Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:49:45 (2885)

1997-12-20 09:49:45# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:49]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er von að hv. þm. spyrji. Hann spurði þessarar sömu spurningar mjög oft meðan fjallað var um málið í efh.- og viðskn. Ég veit ekki hvort ég er þess betur umkominn hér og nú að svara hv. þm. en í nefndarstarfinu. Ég vona þó að hv. þm. Pétur Blöndal geti skilið að greinin segir að þeir sem hafa ráðningarkjör sem eru ekki byggð á og taka í engu tillit til kjarasamnings geti valið sér lífeyrissjóð.

Ég hygg að ef hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Steingrímur Sigfússon fara í atvinnurekstur eins og hv. þm. lýsti og hv. þm. ætlaði sér að vinna hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þá hygg ég að hv. þm. Steingrímur Sigfússon mundi að ráða hv. þm. Pétur H. Blöndal sem framkvæmdastjóra batterísins. Ekki væri hægt að ráða hv. þm. Pétur H. Blöndal sem sendisvein, lagermann eða eitthvað slíkt. Honum væri að sjálfsögðu stillt upp í forustu fyrir slíkri starfsemi og þá væri málið tiltölulega einfalt. (Gripið fram í.) Já. Ef hv. þm. Pétur H. Blöndal yrði afgreiðslumaður, þá vænti ég að ekki einungis yrði launaskrið í þessari stétt heldur miklu frekar titlaskrið. Viðkomandi hv. þm. fengi þar væntanlega mikinn frama og tækist með einhverjum ráðum að greiða í þann lífeyrissjóð sem hann kysi.