Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 23:59:53 (2878)

1997-12-19 23:59:53# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, MF
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:59]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka fyrir þau gögn sem við þingmenn höfum fengið frá hv. fjárln. og þá miklu vinnu sem ég veit af eigin reynslu að hefur átt sér stað bæði hjá meiri hluta og minni hluta, og þá kannski einkum minni hluta sem býr við örlítið aðrar aðstæður en meiri hluti hvað varðar aðstoð við upplýsingaöflun og fleira. Engu að síður vil ég hefja ræðu mína á því að þakka sérstaklega fyrir þau gögn sem við höfum fengið hér í þingsölum og eins í nefndir, einstaka fagnefndir, upplýsingar sem hafa komið frá fjárln. og nefndarálitin sem hér liggja fyrir sem ég tel vera einkanlega góð. Þar sem ég tel frhnál. frá minni hluta fjárln. túlka í raun þá skoðun sem ég hef á frv. til fjárlaga, sem er til umræðu og þeim brtt. sem hafa komið fram, þá vil ég að sjálfsögðu þakka sérstaklega fyrir það samansafn upplýsinga fyrir okkur þingmenn.

[24:00]

Ég tek undir margar þær áhyggjur sem fram koma í álitum en ekkert síður en í ræðum hv. þingmanna úr þessum ræðustól í dag og reyndar við 2. umr. fjárlaga. Ég vil lýsa áhyggjum mínum af því að þrátt fyrir að hv. þingmenn meiri hluta fjárln. og aðrir hv. stjórnarliðar lýsi því að fagna beri því að við séum á leið til betri vegar og frv. eða fjárlögum sé nú skilað með tekjuafgangi þá er sá tekjuafgangur í raun orðinn örlítill. Manni virðist að fyrir þrjóskuna eina hafi verið haldið í einhverjar upphæðir til þess að hæstv. fjmrh. gæti haldið reisn sinni að einhverju leyti. Um leið og við fáum tölur um hinn litla tekjuafgang sem á að skila, fáum við á borð okkar upplýsingar þess efnis að ef aðeins heilbrigðismálin eru tekin, muni á næsta ári líklega vanta hátt í 2 milljarða kr til þess málaflokks. Þetta hefur verið rökstutt af þingmönnum. Við höfum þetta í gögnum frá hv. fjárln. og við höfum þetta í gögnum frá starfsfólki sjúkrahúsa og rekstraraðilum þeirra. Ég verð að segja að þetta eru auðvitað ekki vönduð vinnubrögð. Það er ekki trúverðugt að leggja þessa niðurstöðu fram um leið og menn viðurkenna í viðtölum við fjölmiðla að rekstrarvandi heilbrigðiskerfisins sé mjög mikill og á honum verði að taka. Ég vonaði auðvitað að á milli 2. og 3. umr. um fjárlögin yrði tekið á vandanum og fram kæmu tillögur til úrbóta. En því miður sýnist mér að þær yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. fjmrh. um nauðsyn þess að skila hallalausum fjárlögum hafi verið látnar ráða umfram þá skynsemi að taka á þeim vanda sem við blasir og varð ekki til á þessu ári. Hann er gamall og uppsafnaður vandi nokkurra undanfarinna ára.

Í nefndaráliti minni hluta fjárln. kemur fram að endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs geri ráð fyrir að tekjur verði 2,3 milljörðum kr. hærri en í fjárlagafrv. Engu að síður bendir minni hlutinn á að þarna séu tekjur ríkissjóðs vanáætlaðar. Minni hlutinn lýsir áhyggjum sínum yfir því að mat á þjóðhagshorfum undanfarinna ára hefi verið rangt og bendir á nauðsyn þess að tekið sé á því og menn leiti leiða til úrbóta eins og hér segir í kaflanum um þróunina 1997, með leyfi forseta: ,,Er það mjög svipað og minni hlutinn spáði í fyrra við afgreiðslu fjárlaga.`` Þ.e. hverjar tekjur ríkissjóðs eru í raun.

Spár minni hluta fjárln. í fyrra reyndust marktækari en þær spár sem meiri hlutinn byggði sínar áætlanir á. Það er verulegt áhyggjuefni hversu ónákvæmar spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst síðustu ár og ástæða til þess að athuga sérstaklega hvernig á því stendur og hvað sé til úrbóta. Ég tek undir þetta sjónarmið minni hluta fjárln. og minnug þess, eftir að hafa verið í þessari nefnd ein átta ár, að þetta er vandamál sem við þurftum að fást við á hverju einasta ári. Þarna verður að taka á og skoða í hverju þetta liggur. Við eigum í hæft fólk til þess að meta þjóðhagsforsendur og meta framtíðina og þess vegna er með ólíkindum að þetta skuli geta gerst ár eftir ár.

Minni hlutinn tekur sérstaklega á því að það séu verulegir vankantar á gjaldahlið frv. Þar er komið inn á það sem ég nefndi áðan. Háar fjárhæðir vantar til reksturs sjúkrahúsa landsins og undanfarin ár hefur kerfisbundið vanmat á útgjöldum almannatrygginga verið til staðar. Varlega áætlað gæti verið um liðlega 2 milljarða kr. vanmat á þessum útgjöldum að ræða að mati minni hlutans. Að öllu samanlögðu hlýtur minni hlutinn að telja yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög byggð á afar veikum grunni og umtalsverður halli verði á ríkissjóði þegar upp verði staðið.

Öll þau gögn sem við höfum fengið um heilbrigðis- og tryggingakerfið á undanförnum vikum frá því að fjárlögin voru lögð fram benda til þess að mat minni hluta fjárln. muni að ári reynast jafnrétt og þær spár sem minni hluti fjárln. setti fram um horfurnar fyrir þetta ár. Mér finnst það ábyrgðarlaust af meiri hluta fjárln., hæstv. ríkisstjórn sem ræður auðvitað ferðinni í þessum málum, að setja þetta fram með þessum hætti. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir t.d. stóru sjúkrahúsanna hér á höfuðborgarsvæðinu til þess að vekja athygli þings og framkvæmdarvalds á þeim vanda sem við blasir, þá er ekki tekið á honum með nokkrum hætti. Það litla sem gerist er að menn setja í pott til útdeilingar. Mér skilst að það eigi jafnvel að verða fullt starf þeirra sem sjá um útdeilingar að meta vanda sjúkrahúsa og ákveða hverjar upphæðirnar verði. Í þessu útdeilingarstarfi eru sjálfsagt launaðar stöður og að mínu mati veikleikamerki að fara þessa leið. Ég treysti fjárln. fullkomlega til þess að gera tillögur um útdeilingu með hliðsjón af þeim gögnum sem fjárln. hefur fengið í hendur. Að vísu skilst mér, ég verð leiðrétt ef það er misskilningur, að listi frá heilbrrn. um heilbrigðisstofnanir utan Reykjavíkur sem búið hafa við hallarekstur til marga ára ekki hafi verið tekinn til umræðu. Sagt var að sá listi hafi ekki verið tekinn til gagngerrar skoðunar og umræðu í fjárln. Ástæðan hlýtur að vera sú að menn treysta öðrum betur en Alþingi til að deila út fjármagni. Þetta er röng þróun og hættuleg miðað við að hér er um að ræða lista yfir heilbrigðisstofnanir undir heilbrrn. Hér er ekki verið að tala um halla á þessu eina ári, 1997, heldur er verið að tala um uppsafnaðan halla nokkurra undanfarinna ára. Því skyldi ráðuneytinu eða framkvæmdarvaldinu vera betur treystandi til þess að taka á vandamálinu í dag en á undanförnum árum?

Virðulegi forseti. Gott væri að fá hæstv. heilbrrh. í salinn ef hún er ekki þegar farin heim að leggja sig.

(Forseti (ÓE): Heilbrrh. er í húsinu.)

Ég mun að stórum hluta fjalla um heilbrigðismálin, stöðuna og vanda þeirra sjúkrahúsa sem meira og minna hafa verið tekin til umræðu í einum potti þó vandi þeirra sé ærið misjafn.

Þar til hæstv. heilbrrh. kemur vil ég ræða aðeins frekar um þær forsendur sem fjárlögin byggja á og þá niðurstöðu sem meiri hluti fjárln. hefur kynnt. Ég mun ræða um hvernig við förum með góðæri það sem við erum sögð búa við og það mat Þjóðhagsstofnunar að nokkuð sé liðið á hagsveifluna og búast megi við að afkoman verði nokkuð lakari á næstunni. Þá skyldi maður ætla að meiri hluti fjárln. og framkvæmdarvaldsins, hæstv. fjmrh., mundi reyna að vera tilbúinn og mæta þeirri niðursveiflu með samdrætti í ríkisrekstri sem ekki hefur verið. Auknar ríkistekjur hafa fyrst og fremst þýtt aukin ríkisútgjöld. Þær hafa farið í aukin ríkisútgjöld á undanförnum árum án þess að hlutverk ríkisins hafi á nokkurn hátt verið skilgreint. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa menn ekki farið í það brýna verk að skilgreina hlutverk ríkisstofnana og ráðuneyta í breyttu umhverfi og haga fjárveitingum eftir því. Menn hafa talið sig vera að nútímavæða einkareksturinn eða nútímavæða ríkisreksturinn, þ.e. með því að einkavæða einstakar stofnanir, án þess að ræða um hvert raunverulegt hlutverk ríkisins sé. Í hvað við eigum að nota fjármagnið án þess að sú umræða hafi átt sér stað. Í þá vinnu hefur ekki verið farið. Þar ræður hentistefnan ferðinni. Og það er merkilegt til þess að hugsa að meðan stöðugt er talað um hið breytta umhverfi sem við lifum í á alþjóðavettvangi og breytt umhverfi hér innan lands, skuli ekki vera lagt í þessa vinnu og miðað við að gera ríkisreksturinn skilvirkari. Það að sum þau verkefni hafi verið hjá ríkinu í 20--30 ár eru ekki endilega rök fyrir því að þau skuli vera þar áfram.

Sú saga var eitt sinn sögð að á safnlið hjá fjárln. hafi verið styrkir sem kallaðir voru, að mig minnir, tóbaksstyrkirnir. Þeir voru veittir ár eftir ár eftir ár til sömu aðila sem voru ýmislegt að bardúsa, m.a. að semja bækur og taka saman ýmis töl. Þegar farið var að athuga hvað þessum verkum liði voru sumir þeir sem höfðu fengið framlag á þessum lið löngu hættir að vinna að verkinu. En að sjálfsögðu stóðu fjárlagaliðirnir áfram og menn þrjóskuðust jafnvel við og vildu halda þeim til streitu þótt viðkomandi aðilar væru ekki í nokkru standi og ekki einu sinni lengur pennfærir. Þá varð um það heilmikil deila fyrir nokkrum árum hvort styrkur til viðkomandi aðila ætti að falla niður. Þetta er ákveðið tregðulögmál við afgreiðslu fjárlaga.

Sagt er að það sé ekki til fjármagn til að mæta brýnni fjárþörf heilbrigðisstofnana. Sagt er að það sé ekki til fjármagn til að tryggja að allir hafi jafnan aðgang að menntakerfinu. Öflugt menntakerfi er auðvitað trygging okkar og sú eina sterka trygging okkar fyrir góðum hagvexti til framtíðar. En þegar við hlustum á það sí og æ að ekki sé til fjármagn til að byggja þessi kerfi upp eins og þörf er á og mæta þeim fjárhagsvanda sem þar er til staðar, þá verður maður undrandi á því að ekki skuli farið í að skilgreina hlutverk ríkisins, hvaða verkefni það eru sem við viljum ráðast í og hvaða verkefni við teljum hlutverk samfélagsins í breyttu umhverfi. Það er löngu kominn tími til þrátt fyrir allar tilraunir til þess að gera störf ríkisstofnana skilvirkari og breyta þeim með því að setja upp samningsstjórnun, árangursstjórnun og ýmsar aðrar stjórnunraðferðir. Fyrir nokkrum árum var tekið upp eitthvað sem menn kölluðu ábyrgðarvæðingu heilbrigðisstétta á meðan verið var að kenna þeim að taka gjöld af sjúklingum. Ýmsum aðferðum hefur verið beitt til að ná tökum á ríkisrekstri. Vissulega hefur þetta í mörgum tilvikum skilað árangri en engu að síður horfum við ár eftir ár eftir ár á sömu ríkistofnanir fá upphæðir á fjáraukalögum til að leiðrétta sín mál á fjárlögum ríkisins, þrátt fyrir að farið hafi verið út í að láta ýmist Ríkisendurskoðun eða mjög vinsæla verkfræðiskrifstofu úti í bæ sem gerir ansi margar úttektir fyrir framkvæmdarvaldið, gera úttektir á stofnunum og segja hvert hlutverk þeirra sé, hvernig þau standi sig og hvað þau þurfi til þess að sinna sínum verkefnum.

[24:15]

Þrátt fyrir þetta gerist það aftur og aftur og aftur að sömu stofnanir hafa halla þegar fjáraukalögin eru afgreidd og halla þegar er farið á fund fjárln. og alltaf höfum við verið að mæta þessum vanda með því þá að taka ekki á honum að fullu. Ég hef oft velt því fyrir mér, t.d. með stofnun eins og Hollustuvernd ríkisins, sem á nú að fara að breyta lögum um, þegar rökin eru þau ár eftir ár að sú stofnun er að vinna í mjög breyttu umhverfi, með breytt hlutverk vegna EES-samnings, og það hefur komið inn árlega síðan samningurinn var samþykktur á Alþingi, hvers vegna í ósköpunum er ekki farið í að skoða þetta hlutverk stofnunarinnar með því að taka á því að hún geti sinnt þeim verkum sem henni var falið við það að við gerðumst aðilar að samningnum. Mér finnst rangt að ævinlega skuli koma inn tölur á fjáraukalögum og fjárlögum til hækkunar með sömu rökunum án þess þó að maður sjái hvaða verkefni þarna eiga í hlut því að þetta virðist vera sama rullan ár eftir ár. Mig minnir að ekki séu mörg ár síðan Ríkisendurskoðun tók út rekstur stofnunarinnar og gerði þá áætlun um fjárþörf hennar sem ekki stóðst.

Það sama má segja hvað varðar t.d. utanrrn. Ég efast ekki um að fjárþörf utanrrn. er mjög mikil en auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort fjárþörfin byggist á breyttu alþjóðlegu umhverfi sem ráðuneytið starfar í og höfum við þá lagt í það vinnu að breyta t.d. hlutverki sendiráða í takt við það breytta umhverfi sem við búum við og breyttar áherslur í utanríkismálum, hvort sem það er á sviði viðskipta eða umhverfismála. Ég á mjög erfitt með að átta mig á því í frv. til fjárlaga núna hvernig tekið er á þeim skuldbindingar sem við höfum undirgengist við það að gerast aðilar að alþjóðlegum samningum. Er fjármagn til þess? Er gert ráð fyrir að þær stofnanir sem eiga að vinna eftir þessum alþjóðlegu samningum eins og Hollustuverndin hafi það fjármagn sem til þarf? Hver er það sem hefur gert þær úttektir? Er það stofnunin sjálf eða hafa verið fengnir einhverjir aðilar til þess að fara yfir hvernig þær mæta þessum verkefnum? Það er einkennilegt að sjá í þessu frv. sem var dregið til baka um Hollustuvernd að þar er t.d. Hollustuverndinni allt í einu ætlað að sjá um eitthvert hlutverk sem heitir umhverfisvöktun, óskilgeint. Hvernig eigum við að gera okkur grein fyrir því við afgreiðslu fjárlaga hvort sú umhverfisvöktun er nú þegar á hendi annarrar stofnunar eins og hjá Veðurstofu Íslands sem heyrir undir sama ráðuneyti? Hvernig stendur á því að ekki er gerð úttekt á því og farið þannig í verkin að verkefnið skarist ekki á milli stofnana eða milli ráðuneyta eins og dæmi eru um í dag?

Eina ráðueytið sem getur sýnt okkur fram á það að flestar þær stofnanir sem eru að fara fram á aukið fjármagn til starfsemi sinnar, rekstur þeirra hefur verið tekinn út og skýrslur til um þær langflestar og það er heilbrrn. Í langflestum tilvikum hefur átt sér stað ákveðin úttekt á heilbrigðisstofnunum vegna þeirrar fjárvöntunar sem er til staðar og hefur verið í mörg ár. Þar er hægt að fara í afgreiðslu á grundvelli þekkingar en þá er það ekki gert. Þetta eru handahófskennd vinnubrögð og þetta eru vinnubrögð sem er ekki verið að taka upp í dag. Það er ekki þannig. Þau hafa tíðkast um nokkuð langan tíma. En við höfum möguleika á því þegar betur árar að gera þetta öðruvísi en þegar við verðum að búa við þröngan kost og vitum að aðstæður geta orðið til þess að við þurfum að reka ríkissjóð með halla. Þá verður að taka öðruvísi á málum. En þegar uppsveiflan er, þegar þetta svokallaða góðæri sem við horfum á í formi aukinna tekna ríkissjóðs, þó það skili sér ekki til allra, þá er sjálfsagt að nota það svigrúm sem fæst til þess að fara yfir ríkisreksturinn með öðrum hætti en gert hefur verið og breytt rekstrarumhverfi, breytt viðhorf, breytt þjóðfélag, breytt samfélag, kallar á það að fara yfir ríkisreksturinn í heild sinni. Enginn fer fram á að það sé gert á einu ári, síður en svo. Það hefði verið eðlilegt að gera áætlun að það séu tekin út tvö, þrjú ráðuneyti á hverju ári og þær stofnanir sem undir þau heyra.

Annað sem slær mann alveg sérstaklega í því nefndaráliti sem minni hluti fjárln. leggur fram eru tölur sem fengnar eru frá Ríkisendurskoðun þar sem fjallað er um ónotuð rekstrartöp fyrirtækja upp á 78 milljarða króna eða liðlega fjórum sinnum hærri fjárhæð en samanlagður tekjuskattsstofn allra fyrirtækja í landinu. Það eru stóru og vel stæðu rekstrarfyrirtækin sem kaupa sér rekstrartap, einyrkjarnir og smáu fyrirtækin hafa ekki möguleika á því og eiga líklega ekki til uppsöfnuð rekstrartöp til þess að nýta sér en ef þessu væri dreift sem jöfnun á öll fyrirtæki þá erum við að segja að það geti liðið heil fjögur ár án þess að nokkurt fyrirtæki þyrfti að borga tekjuskatt til ríkissjóðs. Minni hlutinn leggur áherslu á að farið verði í að breyta þessum reglum og ég tek undir það sjónarmið. Það má þrengja þær verulega og velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt að rekstrartöp geti safnast upp árum saman og hvort ekki eigi að setja mörk eins og það sé um að ræða tvö til fjögur ár.

Þá vekur minni hlutinn sérstaka athygli á lánsfjárheimildum og þeim framkvæmdum sem á að fara í og þá fyrst og fremst fyrir lánsfé og bendir á að það skýtur nokkuð skökku við í góðærinu þegar þenslumerki eru af þessum sökum á sama tíma og ríkisvaldið beitir sér fyrir því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, dragi saman í framkvæmdum á öðrum sviðum og leggur þar sérstaka áherslu á vegaframkvæmdir á þessu ári þar sem um 2 milljarða kr. niðurskurð er að ræða.

Þá vekur minni hlutinn einnig athygli á því að rekstrarkostnaður nýstofnaðs nýsköpunarsjóðs þar sem gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður nemi um 8 millj. kr. á hvert stöðugildi að viðbættum stofnkostnaði. Þykir þetta nokkuð vel í lagt og ég get tekið undir það.

Áður en ég sný mér að sjúkrahúsunum og þá fyrst og fremst sjúkrahúsunum á landsbyggðinni sem mig langar til að ræða við hæstv. heilbrrh. get ég ekki látið hjá líða að nefna að eitt af því sem vantar inn í og ég hefði átt að nefna áðan að skilgreina hlutverk stofnana og ráðuneyta er það að ríkisstjórnin hefur hrósað sér af því að rekstrarumhverfi stofnana ríkisins hafi breyst verulega, sjálfstæði þeirra hafi verið aukið og ný starfsmannalög sett þar sem sjálfstæði þeirra sem sjá um rekstur stofnana á að vera aukið verulega. Þá hlýtur jafnframt að eiga að draga úr vægi stjórna stofnana og reyndar var í frv. sem var lagt fram um Hollustuvernd lagt til að stjórnin væri lögð niður. Þó að ég sé ekki sammála því að það sé af hinu góða að leggja stjórnir stofnana algerlega niður má eitthvað á milli vera þegar t.d. er orðin til ný stofnun sem tók við af Náttúruverndarráði, Náttúruvernd ríkisins, þar sem er stjórn að störfum sem haldið hefur, virðulegi forseti, að ég held nálægt 40 fundi á þessu ári til þess að stýra stofnun sem þó er með framkvæmdarstjóra á launum. Þarna vantar töluvert á virkt eftirlit og að staðið sé við starfsmannalögin sem voru sett fyrir ekki svo löngu og lög um þessa stofnun.

Virðulegi forseti. Fyrirsögn minni hluta fjárln. um heilbrigðismálin er ,,Enn um sjúkrahúsin``. Þó að það sé varla bjóðanlegt að verið sé að ræða 3. umr. fjárlaga kl. hálfeitt að nóttu er ekki hægt að ljúka umræðunni og það get ég ekki gert, virðulegi forseti, án þess að fara enn og aftur yfir fjárhagsvanda sjúkrahúsanna, bæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem er þó búið að gera þó nokkuð vel í dag og ekki ástæða til þess að bæta þar við mörgum orðum. Ég tek undir þau varnaðarorð sem hafa komið fram hjá mjög mörgum hv. þm. sem hafa talað um þá þróun sem þarna er að verða og þær þrengingar sem stóru sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu búa við og það verður að taka á þessum vanda. Hæstv. heilbrrh. segir í viðtali við Morgunblaðið 9. nóv. sl., með leyfi forseta:

,,Umræða um niðurskurð í ráðherratíð minni á því ekki við rök að styðjast. ... Samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar hefur rekstrarkostnaður aukist um 7,8% á föstu verðlagi á þessum tíma og er 4,2% hærra árið 1995 og 5,5% hærri á árinu 1996 en meðaltal áranna 1990--1996.`` Þetta segir hæstv. heilbrrh. og jafnframt bendir hún á í sama viðtali þar sem hún segir að niðurskurður í hennar ráðherratíð eigi ekki við rök að styðjast, þá segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Á þessum tíma er aukning í afköstum sjúkrahúsanna með bættu skipulagi, tækniframförum og nýjungum þannig að sjúklingar fái bæði skilvirkari og mun meiri þjónustu en áður var. Á sama tíma hefur þeim einstaklingum fjölgað umtalsvert sem notið hafa þjónustu sjúkrahúsanna og veruleg aukning hefur orðið í þjónustu dag- og göngudeilda. Þetta er í samræmi við þá þróun sem við sjáum í löndunum í kringum okkur.``

Enn og aftur telur hæstv. ráðherra að það sé rangt að niðurskurður hafi verið í hennar ráðherratíð. Það má benda hæstv. ráðherra, sem líklega er einhvers staðar í húsinu en hefur brugðið sér frá, á að það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að það eru fleiri sjúklingar sem njóta nú þjónustu sjúkrahúsanna og þar hafa verið miklar tækniframfarir en þessi bætta þjónusta, fjölgun sjúklinga, og tækniframfarir hafa kostað sitt og þær hækkanir sem hafa fengist miðað við þessa úttekt sem gerð er af Ríkisendurskoðun standa hvergi nærri undir þeim kröfum sem gerðar eru og þeim tækninýjungum sem þarna eru á ferðinni og m.a. þess vegna búum við þann rekstrarhalla sem orðinn er til. Hann er ekki vegna óráðsíu. Hann er m.a. vegna þess að afköst heilbrigðisstéttanna hafa aukist vegna þessara tækniframfara og við höfum ekki tekist á við þann raunveruleika eins og við þyrftum að gera. Þess vegna rekst þetta hvað á annars horn þegar hæstv. ráðherra segir að framleiðni hafi hækkað um 4,2% 1995 og 5,5% 1996 í samanburði við meðaltal áranna 1990--1996. Það er rangt að segja að þetta hafi dugað til vegna þess að þær kröfur hæstv. ráðherra, sem og við öll gerum, til sjúkrahúsanna, til þeirra starfsstétta sem þar eru, eru þannig að við þurfum að horfast í augu við að um leið og þjónustan verður skilvirkari, um leið og þjónustan hleypir fleiri sjúklingum í gegn á tiltölulega stuttum tíma og tæknivæðingin er meiri, þá er þjónustan dýrari og við verðum áð taka á því. Nú tel ég að hafi hæstv. ráðherra brugðið sér frá vegna nauðsynlegra líkamlegra þarfa ætti hæstv. ráðherra að vera kominn í salinn. Það er í raun og veru eina afsökunin sem ég sé fyrir fjarveru hæstv. ráðherra.

[24:30]

Í trausti þess að hæstv. ráðherra sé einhvers staðar þar sem hátalari er og heyri þar ætla ég að byrja á að fara yfir þau gögn sem við höfum í höndum um beiðni sem borist hefur heilbrrn. vegna fjáraukalaga fyrir árið 1997 vegna rekstrarhalla sjúkrastofnana á landsbyggðinni.

Þar er um að ræða lista upp á 130 millj. kr. á fyrstu síðu. --- Nú kemur hæstv. ráðherra í salinn. --- Þar er um að ræða lista upp á 130 millj. kr. sem nokkrar heilbrigðisstofnanir fara fram á vegna uppsafnaðs halla. Það er í Bolungarvík, sjúkrahús og heilsugæsla 6,4 millj., Seyðisfjörður, sjúkrahús og heilsugæsla 20,4 millj., Húsavík, sjúkrahús og heilsugæsla 13,9 millj., Sólvangur 14. millj., Hólmavík 3,1 millj., Stykkishólmur, sjúkrahús 6,4 millj., Hvammstangi, sjúkrahús 12,5 millj., Reykjalundur, sjúkrahús 53,4 millj. Samtals eru þetta 130 millj. kr. Til viðbótar við þetta eru síðan beiðnir frá langflestum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þar er hægt að nefna sjúkrahúsið á Patreksfirði, sjúkrahús Austur-Húnvetninga, sjúkrahúsið á Siglufirði, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, sjúkrahúsið á Húsavík, Sólvang í Hafnarfirði, St. Fransiskusspítalinn, sem búið var að telja upp, sjúkrahús Hvammstanga, Sundabúð Vopnafirði, Hlein, heimili fyrir heilaskaddaða. Síðan koma stóru sjúkrahúsin í Reykjavík og stofnkostnaður og beiðnir og eins líka vegna uppsafnaðs rekstrarvanda hjá heilsugæslustöðvum sem eru ekki nefndar í upptalningunni.

Samantekt ráðuneytis segir að þarna sé um að ræða til viðbótar við þessar 130 millj. kr., þær stofnanir sem eru á næstu síðum, þ.e. samantekt upp á 386,4 millj. kr. Fyrir utan þær beiðnir sem eru hér skjalfestar af ráðuneytinu og sendar til fjárln. að mér skilst og er merkt reyndar 17. 12. 1997 eru beiðnir frá sjúkrahúsum sem eru í verulegum vanda og af einhverjum ástæðum ekki á lista hæstv. heilbrrh. þó svo að sá vandi hafi ekki orðið til á þessu ári, hafi ekki orðið til í síðasta mánuði og ráðuneytinu er fullkunnugt um. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru þær beiðnir ekki inni á þessum lista. Því hlýtur maður að velta því fyrir sér þegar horft er á þennan 200 millj. kr. pott sem á að fara að úthluta úr, hér erum við með beiðnir um tæplega 600 millj. til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva út á landi, hversu margar heilbrigðisstofnanir eru utan þessa lista og hver er hin raunverulega tala. Vegna þess að á heilsugæslunni sem tengd er Sjúkrahúsi Suðurlands vantar 34 millj. kr. og það veit hæstv. ráðherra. Framkvæmdastjórinn hefur lýst því yfir að uppsafnaður rekstrarvandi stofnunarinnar er 12% þeirrar upphæðar sem gert er ráð fyrir á fjárlögum fyrir næsta ár. Ég segi að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um þetta vegna þess að hún hefur fengið bréf sem þingmönnum Sunnlendinga hafa borist, ráðuneytið hefur fengið þau bréf með skilum og miklu fleiri erindi en við þingmenn Sunnlendinga höfum nokkurn tímann séð frá heilbrigðisstofnun á Selfossi.

Þar er bréf sem stílað er 28. nóv. 1997 og vegna þess að ég sé þetta ekki á lista frá fjárln. tel ég rétt að fara yfir bréfið þannig að það liggi fyrir að erindið barst, það var til þegar afgreiðsla fjárlaga fór fram og ástand Sjúkrahúss Selfoss og þá fyrst og fremst öldrunardeildar sem rekin er í gamla sjúkrahúsinu á Selfossi er öllum kunnug. Þegar menn greiða atkvæði og velta fyrir sér vanda þessara sjúkrahúsa er þeim kunnur vandinn og er kunnugt um við hvaða aðstæður fólkið sem starfar á þessari stofnun, Sjúkrahúsi Selfoss og heilsugæslunni, er ætlað að vinna. En 28. nóv. sl. er bréf sent heilbr.- og trmrh. frá Bjarna Arthúrssyni, framkvæmdastjóra Sjúkrahúss Suðurlands, með leyfi forseta:

Bréfið er svohljóðandi:

,,Á fundi undirritaðs, ásamt stjórnarformanni Sjúkrahúss Suðurlands og heilsugæslustöðvar Selfoss með yður 10. sept. sl., var ákveðið að heilbrrn. beitti sér fyrir úttekt á rekstrarkostnaði Sjúkrahúss Suðurlands og heilsugæslustöðvar Selfoss. Tilgangur úttektarinnar átti að vera sá að varpa ljósi á ástæður mikils hallareksturs þessara stofnana.

Nú er ljóst að nokkur dráttur mun verða á að starfsmenn ráðuneytisins ljúki umræddri úttekt. Sendi ég því hjálögð gögn um stöðu stofnananna. Svo sem sjá má er höfuðstóll heilsugæslustöðvar Selfoss neikvæður um 8,5 millj. kr. og höfuðstóll Sjúkrahúss Suðurlands er neikvæður um 26 millj. kr. Það er þessi alvarlega staða sem ég tel ástæðu til að draga enn og aftur fram í dagsljósið. Vænti ég þess að þessi neikvæði höfuðstóll svo og fjárlagagrunnur fáist leiðréttur með afgreiðslu fjárlaga í desember.``

Hér kemur einver alvarlegasta setning sem ég hef séð í bréfi til ráðuneytis eða hæstv. ráðherra:

,,Ég vil einnig taka það fram að ég er persónulega í 8 millj. kr. ábyrgð fyrir yfirdrætti á ávísanareikningum stofnana í Landsbanka Íslands á Selfossi.``

Eru þetta orðin vinnubrögð stofnana? Eru þetta orðin vinnubrögð ráðuneyta? Að framkvæmdastjórar einstakra stofnana hjá ríkinu séu látnir ganga í persónulegar ábyrgðir til að geta greitt út laun eða til að geta séð um að þær stofnanir sem þeir bera ábyrgð á geti haldið uppi eðlilegum rekstri? Enginn getur haldið því fram að þarna hafi verið vaðið fram. Sjúkrahúsinu á Selfossi og heilsugæslunni hefur verið gert að mæta því að 10 þús. íbúar bætast við á þessu svæði yfir sumartímann og um helgar og oft yfir veturinn. Það er ekki inni í fjárlagagrunni, hvorki sjúkrahúss né heilsugæslu. Heilsugæslan hefur verið dregin saman. Við höfum ekki viljað vekja athygli á þessu alvarlega ástandi fyrir margra hluta sakir. Ég kem betur að því á eftir hvernig hið raunverulega ástand er vegna þess að búið er að loka heilsugæslustöðvunum á Eyrarbakka og Stokkseyri nema tvo til þrjá tíma einu sinni í viku. Gömlu fólki á þessum stöðum er líklega ætlað að fara með sérleyfinu upp á Selfoss þegar það þarf á læknisaðstoð að halda. Það er búið að skera niður, það var gert til að mæta bráðum vanda. Það er búið að reyna að taka á þessu. Menn vildu gefa ákveðinn tíma til þess að á þessum vanda væri tekið. En hér er bréf dagsett í nóvember þar sem segir að framkvæmdastjóri ríkisstofnunar sé í persónulegum ábyrgðum fyrir 8 millj. kr. til að geta rekið þessar stofnanir. Ég vona svo sannarlega að þetta sé einsdæmi.

Þegar stjórnendur Sjúkrahúss Reykjavíkur komu og heimsóttu heilbr.- og trn. sögðu framkvæmdastjórinn og fjármálastjórinn frá því að í fyrsta skipti varð Sjúkrahús Reykjavíkur að fá yfirdráttarheimild upp á 80 eða 90 millj. kr. til að greiða út laun. Það var núna fyrir örfáum dögum. Varð að taka lán til þess að greiða launin. Hvernig sem á það er litið getur þetta og má ekki undir neinum kringumstæðum gerast að við setjum starfsfólkið okkar í þá aðstöðu að gangast í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum fyrir ríkisstofnun.

Þann 17. des. sendir Bjarni Arthúrsson framkvæmdastjóri aftur bréf eftir að hafa séð fjáraukalögin og eftir að hafa séð tillögur og það er stílað á hæstv. heilbrrh. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á fundi Sjúkrahúss Suðurlands og Heilsugæslustöðvar Selfoss í morgun, þar sem forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 1998 voru til umræðu, var undirrituðum falið að gera yður grein fyrir eftirfarandi athugasemdum:

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins 1998, 08-785 Heilbrigðisstofnunin Selfossi eru rekstrargjöldin lækkuð um 500 þús. kr., vegna þess sem segir: ,,Sparnaður í rekstri með auknum útboðum.``

Svo sem ráðherra var kynnt með bréfi 28. nóv. 1997 er neikvæður höfuðstóll þessara sameinuðu stofnana 34,5 millj. kr. Til þess að bregðast við aðstæðum hefur mikil vinna farið í að leita leiða til að draga úr rekstrarútgjöldum þessara stofnana. Ein leiðin var sú að leita í mjög auknum mæli eftir samstarfi við sjúkrahúsin í Reykjavík og á Akureyri eftir sameiginlegum útboðum þeirra á rekstrarvörum og lyfjum. Hefur þessi ráðstöfun sparað stofnuninni veruleg útgjöld nú þegar.

Það verður að teljast algjörlega óviðunandi að sá ávinningur verði aftur af okkur tekinn. Með því móti mun öll sannfæring og dugnaður starfsfólksins til að gera betur falla um sjálft sig, ríkið hirða þann sparnað sem starfsfólkið tekur þátt í til að laga reksturinn.

[24:45]

Í sértekjum sömu stofnunar er síðan gert ráð fyrir hækkun langt umfram verðlagsforsendur. Þannig eru sértekjur á sjúkrahússviði hækkaðar um 8,6% eða á þriðju millj. umfram verðlagsforsendur. Sértekjur sjúkrahússins eru einkum þrenns konar:

Tekjur af rannsóknum og röntgenþjónustu. Frá síðustu áramótum eru þessar tekjur ákveðnar af heilbrrn. og taka mið af tekjum stofnunarinnar fyrir þessa þjónustu á árinu 1996 frá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrstu 10 mánuði ársins 1997 var 25% aukning á aðsendum rannsóknum til rannsóknastofu án þess að tekjuaukningin yrði frá ráðuneytinu til að standa undir auknum kostnaði þessu samfara. Sjúkrahúsið hefur enga möguleika á að auka tekjur sínar á þessum lið sem skapar um 70% af sértekjum sjúkrahússins.

Aðstöðugjöld lækna. Aðstöðugjöld lækna eru um það bil 3,3% af sértekjum. Ef gert verður átak til að auka þær þarf jafnframt að leggja í aukinn kostnað á skurðstofum. Engar tekjur verða til að mæta þeim kostnaði nema aðstöðugjöld lækna. Búast má við að tekjur og gjöld stæðust í þeirri viðleitni.

Vistgjöld aldraðra. Ákvörðun um greiðslur fyrir vistgjöld aldraðra er ekki í höndum framkvæmdastjóra eða stjórnenda stofnunarinnar. Þessar tekjur eru nánast þær sömu og sl. ár. Þó hafa þær hækkað um 60 þús. kr. Ekki verður mikil aukning sótt í slíkar sértekjur. Aðrar sértekjur eru beint tengdar útgjöldum, svo sem tekjur af mötuneyti sem einvörðungu standast á við hráefnisverð vegna mötuneytis.

Af framansögðu má ljóst vera að ekki er nokkur möguleiki fyrir stofnunina að ná þeirri aukningu á sértekjum sem forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir. Verði þessu ekki breytt mun afkoma stofnananna því versna sem þessum upphæðum nemur eða um 3,5 millj. kr. Sérstaklega vilja framkvæmdastjóri og stjórn Sjúkrahúss Suðurlands og heilsugæslustöðvar Selfoss vekja enn og aftur athygli á slæmri fjárhagsstöðu þessara stofnana. Neikvæður höfuðstóll stofnananna stefnir í að vera nálægt 12% af rekstrarfjárveitingu næsta árs. Leyfum við okkur að benda á að það er helmingi verri staða en hjá þeim sjúkrastofnunum sem sífellt er klifað á að þurfi að taka til sérstakrar athugunar vegna þungrar rekstrarstöðu.

Virðingarfyllst, Bjarni Arthúrsson.``

Þessi tvö bréf lýsa í raun mjög alvarlegri stöðu sem þessi sjúkrastofnun er í. En samt sem áður er aðeins verið að tala um reksturinn, ekki um viðhald bygginga. Við erum í þeirri stöðu líka í dag að Vinnueftirlit ríkisins, Heibrigðiseftirlitið og tæknideild, byggingarfulltrúinn, hefur gert úttekt á því húsnæði sem er ætlað fyrir starfsemi öldrunardeildar sjúkrahússins á Selfossi. Í raun og veru má segja að niðurstaða allra þessara úttekta sé sú að það á að loka húsnæðinu. Sú starfsemi sem þar er í dag má í raun og veru ekki vera þar og ég tel, virðulegi forseti, rétt að fara yfir þessa niðurstöðu. Það var beðið um úttekt á þessari stofnun, Ljósheimum á Selfossi, sem er öldrunardeild, hjúkrunardeild. Langflestir þeir sem þar eru eru rúmliggjandi.

Vinnueftirlitið hefur skilað sínum gögnum og ég tel ástæðulaut að fara fara yfir bréfið þar sem farið er með erindið en ég tel ástæðu til þess að hæstv. heilbrrh. sé í salnum. Hér eru mjög alvarlegar athugasemdir og það er vegna þeirra og vegna þess að ég sé ekki að til neinna ráðstafana verði gripið sem ég sé ástæðu til þess að fara yfir þetta. Ég sé ekki að sú fjárhæð sem er á fjáraukalögum mæti þessari þörf á nokkurn hátt. En Vinnueftirlit ríkisins segir, --- þegar hæstv. ráðherra hefur lokið samtali sínu við hv. þm. þá tel ég rétt að fara yfir þetta.

,,Vinnuaðstaða á gangi. Gangar eru á bilinu 140--160 sm, þegar rými fyrir handrið hefur verið dregið frá, ca. 10 sm. Breidd ganga er hvergi það mikil að hægt sé að beygja rúmi inn í herbergi á gangi. Hurðarop eru einnig of þröng til að hægt sé að aka rúmum sem eru 92 sm breið inn og út úr herbergjunum. Hjólastólar komast þó í gegn ef þeim er ekið af aðstoðarmanni. Eina leiðin til að flytja rúm inn eða úr herbergi er að setja það upp á rönd og lyfta því en það skapar mikið álag á bak, herðar og handleggi þeirra sem verki vinna og tekið skal fram að flestir vistmenn þarna eru rúmfastir þannig að þetta þýðir þá auðvitað að það þyrfti að fjarlægja sjúklinginn úr rúminu áður en farið er með það út á gang. Að geta ekki flutt vistmenn í rúmi út úr herbergjum getur skapað aukaálög við ýmis dagleg störf. Sem dæmi má nefna við böðun að vistmaður hefur dottið á gólfið. Þá getur þurft að setja hann fyrst í hjólastól til að koma honum beint á áfangastað en ekki er ráðlegt að nota lyftara til að flytja fólk langar leiðir.

Ef rýma þarf húsnæðið í skyndi,`` og nú bið ég hæstv. ráðherra að taka eftir því að hér er alvarleg setning, ,,t.d. vegna bruna er einnig ljóst að mun lengri tíma tæki að koma vistmönnum úr hættu en ef hægt væri að aka fólki í rúmum út úr herbergjunum og hættan á mannskaða er meiri.`` Þetta stendur hér frá Vinnueftirliti ríkisins. ,,Á 2. hæð er skáhalli upp í sólstofu það brattur að erfitt er að hjálpa þyngri vistmönnum úr sólstofu en það er gert a.m.k. einu sinni á dag. Hæðarmunur er 70 sm á 550 sm skáhalla og hækkun því 1:8 ef miðað er við að mesta hækkun sé 1:12.

Herbergi vistmanna. Við mat á vinnuaðstöðu er tekið mið af því að vistmenn eru skilgreindir sem hjúkrunarsjúklingar. Þeir þurfa flestir mikla hjálp og hefur reynslan sýnt að hjúkrunarþyngd þeirra eykst þeim mun meira því lengur sem þeir dveljast á heimilinu. Gerð er krafa um að vistmenn séu í stillanlegum sjúkrarúmum og þau geti staðið út frá vegg þannig að hægt sé að komast beggja vegna að þeim. Lágmarkskrafa er að hægt sé að koma hjólastól og lyftara að öðrum megin við rúmið. Nauðsynlegt er að rými sé fyrir tvo starfsmenn við rúmið samtímis. Því er gerð krafa um 70 sm lágmarksathafnarými fyrir starfsmann öðrum megin við rúmið. Hinum megin þarf rýmið út frá rúmi að vera 175 sm svo að hægt sé að koma að og snúa hjólastól. Til að hægt sé að koma að lyftara þarf rými hins vegar að vera 215 sm út frá rúmi. Göngurýmið við rúmgafl þarf því að vera að lágmarki 50 sm. Að auki er gert ráð fyrir handlaug, fataskáp og rými fyrir náttborð, hjólastól við hvert rúm. Gerð er krafa um að hægt sé að komast með hjólastól að vaski til að þvo sér.``

Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir þessar kröfur vegna starfa sinna áður en hún kom til starfa á Alþingi. En niðurstaða Vinnueftirlitsins er þessi, með leyfi forseta: ,,Þegar herbergi eru metin út frá framangreindum forsendum er ljóst að engin stofanna uppfyllir þessi skilyrði vegna þrengsla.``

Þannig má í raun og veru fara yfir öll atriði á stofnuninni.

,,Klósett á efri hæð. Rými á klósett á efri hæð er undir lágmarkskröfum. Þrengsli gera starfsmönnum því erfitt fyrir að hjálpa vistmönnum.`` Má vera að hv. 4. þm. Suðurl. finnist þetta broslegt en það er kominn tími til og fyrir löngu að við beitum okkur fyrir því að þetta sé lagað. (Gripið fram í.) ,,Þrengsli gera starfsmönnum því erfitt fyrir að hjálpa vistmönnum sem nota hjólastóla án þess að álag á líkamann verði óheppilegt.`` Það sama gildir í raun og veru um alla aðra þætti.

,,Skol á efri hæð. Skolherbergi er mjög þröngt. Rúm var fyrir aðeins eitt fráleggsborð en á því voru bæði óhreinir hlutir, svo sem neðanþvottaskálar, þvagskálar en jafnframt hreinir hlutir úr þvottaherbergi, svo og blóm vistmanna. Starfsmenn eiga erfitt með að athafna sig við þessar þröngu aðstæður samtímis því sem það veldur þeim andlegu álagi að blanda hreinu og óhreinu saman gegn betri vitund.

Skolherbegi á neðri hæð. Herbergið er gluggalaust. Vifta virkar ekki.`` --- Það er farið yfir hvern einasta þátt, matsalinn, búningsaðstöðu og klósett starfsmanna, hjálpartæki og síðan koma niðurstöður og ályktanir.

,,Heildarmat á vinnuaðstæðum leiðir í ljós að starfsmenn búa við erfið vinnuskilyrði sem fullnægja á engan hátt þeim kröfum sem gerðar eru til vinnuaðstöðu á hjúkrunarheimilum. Sérstaklega eru það mikil þrengsli í vistherbergjum, göngum og klósetti sem gera starfsmönnum erfitt um vik að nota hjálpartæki og beita góðri vinnutækni. Því er dregin sú ályktun að ófullnægjandi vinnuaðstæður hafi getað leitt til þeirra óþæginda frá hreyfi- og stoðkerfi sem margir starfsmenn höfðu um það leyti sem úttektin fór fram. Brýnt er að bæta vinnuaðstöðu starfsmanna hið fyrsta. Einnig þarf að endurmeta þörf á mönnun út frá hjúkrunarþyngd því of mikið vinnuálag getur einnig stuðlað að þróun álagsmeina.``

Þetta var það sem kemur frá Vinnueftirliti ríkisins.

Tæknideild Selfoss gerir úttekt á þessu húsnæði í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru á byggingarreglugerð og þar segir í niðurstöðu, með leyfi forseta:

,,Undirritaður skoðaði allar vistarverur. Almennt má segja að viðhaldi hússins sé ábótavant. Víða eru rakaskemmdir í veggjum, málning að flagna, flísar að losna og detta af veggjum. Einnig er gólfdúkur víða laus vegna þess að líming hefur losnað, málning í gluggum hefur flagnað og brýn nauðsyn að mála þá. Loftræsting herbergja fer fram í gegnum opnanleg gluggafög. Vegna líkamslegs ástands vistmanna eru gluggar oft hafðir lokaðir í langan tíma í senn og er þá loftræsting alls ekki fullnægjandi. Tæknirými og sameiginlegt rými eru í nokkrum tilvikum gluggalaus og illa loftræst og er það ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til loftræstingar slíkra rýma.`` Síðan kemur útlistum á þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt byggingarreglugerðum og niðurstaðan er sú að í nánast engum tilvikum stenst byggingin þær reglugerðir sem við erum að setja og við eigum auðvitað að sjá til að farið sé eftir. Í byggingarreglugerð nr. 61011 segir eftirfarandi:

,,Sótt er um leyfi til að byggja hús til annarra nota en íbúða, t.d. samkomu-, sjúkra-, skóla-, iðnaðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði o.s.frv. skal miða við þær reglur sem gilda um íbúðarhús eftir því sem þær geta átt við að mati byggingarnefndar.`` Enn fremur segir í sömu reglugerð nr. 651: ,,Heimilt er að gera einstök íbúðarherbergi í kjallara ef gólf hans er eigi meira niðurgrafið en 500 mm við gluggahlið og hún eigi nær götu en 3 metrar og lofthæð a.m.k. 2,30 metrar.`` Samkvæmt reglugerð nr. 61011 er kjallarinn á Austurvegi niður grafinn um 800 mm og eru þær vistarverur sem í kjallaranum eru, þ.e. notkun þeirra sem íverustaðir vistmanna, óheimil að mati undirritaðs ef tekið er mið af gildandi reglugerð.

Undirritaður skoðaði einnig húsnæði að utan. Útveggir hússins eru víða illa sprungnir og eflaust má rekja orsakir rakaskemmda inni í húsinu til sprungna í útveggjum hússins. Reynt hefur verið að gera við sprungurnar með misjöfnum árangri. Augljóst er að mjög aðkallandi er að klæða húsið að utan eða framkvæma aðra sambærilega viðgerð á útveggjum hússins, gluggar hússins víða ófúnir en málningin flögnuð af þeim og nauðsynlegt er að bera á þá til að forðast skemmdir.``

Ef spurt er hvaða úrræði byggingarfulltrúi hefur til að fylgja málum eftir þá koma þau úrræði aðallega fram í gr. 25.20 og gr. 25.21 í byggingarreglugerð en í gr. 25.21 segir: ,,Nú er viðhaldi eða frágangi húss eða annars mannvirkis ábótavant að dómi byggingarfulltrúa. Skal hann þá gera eiganda þess viðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er innan tilskils frests. Sinni eigandi ekki áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur getur byggingarnefnd ákveðið dagsektir þar til úr hefur verið bætt.``

Þannig er þetta, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, (Gripið fram í.) að hægt er að beita dagsektum ef gerðar eru eðlilegar kröfur til þess húsnæðis sem hýsir fjölda aldraðra á Selfossi og það er ekki ástæða til og það veit ég að hv. þm. hlýtur að vera sammála mér um. Svo oft höfum við skoðað þetta húsnæði, svo oft höfum við tekið þátt í umræðu um þörf á úrbótum að ég trúi því ekki að það bros sem sést einstöku sinnum birtast á andliti hv. þm. sé vegna annars en þess að honum þyki þetta frekar vandræðalegur upplestur og það skil ég. (ÍGP: Ég hef hlustað með hluttekningu.) Ég sé það, hv. þm.

Heilbrigðiseftirlitið gerði sams konar úttekt fyrir Sjúkrahús Suðurlands og niðurstaða úttektarinnar er þessi, með leyfi forseta:

,,Við heilbrigðiseftirlit sem fram fór á Ljósheimum á öldrunardeild Sjúkrahúss Suðurlands voru gerðar eftirfarandi athugasemdir:

[25:00]

Klóaklagnir í skolherbergi í kjallara eru óvarðar og greinileg merki um leka utan á við. Lagfæra þarf flísar og salerni í kjallara. Lagfæra þarf sólbekki og gluggakarma í herbergjum í kjallara. Á gangi er bólginn gólfdúkur, á baði er málning að flagna og af lögnum í lofti. Ræsting í kjallara er óloftræst, útidyrahurð að framan er óþétt og greinilegur leki kemur fram í gólfteppi fyrir framan hurð.

Efri hæð. Á baðberginu hafa flísar hrunið af veggjum. Saggalykt er á hjólastólasalerni. Í sólstofu er víða merki um leka á veggjum, m.a. blautur veggviður þrátt fyrir þurrt veður utan dyra. Huga þarf að fullnægjandi aðstöðu til meðhöndlunar og flokkunar lyfja til sjúklinga. Ekkert sérstakt rými er ætlað fyrir þessa aðstöðu og fer tiltekt lyfja fram í vaktherbergi án fullnægjandi hreinlætisaðstöðu. Einungis er í einu herbergi uppi hengi til aðskilnaðar milli sjúklinga. Á sjúkrastofnunum þurfa sjúklingar ýmsa meðhöndlun sem krefjast næðis og aðskilnaðar frá utanaðkomandi. Í skolherbergi á efri hæð eru flísar flagnaðar af vegg. Í eldhúsi og borðsal er vegghæð 2,10 metrar, enginn opnanlegur gluggi er í borðsal, einungis eitt loftræstiop fyrir ofan uppþvottavél en það liggur út að ruslagámi. Raki er í lofti og vegg. Flagnað og brotið er upp úr borðplötu. Undir uppþvottavél er gólfdúkur morkinn vegna bleytu og raka. Engin handlaug er í eldhúsi. Borðsalur þjónar bæði því hlutverki að vera matsalur sjúklinga auk þess að vera kaffistofa starfsfólks.

Almennt eru mikil þrengsli í húsnæðinu, þ.e. hurðir og gangar eru það þröngir að erfitt að koma út úr rúmi. Raki er í öllu húsnæðinu. Asbestplötur eru einnig á hluta þaksins. Samkvæmt upplýsingum starfsfólks koma öll aðföng í sama bílnum og óhreint lín er tekið til baka. Ef flutt eru matvæli og óhreint lín í sama bíl þarf að tryggja á fullnægjandi hátt þrif milli flutninga.

Niðurstaða: Húsnæðið er óhæft til notkunar sem hjúkrunarheimili í núverandi ástandi. Gagngerar endurbætur þurfa að fara fram á húsnæðinu hið fyrsta og skal þeim lokið eigi síðar en 1. júní 1998. Í þeim felast m.a. endurnýjun á þaki yfir miðhluta hússins og hindra allan leka og rakamyndun í húsinu. Að öðru leyti er húsnæðið óhentugt til notkunar sem sjúkradeild vegna þrengsla og vanbúnaðar.``

Undir þetta rita fyrir hönd Heilbrigðiseftirlits Suðurlands Elsa Ingjaldsdóttir heilbrigðisfulltrúi og Matthías Garðarsson framkvæmdastjóri.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég hef farið yfir þetta með þessum hætti er sú að hvergi í frv. til fjárlaga er getið um þessar erfiðu aðstæður. Hvergi í afgreiðslu fjárln., hvergi í afgreiðslu fjáraukalaga og þegar menn taka einhvern 200 eða 300 millj. kr. pott, það á reyndar að mæta upppsöfnun halla af 200 millj. kr. potti þar sem við erum hér með erindi skjalfest þó frá ráðuneytinu upp á yfir 600 millj. Það á að laga með 200. Svo kom 300 millj. og við vitum að dæmið sem hér er um að ræða er því miður ekki einsdæmi. E.t.v. eru aðstæðurnar á Selfossi verri en á mörgum öðrum stöðum en er þá ekki ástæða til þess að taka á því og það löngu komin? Það er ekkert sársaukalaust að fara upp í stól á hv. Alþingi og lesa þau dæmi upp sem hér hefur verið gert, það er ekki sársaukalaust vegna þess að þar inni er fjöldi fólks, þarna liggja aldraðir rúmfastir sem geta enga björg sér veitt, eiga allt sitt undir því að við hugsum að sómasamlega sé staðið að þessu og það er ekki gert.

Virðulegi forseti. Klukkan er orðin eitt og ég veit að kominn er tími til fyrir okkur öll að stytta mál okkar. En hafi þetta opnað augu einhvers fyrir því að þarna verður að taka á er ekki til einskis staðið og ekki til einskis að borga einhverjum þeim laun sem fer í að úthluta pottinum. En pottarnir eru þannig að þeir koma ekki til með að svara nema örlitlu broti af þeirri fjárþörf sem er í heilbrigðiskerfinu. Við getum ekki boðið sjúklingum, við getum ekki boðið aðstandendum, við getum ekki boðið starfsfólki og við getum ekki boðið okkar eigin samvisku upp á þær aðstæður.