Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:58:02 (2889)

1997-12-20 09:58:02# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, Frsm. VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vil ég taka fram að það er gert ráð fyrir því að sjóðir sem hafa minna en 800 sjóðfélaga geti starfað áfram ef áhættudreifing vegna skuldbindinga er tryggð með eðlilegum hætti. Fyrst og fremst hefur þetta þýðingu gagnvart örorkulífeyri. Það þarf ekki beinlínis að loka viðkomandi sjóði heldur getur hann í samstarfi við aðra lífeyrissjóði eða með því að kaupa tryggingu hjá tryggingafélagi tryggt sig. Hann gæti því staðið undir eðlilegri áhættu, t.d. vegna einhverra hörmunga eða víðtækrar örorku sem gæti dunið yfir sjóðfélagana. Þetta er fyrst og fremst spurningin um að tryggja að sjóðfélagar í slíkum sjóði séu ekki lakar settir en þeir sem eru í stærri lífeyrissjóði.