Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:05:06 (2875)

1997-12-19 23:05:06# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki almennilega á pirringnum í hv. þm. yfir því að verið sé að útfæra tillögur sem eru í raun ekkert nýjar. Skólaskip hefur verið rekið í mörg ár þannig að hugmyndin er ekkert ný. Það er fyrst og fremst nýtt að verið er að tala um stærra skip en áður hefur verið í notkun þannig að mér finnst ótrúlegt hvernig hv. þm. bregst við þessu.

Við höfum rætt um þetta mál við forsvarsmenn skóla í Reykjavík til að mynda og skóla annars staðar á svæðinu og þar hafa forsvarsmenn þeirra tekið afskaplega vel í hugmyndina og talið það forsendu fyrir því að skólarnir á höfuðborgarsvæðinu geti tekið þátt í þessu, að það verði um stórt og öflugt skip að ræða sem tryggir öryggi barnanna. Tilfinning skólamannanna er því sú að þarna sé eitthvað sem allir geta trúað og treyst. Ég átta mig ekki almennilega á því hvers vegna hv. þm. bregst við með þessum hætti.