1997-12-20 01:05:37# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[25:05]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Nú liggja fyrir í endanlegri mynd til 3. umr. fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1998. Þetta eru hallalaus fjárlög eins og þau eru prentuð í þessari útgáfu. Tekjuafgangur á að verða hvorki meira né minna en 150 millj. kr. samkvæmt frv. en það verður þó að segjast eins og er að þegar það er skoðað í samhengi við umfang fjárlaga í heild eru 150 millj. ákaflega lítil tala og sérstaklega þar sem margt bendir til þess að í fjárlögunum séu ýmsar púðurtunnur sem munu springa þegar líður á árið. Það er í sjálfu sér ekki mikið mál að skila hallalausum fjárlögum ef settar eru inn í þau óraunhæfar tölur eins og hér er vissulega sums staðar gert að mati okkar í minni hluta hv. fjárln.

Það kom fram er Þjóðhagsstofnun kom fyrir hv. fjárln. að þeir reikna ekki með meiri hagvexti en spáð er í fjárlagafrv. Þeir spá um 5,2% aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna. Minni hluti fjárln. hefur grunsemdir um að hagvöxturinn kunni að vera verulega vanáætlaður, einkum vegna meiri einkaneyslu en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga og telur óhætt að reikna með hærri tekjum ríkissjóðs af þeim sökum eða sem nemur 1,5 milljörðum af þeim ástæðum. Að öðru leyti verður að telja efnahagsforsendur fjárlaga líklegar hvað tekjuhliðina varðar. En það er meira en verður sagt um fjárlög undanfarinna ára en eins og kunnugt er munaði á síðasta ári um 5,5 milljörðum á fjárlagafrv. og endanlegri útkomu á tekjuhlið. Samt verður að segja að ríkisstjórnin er á hálum ís hvað varðar áætlaðan hagnað af sölu eigna en hann reyndist einnig ofáætlaður á síðasta ári. Það blasir m.a. þess vegna við þeim sem les fjárlögin með gagnrýnu hugarfari að tekjugrunninn þarf að treysta en hæstv. ríkisstjórn virðist forðast eins og heitan eldinn að gera ráð fyrir aukinni skattheimtu nema í dag voru þeir að samþykkja frv. um hækkuð dómsmálagjöld og þótti ýmsum höggvið þar sem hlífa skyldi.

Minni hluta fjárln. finnst vera kominn tími til að atvinnuvegirnir sem fyrir nokkrum árum voru lækkaðir skattar á til að freista þess að auka umsvif þeirra á erfiðleikatímum en í staðinn voru hækkaðir skattar á launafólk, að þeir byrji aftur að borga þegar góðæri er í landinu og rífandi gangur víða í atvinnulífinu. Þannig greiða þeir að hluta þær skattalækkanir sem verið er að gera hjá launafólki. Svo er ekki nokkur hemja að gerðar skyldu á hinu háa Alþingi lagabreytingar í fyrra til að gera fyrirtækjum kleift að halda áfram að nýta sér rekstrartöp en sú smuga átti að lokast samkvæmt fyrri lögum nú um þessi áramót. Þetta gerir það að verkum að fyrirtæki sem eru í góðum gangi þurfa ekki að greiða neinn tekjuskatt vegna þess að þau geta nýtt sér uppsafnað tap sem þau hafa jafnvel keypt einhvers staðar. Eigendur tveggja fyrirtækja sem á síðasta ári lögðu upp laupana eftir áralangan taprekstur hafa sagt mér að þá fyrst hafi vaknað áhugi á þeim er þau voru að hætta rekstri og voru þau bæði seld fyrir þó nokkra fjárhæð með öllu því tapi sem á þau hafði safnast.

Auðvitað veit hæstv. ríkisstjórn hvað er að gerast en í tengslum við gerð fjárlaganna hefði hún getað gert ráðstafanir til að breyta þessum leikreglum og fá þannig fé inn í heilbrigðiskerfið en það er ekki á borðinu svo ekki virðist áhugi standa til þess í hæstv. ríkisstjórn að þessu svínaríi ljúki sem stórskaðar fjárhag þjóðarinnar.

Í tengslum við gerð nefndarálits fengum við í minni hluta fjárln. upplýsingar um að uppsafnað tap, sem er fyrirliggjandi í landinu, er um 78 milljarðar eða liðlega fjórfalt hærri fjárhæð en samanlagður tekjuskattstofn allra fyrirtækja í landinu. Auðvitað á að þrengja til mikilla muna tímatakmörk er nú gilda um nýtingu rekstrartaps og allar reglur þar að lútandi. Þar væri þá fundinn enn einn möguleikinn fyrir ríkið til að ná inn þeim gífurlegu fjárhæðum sem vantar í heilbrigðiskerfið og verður að bregðast raunhæft við. Nú dugir ekki lengur að berja hausnum við steininn, hæstv. forseti. Nú þarf virkilega að taka á þeim vandamálum sem við blasa. Nægir þar að minnast á fjárveitingar til stóru spítalanna í Reykjavík þar sem brýn fjárvöntun aðeins þessara sjúkrahúsa er áætluð með uppsöfnuðum halla liðinna ára verða um næstu áramót um 1.650 millj. kr. Úr þessu er ætlað að bæta með því að bjóða þeim til veislu við pott nokkurn, sem hv. fjárln. hefur af örlæti sínu sett í 300 millj., sem ætlað er að bæta úr heildarrekstrarvanda sjúkrahúsanna í landinu sem talinn er vera upp á 2,5 milljarða. Náttúrlega sjá allir að þetta getur aldrei gengið hversu vel að sér um rekstur sjúkrahúsa sem það fólk er sem ætlað er að útdeila úr pottinum.

Auðvitað vitum við öll hvað þetta þýðir. Fólki verður sagt upp, deildum verður lokað og sjúklingar, sem margir hverjir eðli málsins samkvæmt liggja lágt og geta ekki komið neinum vörnum við, verða að taka afleiðingunum.

Ég vil minna á lokun deildar fyrir langveika unga geðklofa í fyrra á Arnarholti sem átti að því er sagt var að vera gerð í sparnaðarskyni en það byrjaði með því að þrír veikustu sjúklingarnir voru settir á deild á Borgarspítalanum þar sem hvert rúm á dag er fjórfalt dýrara en rúmin sem þeir höfðu áður verið í á Arnarholti. Þá var strax farinn sá sparnaður sem átti að verða og auðvitað var í framhaldinu ekki hægt að henda þessu fólki út á götuna og þannig kostaði þetta áfram og svona er þetta. Verið er að færa vandann fram og til baka á milli deilda en hann er ekki leystur, ekki einu sinni núna þegar við blasir að kannski var aldrei þessu vant möguleiki á að ná inn peningum til að fást við vandann.

Strax er byrjað að heyrast um yfirvofandi uppsagnir, m.a. á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en þar blasir ekki annað við en það verði að segja upp 200 starfsmönnum og fækka sjúkrarúmum um 100. Auðvitað verða spítalarnir að reyna að bregðast við stöðunni, annað væri ábyrgðarleysi. Allir sem rækju fyrirtæki og stæðu frammi fyrir því að í árslok yrði uppsafnaður rekstrarhalli yfir 80 millj. ef rekstrinum yrði haldið áfram í óbreyttri mynd geta litið í eigin barm. Það er erfitt að horfa fram á þessi vinnubrögð endurtaka sig ár eftir ár, biðlistana lengjast og þrýstinginn frá almenningi aukast fram eftir hausti ár eftir ár og svo kemur að því að púðurtunnan springur og það verður að taka á vandanum, opna fjárhirslurnar og reiða fram peninga sem verður aftur afgreitt í fjáraukalögum í haust.

Það segir í frægri bók sem hefur að vísu verið minnst á áður í fjárlagaumræðunni í kvöld og kannski er það eitthvað við þessa bók, Fjárlög íslenska ríkisins 1998, sem minnir á Heimsljós sérstaklega. Ég þarf að gera sérstaka bókmenntalega könnun á því um jólin, en það segir í þessari bók Nóbelskálds okkar að það fara ekki allir á kirkjugarðsballið í haust sem ætluðu þangað í vor. Þessi setning kemur mér í hug þegar ég hugsa til allra þeirra sem flæmast úr starfi vegna yfirvofandi uppsagna, svo og óskiljanlegra kjaradeilna sem hæstv. fjmrh. hefur sett á við unga lækna í landinu og að því er sögur herma hafa nú þegar leitt til þess að stór hluti þeirra er að flæmast úr landi.

[25:15]

Lausnin er sú að nú ætla sérfræðingar að fara að gegna störfum sem unglæknar hafa hingað til gegnt á spítölum að því er tilkynnt hefur verið frá hv. heilbrrn. Væntanlega verða sérfræðingarnir ekki á lægra kaupi en unglæknar við störf sín á spítölunum og ekki verður þessi ráðstöfun til sparnaðar.

Hæstv. forseti. Mér hefði fundist skynsamlegra þegar hinn mikli vandi blasir við að ákveða tekjuöflun við afgreiðslu fjárlaga og greiða úr þessum vanda eins og við í stjórnarandstöðunni gerum ráð fyrir að verði gert í brtt. sem eru fluttar við 3. umr. til tekjuöflunar fyrir íslenska ríkið. Því miður er ekki venjulegt að breytingartillögur frá minni hluta séu samþykktar á hinu háa Alþingi. Það verður þó látið á það reyna nú. Alltaf er rætt um lausnir á fjárhagsmálum sjúkrahúsa í þeim dúr að aldrei megi greiða fé út til heilbrigðisstofnunar nema forsvarsmenn hennar liggi á hnjánum og gefi út loforð við viðtöku fjárframlaga um að grípa til einhverra þeirra ráðstafana sem ráðuneytið vill knýja fram. Ég hef lýst því áður og lýsi því enn yfir að ég er algerlega ósammála slíkum vinnubrögðum og verð að benda á að stundum þekkja og vita heimamenn betur en þeir tilsjónarmenn og hagræðingarpostular sem hafa verið sendir á þá til að gera tillögur til hagræðingar en hafa stundum ekki verið nægilega tilbúnir til að hlusta á það sem starfsfólk stofnananna leggur til. Sparnaðar- og hagræðingartillögur þarf að vinna í sameiningu í góðu samstarfi við starfsfólk viðkomandi stofnunar en ekki setja á stofnanir nauðungarákvæði sem knýr fram breytingar sem starfsfólki er ekki að skapi. Ég hef rætt við mjög margt starfsfólk í heilbrigðisþjónustu um þessi mál og mér virðist það allt af vilja gert til að vinna verk sín vel og skynsamlega en það er orðið afskaplega langþreytt á þeim eilífu, óraunhæfu sparnaðarhugmyndum sem alltaf er verið að hamra á í öllu talinu um kostnað við heilbrigðisgeirann á Íslandi. Stöðugt er látið eins og kostnaður sé langt umfram það sem annars staðar þekkist þegar staðreyndin er sú að við erum í 12.--14. sæti innan OECD hvað varðar kostnað við sjúkrahúsvist. Við eigum einmitt að vera stolt af sjúkrahússtarfsfólki okkar sem hefur náð svo frábærum árangri og samt er yfirleitt um að ræða góða læknishjálp sem fólk fær á Íslandi þó óneitanlega þurfi það í sumum tilfellum að bíða óhæfilega lengi eftir henni og er það bæði til skaða og skammar.

Til gamans langar mig að geta þess að ríkið er nú að stofna nýjan nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og til hans hefur verið valið hæft fólk, þó það nú væri. En það þykir sjálfsagt að áætla 8 millj. á hvert stöðugildi í þessum sjóði til reksturs en það er miklu meira en tvöfaldur sá launakostnaður sem Sjúkrahús Reykjavíkur er að greiða fyrir hvert stöðugildi og þykir ýmsum nóg um. Þar vinnur líka mjög hæft fólk. Sumt er óumdeilanlega á heimsmælikvarða en alltaf er verið að gefa í skyn að eitthvað bruðl sé í gangi. Það er eins og þegar verið er að meta störf til fjár þá sé fyrst og fremst meðferð fjármuna sem er metið ábyrgðarstarf en ekki að bera ábyrgð á lífi og heilsu fólks. Þetta er sannarlega umhugsunarefni, hæstv. forseti.

Nú ætla ég að víkja nokkrum orðum að menntamálum en sá kafli frv. sem fjallar um þau tók ekki þeim framförum eða breytingum sem orð er á gerandi milli 2. og 3. umr. en mig langar að ítreka nokkur atriði sem mér þykir vert að komi fram. Það fólk sem gerði sér vonir um að í góðærinu mundu stjórnarflokkarnir framkvæma hugsjónamál sín sem þeir hafa margítrekað lýst um menntun til nýrrar aldar og menntun inn í framtíðina, að bókvitið hér á Íslandi verði í askana látið. Það hlýtur að hafa orðið fyrir afskaplega miklum vonbrigðum þegar það sá þessi fjárlög sem eru lögð fram núna í góðærinu en þar er ekki gert ráð fyrir neinni raunhækkun til menntamála á Íslandi. Sú hækkun sem kemur fram í frv. til framhaldsskóla og háskóla er aðeins í hlutfalli við þá nemendafjölgun sem hefur orðið í þessum skólum og þó varla það.

Svo við byrjum á að víkja að grunnskólanum sem hefur vissulega verið fluttur yfir til sveitarfélaganna og þarf svo sem ekki að minna á það hér, þá hefur það komið fram að mjög mörg sveitarfélög telja sig hafa farið illa út úr samningum við ríkið og bundið vonir við að úr þessu yrði bætt, framlög til sveitarfélaganna í tengslum við grunnskólann yrðu aukin. Því miður hefur þeim umleitunum verið tekið afskaplega fálega og raunar ekkert verið tekið undir þau erindi og ég verð að segja að ég hef vissar áhyggjur af því. Þetta kemur að vísu mjög misjafnlega niður á sveitarfélögunum en ég hef talað við forsvarsmenn nokkurra sveitarfélaga í kjördæmi mínu sem hafa fært að því rök að þau fari mjög illa út úr rekstrinum miðað við þau fjárframlög sem þeim eru ætluð. Ég verð að segja að mér finnst sanngirniskrafa að farið sé yfir þessa hluti af hlutlausum aðilum.

Annað atriði varðandi grunnskólana veldur mér miklum áhyggjum. Það er ætlað að ríkið sjái um námsgagnagerð til grunnskólanna og hefur svo raunar verið um langa hríð. Sú var tíðin að talað var um okkur Íslendinga og Ríkisútgáfu námsbóka, eins og það hét þá, sem sérstaka fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir. Það námsefni sem Ríkisútgáfa námsbóka, og seinna Námsgagnastofnun, hefur framleitt hefur alltaf verið ódýrt, mun ódýrara en það sem hægt er að framleiða í einkareknum stofnunum sem gefa út bækur og er hægt að færa fram langa lista því til sanninda að verð mjög vandaðra bóka sem eru gefnar út af Námsgagnastofnun er mjög lágt. Samt er þessari stofnun alltaf haldið í heljargreipum og fjárveitingar sem voru 6.480 kr. á nemanda árið 1991, og var þó vissulega ekki nándar nærri nóg, eru nú á því góðæri, sem hefur margoft verið lýst hér, færðar niður í 5.060 kr. á nemanda. Það er gert þó sterkar líkur hafi verið leiddar að því að útkoma okkar sem var frekar slæleg í alþjóðlegum rannsóknum sem voru gerðar á skólabörnum á síðasta ári eigi a.m.k. að stórum hluta til rætur að rekja til þess að hér er ekki nóg námsgögn á boðstólum, t.d. í náttúrufræðigreinum sem m.a. var prófað í, þá virðist ekki eiga að fara eftir þessum viðvörunarmerkjum. Það á hreinlega að passa að málin séu ekkert rannsökuð ofan í kjölinn svo að ekki komi neinar sannanir um að það þurfi kannski virkilega að gera betur í þessum málum. Þar á a.m.k. ekki að gera neitt átak. Mér urðu þetta mikil vonbrigði og ég veit að ég er ekki ein um það. Mörgu fólki sem ber grunnskólann fyrir brjósti á Íslandi eru þetta mikil vonbrigði og mikið áhyggjuefni og fólk hugleiðir hvert er verið að stefna með þessi mál.

Til framhaldsskólanna í landinu er nú verið að útdeila fjármunum eftir nýrri aðferð, svokölluðu reiknilíkani sem mikið hefur verið talað um. Samkvæmt skýrslu frá Ríkisendurskoðun er uppsafnað tap hátt á annað hundrað millj. við síðustu áramót. Samkvæmt sérstökum kokkabótum sem ríkisstjórnin hefur tileinkað sér var að sjálfsögðu búinn til pínulítill pottur og þar virðast þeir framhaldsskólar sem höfðu safnað upp þessu tapi eiga að krjúpa við og á að útdeila eftir einhverjum duldum reglum sem hvergi hafa verið gefnar út en gefið hefur verið í skyn að þeir þurfi að lagfæra ýmislegt í rekstrinum og fara að ábendingum ráðuneytisins o.s.frv. og þá hugsanlega verði þeim umbunað. Ég hef áhyggjur af þessu ráðslagi og ég vil líka koma enn einu sinni að því að fallskattur og skólagjöld munu ekki skila framhaldsskólunum og eiga ekki að skila framhaldsskólunum þeim fjármunum sem eiga að laga þennan halla.

Eins og ég kom að áðan er engin viðbótarfjárveiting til Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála í fjárlagafrv. og tillaga þess efnis var felld við 2. umr. Ég veit ekki hvað yfirvöld menntamála eru að hugsa. Með ærnum tilkostnaði er búið að gera kannanir og rannsóknir sem liggja fyrir í stöflum og stökkum en það á ekki að veita neitt fjármagn til að vinna úr þessu. Af hverju var verið að gera þetta? Af hverju var verið að kosta til þessa öllum þessum peningum ef ekki á að veita peninga til þess að vinna úr gögnunum? Ég skil ekki alveg þá hugsun sem að baki býr, ég verð að segja það, og ég veit að ég er ekki ein um það.

Mig langar enn að minna á það að í fjárlagafrv. fá háskólarnir á Íslandi og þeir skólar, sem er á næstunni verið að gera að háskólum eða er nýlega búið að gera að háskólum með lögum sem nýlega hafa verið samþykkt, nánast ekki nein viðbótarframlög í hlutfalli við það sem þeir báðu um og færðu mjög góð rök fyrir að þeir þyrftu nauðsynlega á að halda. Ég ítreka að það er áhyggjuefni þeim sem bera skólamál og menntamál á Íslandi fyrir brjósti hversu naumt eru skornar fjárveitingar til háskólanna á Íslandi. Það er nokkuð sem er ekki í kallfæri við neitt annað sem við þekkjum í nálægum löndum.

[25:30]

Ég vil ekki skilja svo við 3. umr. fjárlaga að ég minnist ekki á hið geigvænlega vandamál sem skuldasöfnun heimilanna er hér á landi og mjög hátt vaxtastig og verðtrygging gerir það að verkum að stöðugt þyngist fyrir fæti hjá fólki að standa í skilum svo margir hverjir vita ekki sitt rjúkandi ráð. Ég minni á að hægt væri að setja einhver hvetjandi atriði inn í tengslum við útborgun vaxtabóta þar sem fólk væri t.d. hvatt til að leggja inn vaxtabætur á móti skuldum og fengi í staðinn t.d. skattfrádrátt eða sérstakan virðisauka á það fé sem það leggur inn. Það má útfæra slíkt kerfi á margan hátt en aðalatriðið er að það hvetji til niðurgreiðslu skulda í stað þess að vera beinlínis eyðsluhvetjandi eins og núverandi fyrirkomulag er. Það má hugsa sér margar fleiri aðgerðir þar sem ríkið gæti gengist fyrir auknum sparnaði meðal fólks eins og gert var með húsnæðissparnaðarreikningum þar sem fólk gat fengið vexti frádregna frá sköttum og urðu þeir til að margir, sérstaklega ungt fólk, lagði reglulega fyrir. Mér finnst vanta slíka hugsun inn í stefnu stjórnvalda nú þegar þeir leggja fram fjárlög ársins 1988 í bullandi góðæri og hvergi er gerð minnsta tilraun til að gera ráðstafanir til að safna til mögru áranna sem því miður munu koma líkt og þau hafa alltaf gert eins og í Egyptalandi forðum.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.