Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:47:59 (2871)

1997-12-19 22:47:59# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KPál
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég kem upp til þess að ræða aðeins um lið 05-190 Ýmis verkefni, Fiskifélag Íslands, sjóvinnslukennsla sem er viðbót og breyting milli 2. og 3. umr. upp á 7 millj. Samkvæmt texta í nefndaráliti er verið að gera tillögu um 7 millj. kr. viðbótarframlag til reksturs skólaskips á grundvelli niðurstöðu nefndar skipaðrar af sjútvrh. Áformað er að leigja hafrannsóknaskipið Dröfn RE 35 til þessa verkefnis.

Ég var einn af þeim sem voru skipaðir í þá nefnd sem lagði til að hafrannsóknaskipið Dröfn yrði tekið eða leigt í verkefni til að sinna sjóvinnukennslu og kynningu á sjóvinnustörfum í grunnskólum landsins. Það var einróma álit nefndarinnar að það væri mjög stórt skref í þá átt að ná árangri að leigja svo stórt skip sem Dröfn er með þeim möguleikum sem því fylgja sem einu af hafrannsóknaskipum landsins með þjálfaða áhöfn og útbúnað um borð sem telst til fullkomnustu tækja sem völ er á á þessu sviði.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir hafði á orði fyrr í kvöld að hún hefði áhyggjur af því að með því að leigja þetta skip í staðinn fyrir Haftind, sem Karel Karelsson hefur rekið á undanförnum árum og nýtt til kennslu fyrir ungmenni um land allt, yrði það til þess að draga úr því starfi sem hann hefur haft með höndum síðustu þrjú árin. Ég held að ekki sé nein ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að það starf sem Karel Karelsson hefur sinnt á undanförnum árum eigi að líða neitt sérstaklega fyrir þetta, enda erum við að tala um óskyld störf eða óskylda kennslu að mörgu leyti. Starf Karels fólst í upphafi fyrst og fremst í því að þjálfa upp ungmenni sem höfðu lent utan garðs eða illa í lífinu og þurftu aðstoðar með á vegum félagsmálastofnana og Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Hann gerði sérstaka samninga við sveitarfélögin um það að ráða þessi ungmenni um borð í Haftind og þau ungmenni voru skráð sem áhafnarmeðlimir um borð í Haftind til þess að róa til fiskjar. Í þessu fólst sú almenna skoðun sjómannsins að verið væri að koma ungum mönnum til manns eða eins og sagt er á sjómannamáli að hafa migið í saltan sjó eins og sagt var hér í gamla daga en á hugsanlega ekki við enn í dag en svona var talað um unga menn í þá daga. Ég held að hlutverk Karels að þessu leyti og Haftinds verði ekkert öðruvísi en það hefur verið og ég veit að verið er að vinna að því í kerfinu að sú starfsemi sem lýtur að þjálfun ungmenna verði áfram eins og hún hefur verið þannig að Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar ásamt félagsmálastofnunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu munu nýta sér þá þjónustu. Ég vona svo sannarlega að ekkert skyggi á þau störf sem hafa verið innt af hendi um borð í Haftindi og ég get borið um að það hefur verið einróma lof um það starf sem þar hefur farið fram.

Dröfnin er aftur á móti í mínum huga einstakt tækifæri fyrir þá sem vilja tengja saman grunnskóla og sjómennsku, fljótandi skólastofu og grunnskóla í skipi sem getur talist í augum allra, bæði foreldra, nemenda og kennara 100% öruggt skip til að geta tekið við stórum hópum til að kenna líffræði, bæði verklega og í fyrirlestraformi, um borð í einu skipi, undir þiljum sem er mjög óvenjulegt eða hefur ekki verið hingað til hægt í þeim skipum sem hafa verið notuð til þeirrar sjóvinnukennslu sem hefur verið starfrækt á landinu fram að þessu.

Við höfum þó nokkra reynslu af rekstri skólaskipa og ekki er langt síðan bátur sem var kallaður Mímir og fórst voveiflega fyrir nokkrum árum var notaður til þessarar sjóvinnukennslu. Það skip var einungis 15 tonn. Það fór gott orð af þeirri kennslu en öllum bar saman um að það skip væri of lítið. Haftindur er að sjálfsögðu mun stærra skip, um 55 tonn, og hefur getað þjónað hlutverki sínu ágætlega og þá sérstaklega því hlutverki að koma ungu fólki til manns sem hefur þurft á aðstoð að halda. Þar hefur kannski ekki síst verið um að ræða kennslustarf sem hefur fengið menn sem hafa ekki fundið sér tilgang í lífinu til þess að sinna einhverju ákveðnu hlutverki.

Ég lít svo á að það sé stórkostlegt tækifæri að geta tengt saman grunnskólann og Hafrannsóknastofnun. Sú tilraun var hugsuð af nefndinni til tveggja ára. Að þeim tveimur árum liðnum væri ekki einungis ríkissjóður sem mundi reka þetta verkefni heldur væru það sveitarfélögin, hugsanlega ásamt ríkinu, sem mundu sjá um verkefnið og á þessum tveimur árum yrði reynt að afla því vinsælda innan skólakerfisins með markvissu starfi sem byggðist á því að laða skóla og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu að þessu skipi og því starfi sem mundi verða um borð í skipinu.

Ég held að við gerum okkur grein fyrir því sem höfum stundað sjóinn og þekkjum óttatilfinningu fólks við sjóinn yfirleitt að það skiptir mjög miklu máli hvernig fyrstu hughrif eru þegar menn koma að skipi, fara um borð og átta sig á aðstæðum. Mjög mikil áhersla er lögð á það af hálfu allra og þá ekki síst aðstandenda og skólanna að ekki sé hægt að segja að það sé verið að etja börnum út í neina óvissu. Þess vegna held ég að maður geti sagt að á svæði eins og á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk er fjarlægara sjómennskunni og sjónum en aðrir landsmenn þurfi að beita öðrum aðferðum en þykja eðlileg þar sem menn stunda sjóinn daglega, koma niður á bryggju og sjá hvernig skip eru. Af þeirri ástæðu töldum við nauðsynlegt að fara út í þetta starf með nýjum forsendum og nýjum áherslum sem byggðust á þessari auknu stærð, starfi sem gæti farið fram undir þiljum að mestu leyti og rannsóknarkennsla og fræðastörf gætu jafnframt farið fram á sama stað í fljótandi skólastofu.

Reksturinn byggist í rauninni alfarið á því að hægt sé að sannfæra skólafólk á höfuðborgarsvæðinu um að þetta sé fýsilegur kostur, að miklu eðlilegra sé að fara með ungmenni um borð í slíkt skip til þess að kynna þeim hvernig sjómennska fer fram, líffræði, vinna um borð í skipum. Það er miklu meira atriði að ná tökum á því hér vegna þess að þetta er sá hópur sem kemur til með að borga þann kostnað sem felst í slíku námi þegar upp er staðið. Það er dýrt að gera út svona skip og það verður ætlast til þess í framtíðinni að sveitarfélögin taki a.m.k. verulegan þátt í þessu starfi einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin hafa tekið yfir grunnskóla og mönnum finnst sú blanda sem hér er ekki heppileg þegar til lengdar er litið, að sveitarfélög og ríki séu að skipta á milli sín slíkum verkefnum.

Ég vil að lokum, herra forseti, fagna því að Alþingi tekur svona á málinu. Ég held að við séum að stíga verulega stórt skref í þá átt að tengja saman sjóinn og grunnskólana. Þetta er gert örugglega og faglega sem ég efast ekki um að verði hægt að vinna þannig í framtíðinni að sú starfsemi sem tengist sjómennsku og faglegu starfi um borð í skipum verði til framtíðar en ekki einungis til reynslu í tvö ár.