Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 22:59:43 (2872)

1997-12-19 22:59:43# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[22:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var nokkuð undrandi þegar ég sá þá tillögu sem fyrir lá og hlýddi þess vegna með athygli á mál hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér áðan til að reyna að átta mig betur á því hvað væri um að vera. Það verður að segjast eins og er að ég er ekki miklu nær.

Hér er verið að tala um útgerð á skipi sem verður dýr en það er víst í lagi af því að sveitarfélögin eiga að reka það, þ.e. ef það tekst að vinna því vinsældir eins og hv. þm. sagði og sannfæra skólafólk á höfuðborgarsvæðinu um nauðsyn þess. Hér er verið að tala um peninga til þess að fara af stað með verkefni sem þriðji aðili á síðan að taka við eftir að búið er að sannfæra menn um að á þessu sé þörf. Fróðlegt væri að vita hvort fleiri af þeim tillögum sem stjórnarliðar, ríkisstjórnarmeirihlutinn er að sulla inn eru vaxnar með þeim hætti sem þessi tillaga er.

Satt best að segja kom mjög á óvart eftir inngang í ræðu hv. þm. að niðurstaðan skyldi verða sú að verið er að hugsa um skip sem ég gat ekki heyrt betur en ætti að liggja í Reykjavíkurhöfn. Ég vildi þess vegna gjarnan að þingmaðurinn reyndi að útskýra ögn betur mikilvægi þess sem felst í því að fara í þessa fjárfestingu og hvort hann á bæði við karla og konur þegar hann talar um að koma ungum mönnum til manns.