Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:03:53 (2874)

1997-12-19 23:03:53# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:03]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki mikinn stuðning við landsbyggðina í gegnum tillöguna sem hv. þm. reyndi enn að útskýra en satt best að segja með þeim árangri að þeim mun meira sem talað er þeim mun minna skilur maður. Tilfinningin sem situr eftir er sú að hér fékk einhver hugmynd. Henni var komið í gegn, guð má vita hvernig, en það á eftir að fá skólana til að samþykkja hana. Það á eftir að fá skólana til að þýðast hana því að enginn hefur beðið um hana. Hins vegar hafa ýmsar aðrar hugmyndir verið á kreiki og ýmis vinna er í gangi sem er allt annars eðlis en hv. þm. er að tala um. Ég er ansi hrædd um að það eigi eftir að vinna mikla undirbúningsvinnu, mikla grunnvinnu áður en hugmynd eins og þessi á nokkurn rétt á sér, einfaldlega vegna þess að ég held að hv. þm. sé að tala fyrir hugmynd sem er ekki verið að biðja um, sem er ekki búið að kanna hvort nokkur þörf er fyrir og hann er að tala út frá óskhyggju sem á alls ekki heima.