Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:52:15 (2886)

1997-12-20 09:52:15# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Spurningin sem ég bar upp er grundvallarspurning og hv. frsm., framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, svaraði í véfréttastíl. Á vissu tímabili þóttist ég geta lesið út úr svari hans að ég gæti valið lífeyrissjóð, ég sem einfaldur afgreiðslumaður í verslun hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég tel mig hafa skilið hann þannig en ég óska eftir því að hv. frsm. komi með skýr svör að því gefnu að ég sem launþegi, afgreiðslumaður hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem væri þá orðinn atvinnurekandi, ekki í neinum samtökum frekar. Get ég valið um lífeyrissjóð? Gætu hann og ég í sameiningu valið okkur lífeyrissjóð, t.d. hjá Kaupþingi eða einhvern annan lífeyrissjóð að okkar vali? Gætum við valið okkur Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda?