Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 09:59:42 (2890)

1997-12-20 09:59:42# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[09:59]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin og skil þau svo að það sé ekki meginreglan með þessu frv. að loka sjóðum þar sem sjóðfélagar eru færri en 800 heldur sé reglan sú að þeir hafi tryggingar sem dugi fyrir þeirra skuldbindingum, að þær séu jafngóðar og í stærri sjóðum. Minni sjóðir þyrftu þá að kaupa sér tryggingu sem mér skilst að hægt sé að fá á tryggingamarkaði fyrir lítið fé ellegar taka upp samstarf við aðra lífeyrissjóði og baktryggja sig fyrir stórum áföllum sem kynnu að gerast. Þegar um er að ræða fámenna sjóði, þá getur eitt slys bakað sjóðnum mikla ábyrgð og kannski meiri en hann getur staðið undir einn og sér með góðu móti.

En ég ítreka það, herra forseti, að ég skil málið þannig að sjóðunum sé heimilt að starfa áfram. Það er ekki verið að lögbinda að þeir skuli hætta en lögbundið að þeir skuli koma sér upp baktryggingu.