyttu rekstrarumfangi og þjónustustigi á næsta ári miðað við það rekstrarumfang og þjónustustig sem þau hafa rækt af hendi á þessu ári. Þarna er meiri hlutinn því einfaldlega að draga til baka 2,5 milljarða út úr rekstrarútgjöldum ríkissjóðs án þess að geta á einn eða annan hátt rökstutt það eða lagt fram tillögur um það hvernig eigi að ná þessum árangri þannig að hér er um enn eina platútreikningana að ræða. Það er verið að halda til hliðar fjármagni sem guð og hver maður veit að mun falla til greiðslu á árinu 1998 vegna þess að þess að nú er svo komið með stjórnendur sjúkrahúsanna, bæði aðalstjórnendur og undirstjórnendur, að þeim dettur ekki lengur í hug að reyna að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin er að setja þeim því að þessir stjórnendur vita að tilgangslaust er að reyna það og þeir vita að ekki er hægt að leysa þessi mál öðruvísi en svo að koma með þá fjármuni sem vantar einhvern tíma á fjárlagaárinu til að koma í veg fyrir að rekstur þessara sjúkrahúsa stöðvist. Þannig hefur það verið á því ári sem nú er að líða og þannig var það á árinu sem leið þar á undan. Lagt var upp með mikil áform og stór fyrirheit um niðurskurð og sparnað en málunum lauk alltaf á þann veg að þegar komið var fram yfir mitt ár, þá var komið með þá fjármuni sem á vantaði til að hægt væri að leysa úr sárustu neyð sjúkrahúsanna og þá var sagt: ,,Það sem við ekki gátum í ár ætlum við að gera á næsta ári.`` Þetta eru orðin vanavinnubrögð. Menn vita að svona verður það áfram því að engar handfastar tillögur eru frá meiri hlutanum um hvernig eigi að ná þessum mikla sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna. Engar hugmyndir þar um hafa verið kynntar fyrir Alþingi. Menn vita því fyrir fram, menn ganga að því sem gefnu að svona verður þetta á árinu 1998 og enginn mun láta sér koma til hugar að reyna að ná því markmiði sem sett er fram í fjárlagafrv. um að draga úr útgjöldum til þessara þriggja stóru sjúkrahúsa um hvorki meira né minna en 2,5 milljarða á einu ári.

[21:00]

Hvað þýðir þetta sem ég hef rætt hér um? Þetta þýðir að eins og við stöndum með fjárlagafrv. í dag, þ.e. þar sem menn reikna með tilflutningi frá eignum í rekstur, þar sem menn færa ekki 4 milljarða kr. af lífeyrisskuldbindingum inn í rekstrarlið fjárlaganna eins og ber að gera og þar sem menn halda til baka um 2,5 milljörðum kr. í útgjöldum vegna sjúkrahúsanna, þá stöndum við með fjárlagafrv. sem er ekki með 150 millj. kr. í rekstrarafgang heldur með raunverulegan rekstrarhalla upp á 8--10 milljarða kr. Það er sú tala sem a.m.k. maður með þá reynslu af ríkisfjármálum sem ég hef, sér glögglega að fjárlagafrv. stendur í. Hallatalan er upp á 8--10 milljarða kr. miðað við afgreiðsluna eins og hún er í dag.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. og reynsla er fyrir því frá síðastliðnu ári, að líklegt er að hagsveiflan sem hefur fært fjmrh. miklar tekjur umfram spár á yfirstandandi ári geri það líka á næsta ári. Það er mjög líklegt að hún geri það líka á næsta ári eins og hún hefur gert á árinu í ár. Og ef vel gengur og hagsveiflan á árinu 1998 verður ekki síðri en hún var á yfirstandandi ári sem margir efast nú um því þeir segja að nú séum við komnir á toppinn, en ef svo vel fer að tekjuaukning ríkissjóðs vegna hagsveiflunnar á næsta ári verði álíka mikil og hún var í ár, getum við reiknað með því að hagsveiflan skili ríkissjóði kannski 4--5 milljörðum kr. í auknar tekjur á árinu 1999. Við getum gert okkur vonir um það. Við stöndum því með ríkissjóð í nettóhalla í dag upp á 4--6 milljarða kr. Það er mín spá að sú verði niðurstaðan þegar reikningarnir verða gerðir upp í árslokin 1998. Þegar búið verður að gera þær lagfæringar á gjaldahlið frv. sem ég hef lýst og sem ég veit að ríkisreikningsnefnd mun gera því hún á ekki annars kost miðað við þau lög sem hún starfar eftir, þá stöndum við með ríkissjóð í halla upp á 4--5 milljarða kr. Með öðrum orðum, við erum 10 þús. millj. kr. neðan við það mark sem þeir sem best þekkja til segja að sé ásættanlegt fyrir ríkissjóð í þeirri uppsveiflu sem við höfum verið. Þeir hafa sagt: ,,Í svona árferði ber ríkissjóði að skila rekstrarafgangi upp á um 5 milljarða kr.`` Ég tel að við stefnum í rekstrarhalla á ríkissjóði upp á nettó 4 milljarða, eða u.þ.b. þannig að árangur hæstv. fjmrh. er um 10 þús. millj. kr. neðan við það sem hann telur sjálfur ásættanlegt.

Hv. stjórnarsinnar segja að stjórnarandstæðingar séu nú að flytja skattahækkunartillögur. Það er rétt. Við höfum flutt slíkar tillögur vegna þess að við höfum viljað sýna fram á að afla þurfi meira fjár ef greiða eigi þau útgjöld úr ríkissjóði sem hæstv. ríkisstjórn gerir ráð fyrir að greiða þurfi og þau útgjöld sem við höfum sýnt fram á í okkar tillöguflutningi að eru óhjákvæmileg og munu flestöll falla á ríkissjóð sama hvað tautar og raular. En stjórnarsinnar eru líka að flytja skattahækkunartillögur því það að reka ríkissjóð með 4 milljarða kr. halla á árinu 1998 er að flytja tillögur um skattahækkanir. En það á bara að fresta þeim. Þær skattahækkanir hljóta að koma fyrr eða síðar því það verður að greiða þennan halla á ríkissjóði þannig að hv. stjórnarsinnar eru að flytja skattahækkunartillögur sem eru tvöfalt hærri en þær sem stjórnarandstaðan hefur flutt. Þær eiga bara ekki að taka gildi strax. Þær eiga að taka gildi einhvern tímann síðar. Og því er ekki svarað af stjórnarsinnum hvenær einhvern tímann síðar þetta á að gerast. Það á bara ekki að gerast á árinu 1998. Þá á að reka ríkissjóð með 4 milljarða kr. halla. Stjórnarsinnar geta því ekki hrósað sér af því að vera að leggja fram fjárlagafrv. með engum skattahækkunum. Þetta er fjárlagafrv. með miklum skattahækkunum. Þeim er bara frestað þangað til síðar.

Herra forseti. Ýmislegt vekur ugg í sambandi við þá þróun sem virðist fyrirsjáanleg á næsta ári. Ríkisstjórn þar sem Sjálfstfl. heldur um stjórnvölinn bæði í ríkisstjórn og í fjárlagagerð, gerir ráð fyrir að samneysla aukist um yfir 3% á árinu 1998, þ.e. að samneyslan aukist um 20--25% frá árinu í ár og í ár jókst samneyslan um þriðjung frá árinu í fyrra. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur einfaldlega að útgjöld ríkisins, útgjöld hins opinbera sem er annað orð yfir samneysluna, fara nú mjög hratt vaxandi. Spáð er verulegum viðskiptahalla á næsta ári, þ.e. við flytjum inn miklu meira af vörum og þjónustu en við flytjum út. Ástandið í þeim málum á yfirstandandi ári mundi hafa verið skelfilegt ef ekki hefðu komið til sögunnar hin miklu kaup lífeyrissjóðanna á erlendum verðbréfum sem bjargað hafa því sem bjargað varð. En viðskiptahallinn sem undir kraumar er miklu meiri en tölurnar gefa til kynna vegna þess að kaup lífeyrissjóðanna á erlendum verðbréfum koma þar inn í og þessi viðskiptahalli mun áfram verða óbreyttur á næsta ári, jafnvel þó svo að ekki sé gert ráð fyrir því að fjárfesting vaxi neitt að marki, eða um 1,5% ef ég man rétt.

Í þessu árferði er hins vegar gert ráð fyrir að erlendir gjaldmiðlar haldi áfram að lækka, þ.e. að gjaldeyririnn verði ódýrari á næsta ári en hann hefur verið. Sá sem ekki skynjar þessi þenslumerki, þennan þrýsting á verðbólgu, gengi og vexti sem þarna er verið að segja okkur, er blindur maður. Ég er ekki að segja að við eigum á næsta ári eftir að upplifa þá óðaverðbólgutíma sem við þekktum fyrir nokkrum árum. Ég er ekki að tala um að verðbólga á Íslandi á næsta ári verði mæld í tugum prósenta. En mér sýnist að lausatök ríkisstjórnarinnar á ríkisfjármálunum muni valda því að verðbólga á Íslandi fari nú vaxandi og verði á næsta ári eitthvað meiri, jafnvel umtalsvert meiri, en hún er í helstu viðskiptalöndum okkar. Það þýðir að Ísland er smátt og smátt að missa stöðu sína í samkeppni við þær og aðrar þjóðir á helstu mörkuðum okkar og viðbrögðin verða þau að stöðugt aukinn þrýstingur verður á lækkun gengis íslensku krónunnar og þar með erum við komin inn í þann vítahring sem Íslendingar þekkja svo vel af eigin reynslu.

Herra forseti. Það alvarlega sem er að gerast við þessa fjárlagaafgreiðslu er að hæstv. ríkisstjórn er að missa stjórn á ríkisfjármálunum. Hvers vegna? Eitt helsta hlutverk hvers forsrh. er að styðja fjmrh. sinn í erfiðum verkum. Það er eini bakhjarlinn sem hver fjmrh. hefur því sá maður á fáa vini. En á það hefur mikið skort. Hvað eftir annað hefur hæstv. forsrh. slegið fæturna undan viðleitni hæstv. fjmrh. Ég skil vel að fjmrh. hafi áhyggjur af því. Það er ekki öfundsverð staða, virðulegi forseti, og skyldi engan undra þótt hæstv. fjmrh. fari nú að þreytast.