Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:43:18 (2869)

1997-12-19 22:43:18# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:43]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að íslenska heilbrigðiskerfið sé gott. Hins vegar á það við fjárhagsvanda að etja eins og oft hefur komið fram hér. Aðferðin er umdeild núna. Hún er að styrkja stöðu ráðuneytisins til að vinna í málefnum sjúkrahúsanna. Veittir eru fjármunir til þess að auka þar við starfslið í fullu starfi til þess að fara yfir málefni sjúkrahúsanna og þar á meðal Sjúkrahúss Reykjavíkur og það hefur oft verið rakið í þessari umræðu. Kanna þarf stöðu þeirra samninga sem gerðir hafa verið þar. Komast þarf að raun um hvar núllpunkturinn er, til að byrja. Komast þarf að raun um hve vandinn er mikill þegar þeir samningar sem hafa verið gerðir ganga eftir, hvaða möguleikar eru til samstarfs og hagræðingar. Ég tel þessar 100 millj. sem fram voru lagðar mikilvægar og þær eru merki um að við viljum taka á viðhaldsvandanum í sjúkrahúsinu sem ég veit að er mjög brýnt verkefni. Hann er einn þátturinn í aðbúnaðinum og vinnuumhverfinu á sjúkrahúsinu. Það er alveg ljóst. En með 100 millj. í viðbót við 46,6 millj. sem þar eru inni, þá ætti að vera kominn möguleiki á að gera áætlun um að ráðast í viðhaldið. Nefndar hafa verið tölur um að sú upphæð sem þarf þar inn sé milli 500--600 millj. kr., en tæpast er hægt að mæta því á einu ári og þarf að gera áætlun til lengri tíma um það.