1997-12-20 02:15:45# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[26:15]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. 3. umr. fjárlaga hefur nú staðið lengi dags og ég þakka fyrir hana. Hún hefur verið málefnaleg og það er ljóst að stjórnarandstaðan hefur sett fram stefnu og það er vel. Hún hefur sett fram þá stefnu að afla viðbótartekna í ríkissjóð. Það er stefna sem er hægt að tala um. (ÖS: Til að borga fyrir ...) Hins vegar hafa talsmenn Alþfl. hér talað dálítið í aðra átt. (Gripið fram í.) Þeir hafa talað um að miklu meiri afgangur þurfi að vera af fjárlögum og að ekki sé nógu langt gengið í því að lækka útgjöld. (ÖS: Er það ekki einhver minni háttar ...?) Það voru svona minni háttar menn á borð við formann Alþfl. sem höfðu þann málflutning uppi. Mér finnst þessi málflutningur vísa dálítið í tvær áttir. En komið hefur fram ákveðin stefnumörkun og ég tel það vel. Það er ljóst hvað hv. þingmenn leggja til og ég tel að þannig eigi þessi umræða að fara fram.

Ég vildi árétta örfá atriði í lokin án þess að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil árétta það að á fjáraukalögum voru settar 280 millj. til að mæta vanda sjúkrastofnana úti á landi. Mér fannst það ekki vera alveg ljóst áðan að 80 millj. voru settar í ákveðnar stofnanir þar sem var skilgreindur vandi og ekki var eftir neinu að bíða að mæta honum og sú skilgreining er í samþykktum fjáraukalögum. Það ber að undirstrika það varðandi vanda sjúkrastofnana á landsbyggðinni, stærri sjúkrahúsanna að þeirra vandi var að koma fram á þessu ári, á síðasta ári og á þessu ári. Ég legg áherslu á að ráðist verði í að fara yfir þær tölur sem þar eru og komast að niðurstöðu um það hverju á að mæta af þeim. Ég tel að þegar hallatölur koma fram, þá eigi að fara yfir þau mál í samvinnu við stofnanirnar og komast að niðurstöðu um tillögur til þess að mæta þeim vanda.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. þegar hún rakti vanda sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í sínu kjördæmi að þar hefur verið sparað t.d. með sameiginlegum útboðum á rekstrarvörum í samvinnu við stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Ég tel að þetta sé eitt af því sem þarf að kanna, t.d. hvort aukin samvinna sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi geti leitt til hagkvæmni, sparnaðar og betri þjónustu við fólkið. Einn þáttur í vanda sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu er að þau eru endastöð fyrir allt landið og það ber að skoða hvort samvinna við sjúkrastofnanir úti á landsbyggðinni getur létt eitthvað á þrýstingnum á þeim. Þetta er eitt af því sem þarfnast úrlausnar.

Það er alveg rétt sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, að heilbrigðismálin hafa verið mjög til umræðu í dag og það er auðvitað að vonum. Þetta er mjög stór þáttur í ríkisútgjöldunum. Sjúkrahúsin í Reykjavík eru stærstu stofnanir og fyrirferðarmestu sem koma fyrir í fjárln. og það skiptir náttúrlega mjög miklu máli hreinlega um afkomu ríkissjóðs hvernig þeirra málum er fyrir komið.

Ég vil í lok máls míns draga það saman hvernig ég lít á þá afgreiðslu sem málefni sjúkrahúsanna hafa fengið. Það er í samræmi við það sem hefur komið fram í máli mínu áður. Ég tel að niðurstaðan varðandi stóru sjúkrahúsin sé sú að það verður að komast að niðurstöðu um framkvæmd samningsins frá því í september, hvað af honum eru líkur til að gangi fram og það verður að komast að niðurstöðu um það hverju á að mæta af uppsöfnuðum vanda sjúkrahúsanna, hve mikið er hægt að ráða við af þeim vanda með samstarfi eða skipulagsbreytingum og hve miklu þarf að mæta með beinum framlögum og hvort hægt sé að mæta þeim vanda á einu ári eða skipta honum á lengri tíma.

Það þarf að gera viðhaldsáætlun fyrir Sjúkrahús Reykjavíkur t.d. til lengri tíma en eins árs og ég tel að það framlag sem var ákveðið milli 2. og 3. umr. muni greiða fyrir því að svo verði gert þar sem 146 millj. eru nú til ráðstöfunar til meiri háttar viðhalds á sjúkrahúsinu. Miklu meira þarf til þess. Án þess að ég sé að fara með neinn stórasannleik í þeim efnum þá hafa komið fram tölur yfir hálfan milljarð í viðhaldi á þessari stofnun. Ég tel að að binda verði niður í samkomulag hvernig taka eigi þessum málum og koma með tillögur um það þannig að forsvarsmenn sjúkrahúsanna geti gengið að einhverju vísu í þessu til ákveðins tíma. Þetta er m.a. verkefni hópsins sem meiningin er að setja upp til þess að vinna að þessum verkefnum og ætlunin er að styrkja heilbrrn. með þessum starfskröftum. Ætlunin er að stýrihópurinn verði í fullu starfi við þessi verkefni. Það eru lagðir til þess fjármunir að kosta það og ég tel að brýn þörf sé á því að standa þannig að málum. Það þarf ekki eingöngu að vinna að málum sjúkrahúsanna í Reykjavík eins og hér hefur komið fram. Ég tel t.d. að hlutverk þessa hóps sé að kanna samstarf sjúkrastofnana á höfuðborgarsvæðinu og um landsbyggðina. Það er hlutverk hans að leggja sínar tillögur fyrir fjárln. og þannig að fjárln. hafi aðgang að upplýsingum að þessu starfi á hverjum tíma. Þetta er mikið verk og þetta verkefni þarfnast þess að þennan hóp skipi gott fólk, þ.e. fagfólk, og það endurspegli sjónarmið sjúkrastofnana úti á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu og þar að auki sjónarmið þeirra ráðuneyta sem hlut eiga að máli (ÖS: Og heilbrn.) og bera ábyrgð á málinu. (ÖS: Og heilbrn. Sturla Böðvarsson sagði það.) Og hv. heilbrn. að sjálfsögðu. Ekki ætlaði ég nú að gleyma henni vísvitandi, þeirri virðulegu nefnd.

Þetta vildi ég láta koma fram í lok umræðunnar því að vissulega er það svo að þessi vandi er mikill. Hallatölur sjúkrahúsanna hafa eins og ég sagði áður verið að koma fram núna á þessu ári og síðasta ári þó að sumar þessar hallatölur séu eldri. Það er mjög brýnt verkefni að takast á við þetta og ég legg áherslu á að reynt sé að ná utan um þennan vanda og gera áætlanir um að leysa hann til þess að hægt sé að veita þá þjónustu sem krafist er af heilbrigðiskerfinu.

Fjárln. hefur lagt töluvert mikla vinnu í að skilgreina þennan vanda svo ég taki hóflega til orða. En ég segi það sem mína skoðun að það er ekki nægjanlegt til þess að fjárln. geti náð utan um málið í heild á þeim tíma sem hún hefur til starfa. Hv. 5. þm. Suðurl. sagði að allar upplýsingar lægju fyrir hjá okkur og það væri ekki ofverkið okkar að gera þetta en ég held að meira þurfi til og við þurfum að standa að þessum málum eins og ákveðið hefur verið að gera.

Ég ætla ekki að lengja þetta meira. Ég endurtek þakkir fyrir málefnalega umræðu og ég endurtek að fram hefur komið stefnumörkun í þessari umræðu og þannig á það að vera. Menn fara ekkert í grafgötur með það að stjórnarandstaðan vill auka tekjur. Við viljum vera innan þess ramma sem við höfum í tekjunum og við teljum að ríkisfjármálin séu í jafnvægi og það miði í rétta átt ef allt gengur eftir. Við teljum að þær eignasölur sem fyrirhugaðar eru séu raunverulegar og það séu raunveruleg verðmæti sem ætlunin er að selja þannig að engin ástæða sé til annars en að vera bjartsýnn á að það takist að snúa þróuninni við á næsta ári og greiða niður skuldir.