Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:56:03 (2888)

1997-12-20 09:56:03# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Frv. þetta er býsna viðamikið og ekki ætlandi að fara yfir það í stórum dráttum í andsvari enda ræður hentugri til þeirra hluta. Mig langar að fá skýringu frsm. brtt. á einu atriði í frv., þ.e. hvenær ekki sé heimilt að starfrækja lífeyrissjóði. Það er tekið fram í 21. gr. frv. að minnst 800 sjóðsfélagar skuli að jafnaði greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í mánuði hverjum. Í skýringum við þá grein segir að fari félagatalan niður fyrir þá tölu um lengri tíma verði að taka til athugunar hvort slíta verði sjóðnum.

Mig langar að fá skýringar hv. frsm. á því hvernig beri að skilja þetta ákvæði. Ber að slíta sjóðnum undantekningarlaust við þessi skilyrði óháð efnahag og stöðu sjóðsins? Vissulega eru oft dæmi um að sjóðir, þótt fámennir séu, séu býsna öflugir. Þeir standa vel undir sínum skuldbindingum og jafnvel betur en stærri sjóðir eins og t.d. okkar ágæti Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Mig langar að fá skýringar frsm. á því hvort þetta sé meginreglan og fortakslaus í þessu frv. eða hvort þessir sjóðir, standi þeir að öðru leyti vel, geti verið starfræktir áfram.