Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:02:17 (2892)

1997-12-20 10:02:17# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, PHB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:02]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég mæli fyrir þremur brtt. á þskj. 525, 526 og 527 sem ég flyt ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni. Fyrst vil ég gera grein fyrir afstöðu minni til þess frv. sem liggur hér fyrir.

Herra forseti. Mál það sem hér er flutt er gott mál og nauðsynlegt. Fyrir löngu var orðið brýnt að taka á málefnum lífeyrissjóðanna sem voru að mestu leyti settir í gang með löggjöf frá 1974. Sú löggjöf var ákaflega einföld, aðeins ein setning sem sagði að öllum launþegum væri rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Punktur. Í þeim lögum var ekki fleira. Þar með var stór hluti þjóðarinnar, allir launþegar, skyldaður til að borga í lífeyrissjóð sem hafði verið stofnaður um þeirra starfsstétt hvort sem þeir voru í viðkomandi stéttarfélagi eða ekki. Við þessa breytingu varð geysimikil fjölgun í sjóðunum og lífeyrissjóðakerfið fór í gang.

Ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega ofan í efni frv. Ég fjallaði um það við 1. umr. en frv. tekur á mjög nauðsynlegum þáttum eins og starfsskilyrðum og starfsleyfum, rekstri og innra eftirliti, fjárfestingarstefnu ársreikninga, endurskoðun og eftirliti. Allt er þetta bráðnauðsynlegt til að tryggja hag sjóðfélagans, t.d. fyrir misferli forráðamanna sjóðsins eða því að sjóðurinn standi ekki við skuldbindngar sínar o.s.frv. Ekkert í lögum hingað til hefur tryggt að menn fái yfirleitt lífeyri úr sínum sjóði.

Ég má til með að geta um einn alvarlegan vankant á núverandi lífeyrissjóðakerfi, herra forseti, sem ekki er leystur með þessu frv. Vankanturinn er sá að okkar lífeyrissjóðakerfi byggir með örfáum undantekningum á því að flytja réttindi milli kynslóða. Ungur maður fær sömu réttindi fyrir hverja krónu og eldri maður sem borgar í sjóðinn. Tvítugur maður fær sömu réttindi fyrir hverja krónu og 55 ára maður en hann ætti að fá þrisvar sinnum meiri réttindi miðað við þá ávöxtunarkröfu sem gengið er út frá, dánarlíkur og annað slíkt. Þarna ungi maðurinn látinn borga fyrir eldri manninn og í sjálfu sér væri það allt í lagi ef sjóðirnir væru allir með nákvæmlega sömu aldursdreifingu. En þeir eru það ekki.

Nokkrir sjóðir eru með tiltölulega mikið af gömlu fólki, mjög mikið af gömlu fólki og þar af leiðandi er staða þeirra lakari fyrir það eitt að sjóðfélagarnir eru gamlir. Maður sem er skyldaður til að borga inn í slíkan lífeyrissjóð fær ekki sömu réttindi og sá maður sem er skyldaður til að borga inn í lífeyrissjóð sem samanstendur af ungu fólki. Síðarnefndi sjóðurinn er betur fær um að borga lífeyri. Hann getur hækkað lífeyrinn á sama tíma og hinn sjóðurinn þarf að skerða hann. Þetta er mjög alvarlegur galli á kerfinu og það mun koma í ljós þegar menn hrinda þessu frv. í framkvæmd.

Ég spái því og veit að það mun valda mikilli úlfúð meðal sumra þegar í ljós kemur að sums staðar þarf að skerða lífeyri vegna þess að sjóðfélagarnir eru gamlir á meðan aðrir sjóðir geta hækkað lífeyri vegna þess að sjóðfélagarnir eru ungir. Þetta er ákveðinn galli í kerfinu.

Ég hafði nú eiginlega hugsað mér að menn mundu nota núverandi hávaxtaskeið til þess að laga þetta en menn hafa ekki sýnt neina burði til þess, þannig að við munum uppgötva það eftir þrjú, fjögur eða fimm ár að sums staðar verði lífeyrir skertur en aukinn annars staðar. Það hefur ekkert það að gera hvort sjóðurinn er illa rekinn með háan kostnað eða hafi ávaxtað fé sitt illa. Gott dæmi um þetta er nýleg sameining sjóða í Sameinaða lífeyrissjóðnum þar sem réttindi Lífeyrissjóðs verkstjóra voru skert allverulega á sama tíma og réttindi þeirra sem voru í Lífeyrissjóði garðyrkjumanna voru bætt allverulega. Í fyrri sjóðnum voru eldri menn en í síðari sjóðnum voru yngri menn. Þetta gengur náttúrlega ekki upp og spurning hvort þetta stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. En ekki meira um þetta.

Herra forseti. Það sem vekur mesta athygli við þetta frv. er það sem vantar. Það sem vantar inn í frv. er samspilið við almannatryggingar. Það er á engan hátt tekið á því hvernig við ætlum að reka þessi tvö kerfi sem í sífellu rekast á. Almannatryggingar eru mjög góðar á alþjóðlegan mælikvarða. Þær veita einstaklingi 50--60 þús. kr. á á mánuði þó hann hafi aldrei borgað í lífeyrissjóð. Maður sem aldrei hefur unnið eða aldrei borgað í lífeyrissjóð fær milli 50--60 þús. kr. á mánuði sem er mjög gott á alþjóðlegan mælikvarða. Þetta er ákveðinn grunnlífeyrir. Svo höfum við lífeyrissjóði sem eru að stefna að því að veita öllum réttindi til 50--60% af launum, jafnvel yfir 70--80% af launum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það er mjög góður lífeyrir á alþjóðamælikvarða og mundi jafnvel teljast oftrygging sums staðar vegna þess að hinn aldraði lífeyrisþegi þarf ekki að borga í lífeyrissjóð. Hann sparar 4%. Hann stendur ekki í uppeldi barna, svona alla jafna, og hann hefur yfirleitt komið yfir sig þaki. Það er gert ráð fyrir því að menn hafi lokið þessu af, séu sestir í helgan stein og þá hafi þeir miklu minni þarfir. Ellilífeyrisþeginn þarf ekki að sjá stórri fjölskyldu farborða o.s.frv. þannig að yfirleitt er talið að hinn aldraði þurfi um 50% af tekjum hins vinnandi svo að lífskjör beggja séu sambærileg. Við stefnum í töluvert mikið meira en því marki náum við ekki fyrr en eftir nokkra áratugi.

Á hverju einasta ári sjáum við að almannatryggingar og lífeyrissjóðirnir rekast á. Þeir sem hefja töku ellilífeyris í dag eru yfirleitt með 1,5--2% hærri lífeyri miðað við ævilaun en þeir sem fóru á lífeyri fyrir ári síðan. Þannig hækkar ellilífeyririnn ár frá ári hjá þeim sem eru að byrja að taka lífeyri. Hjá almannatryggingum er þetta skert en ekki nægilega mikið þannig að hagur hins aldraða er stöðugt að batna og í sjálfu sér þyrfti stöðugt að skerða meira hjá almannatryggingum á meðan ekki er tekið á þessu með skynsamlegum hætti. Og hver er skynsamlega lausnin á þessu? Að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að hver einasti maður hafi staðið við lögin og borgað í lífeyrissjóð frá 1980. Menn hafa ekki mannað sig upp í að nota þá lausn. Ef gert væri ráð fyrir því að hver einasti maður hafi borgað í lífeyrissjóð frá 1980 eftir að það varð skylda að allir landsmenn sem hafa tekjur af vinnu sinni borgi í lífeyrissjóð mundum við losna við allar þessar furðulegu skerðingar og jaðarskatta sem eru orðnir svo flóknir að ekki nokkur einasti maður skilur þá. Oft kemur það þannig út að gamalt fólk fær nánast ekkert í budduna þegar lífeyrissjóður er svo rausnarlegur að hækka lífeyrinn. Á þessu er ekki tekið í frv. Þetta er kannski of stór biti.

Annað sem vantar inn í þetta frv. og jafnvel öllu alvarlegra er svarið við spurningunni: Hver á allt þetta fé sem er í lífeyrissjóðunum? Hver á þessa óskaplegu fjármuni sem þarna eru? Þetta eru yfir 300 milljarðar, þetta eru um 2 millj. á hvern einasta Íslending, 2 millj. á hvern einasta vinnandi Íslending. Þetta eru feiknalegir peningar og en spurningin er: Hver á þessa peninga? Á eftir mun ég mæla fyrir brtt. við frv. ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni og þá mun ég fjalla um hvernig þetta yrði leyst.

Inn í þetta vantar einnig að gera ráð fyrir því hver stjórni öllu þessu batteríi. Hver stjórnar þessu mikla batteríi? Í umræðunum hér áður töluðu menn um trölladans þar sem aðilar fjármagnsmarkaðarins væru að ásælast þetta fé. Menn hafa oft talað um kolkrabbann og um smokkfiskinn en það eru smáseyði. Kolkrabbinn er smáseyði. Ef maður setti stærðarhlutföll væru kolkrabbinn og smokkfiskurinn eins og köttur. Síðan koma stóru, stóru fyrirtækin eins og Landsvirkjun sem eru miklu miklu stærri en kolkrabbinn og öll orkufyrirtækin. Orkufyrirtækin eiga svipaðar eignir og öll útgerðin í landinu. Þessu er stýrt af örfáum mönnum. Þetta mundum við kalla hross, þarna eru hross miðað við að kolkrabbinn sé köttur. En síðan koma tröllin og þá fílarnir og það eru lífeyrissjóðirnir. Lífeyrissjóðirnir hafa tvöfalt meira eigið fé og tvöfalt meiri eignir en öll orkufyrirtækin. Svona eru hlutföllin og þetta eru tröllin. Þessir aðilar eru að berjst í 2. gr. Þeir reyna að halda í fólkið og láta Íslendinginn borga 10% af öllum launum í sjóðina. Það er meira en ríkið tekur. Ríkið tekur ekki nema 7% af launum allra Íslendinga en lífeyrissjóðirnir taka 10% og að sjálfsögðu eru það miklir hagsmunir að fá tíundu hverja krónu sem Íslendingurinn þénar fyrir skatta. Þetta er slagurinn um 2. gr. og það er þess vegna sem ekki mátti samþykkja frv. í vor og þess vegna stóðu menn í að semja í allt sumar. Þess vegna varð niðurstaðan sú í 2. gr. að enginn skilur né vill skilja hana.

[10:15]

Hver á að stjórna öllu þessu? Hver ræður lífeyrissjóðunum? Hver skipar í stjórn? Ég spyr hv. þingmenn: Hafið þið mætt á félagsfundi í ykkar lífeyrissjóði þó að það sé stjórn yfir ykkar lífeyrissjóði? Ónei. Það er aldrei haldinn aðalfundur í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. (Gripið fram í: Það er rangt.) Og hvenær hef ég verið boðaður? (Gripið fram í: Hann hefur verið haldinn einu sinni.) Einu sinni. Húrra! En aldrei meir. (Gripið fram í: Ekki síðan lögunum var breytt.) En aldrei meir. (Gripið fram í: Jú, jú.) Jæja, það er þá vonandi að það batni eitthvað. Og hvaða áhrif hafa sjóðfélagarnir á stjórn þar? (ÖJ: Þingmaðurinn verður að kynna sér það.) Hvaða áhrif hafa sjóðfélagar á stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Engin. Þeir eru kosnir af BSRB og ríkisvaldinu. (ÖJ: Ég vona að annað sem þingmaðurinn ...) Herra forseti. Get ég fengið frið?

(Forseti (RA): Ég vil biðja hv. þingmenn að veita þingmanni hljóð.)

Inn í þetta frv. vantar lýðræði í lífeyrissjóðunum, þ.e. að sjóðfélagarnir fái að kjósa þá stjórn sem fer með þeirra fjármuni og þá stjórn sem handleikur fjöregg þeirra og sér til að fjármunir þeir sem eiga að standa undir þeim í ellinni nægi. Það hlýtur að skipta hvern mann verulegu máli að hann hafi einhver áhrif á það hverjir fara þarna inn. Og þess vegna flyt ég brtt. við þetta frv. ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni. Mér þætti gaman að sjá hv. þm. greiða atkvæði gegn lýðræði innan lífeyrissjóðanna, ég hefði gaman að sjá það, herra forseti.

Nú ætla ég, herra forseti, að koma að brtt. þeim sem ég gat hér um áðan. Sú fyrsta er við þessa frægu 2. gr. Hún hljóðar svo:

Í stað orðanna ,,velur viðkomandi`` í 2. málsl. 2. mgr. komi: getur viðkomandi þó valið.

Þar er verið að skerpa á þeim skilningi sem kom fram hjá hv. formanni efh.- og viðskn. með mjög veikum hætti þó. Það þurfti að draga það út úr honum með töngum að ef ég væri afgreiðslumaður í vinnu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem væri atvinnurekandi utan samtaka, gætu ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ákveðið í hvaða lífeyrissjóð ég greiddi, t.d. í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Til að skerpa á þessum skilningi leggjum við fram tillögu um að breyta orðalaginu í 2. gr. Þannig væri á hreinu að ég gæti valið mér lífeyrissjóð. Það er ekki alveg á hreinu. Það er næstum því á hreinu í frv. að vísi ráðningarsamningur ekki í neinn kjarasamning mega launþegar sem ekki eru í stéttarfélögum og vinna hjá atvinnurekendum sem ekki eru í samtökum atvinnurekenda velja sér lífeyrissjóð. Þetta er mjög mikilvægt atriði og sá skilningur sem ég hef á 2. gr. Til þess að skerpa á þessum skilningi flyt ég þessa brtt. ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni. Ætlunin er að auka frelsi borgarans til að velja sér lífeyrissjóð þannig að hann sé ekki skyldugur að borga í lífeyrissjóð sem honum kemur ekkert við og hann langar ekki til að eiga hlut að.

Herra forseti. Þá flyt ég ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni brtt. á þskj. 526 sem hljóðar svo:

,,Við 1. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingarvernd er eign rétthafa.``

Í öðru lagi er breyting við 18. gr.: Á eftir orðinu ,,sjóðfélaga`` í fyrri málslið 2. mgr. komi: sem og hlutdeild hans í hreinni eign til greiðslu lífeyris.

Hér er verið að taka á því hver eigi þessa óskaplegu fjármuni. Hver á þessa fjármuni sem standa á móti lífeyrisréttindunum. Þetta eru raunverulegir peningar, skuldabréf, fasteignir og verðbréf af ýmsum toga. Þetta eru miklar eignir en hver á þær? Ef maður liti á iðgjaldið sem yfirleitt er 6% og 4%, þá kynni maður að halda að launþeginn ætti 40% af eignunum og atvinnurekandinn 60%. En svo er ekki vegna þess að það er hægt að skipta iðgjaldinu öðruvísi. Auðvitað er hægt að hækka laun allra landsmanna um 9,4% rétt rúmlega og láta menn borga 10% iðgjaldið sjálfa án þess að nokkuð breyttist. Það breytist ekki neitt hjá fyrirtækinu, ekki neitt hjá launþegunum. Hvort tveggja er skattfrjálst og launþeginn fengi 9,4% hærri laun, en hann sæi jafnmikið í launaumslaginu vegna þess að það sem bættist við færi sem iðgjald til atvinnurekandans sem launþeginn mundi þá greiða sjálfur. Þannig er hægt að segja að þessi skipting á iðgjaldi sé eingöngu tæknilegs eðlis og segi ekkert um eignarform lífeyrissjóðanna.

Nú er spurning: Hvernig kom það til að atvinnurekendur fóru að borga 6%? Það er mjög gömul saga. Frá fornu fari hefur bóndi borið siðferðilega ábyrgð á hjúum sínum. Hann gat ekki hent hjúi út á guð og gaddinn þegar það hafði unnið hjá honum í 40 ár og var orðið lasið og gamalt. Honum bar til þess siðferðileg skylda að sjá því farborða og það gerði hann. Hjúið fór í hornið hjá honum. Þannig höguðu sér almennilegir bændur. Þeir sáu hjúinu farborða til dauðadags. Í öllum menningarsamfélögum er þetta svona. Í öllum þjóðfélögum var þetta svona en síðan hafa menn flutt húsbóndaábyrgðina yfir á ríki og bæ. Fyrst gerðist það með stofnun almannatrygginga, lífeyrissjóða og skylduaðild fólks að lífeyrissjóðum. Bismarck kom á sínum tíma með kerfi sem skyldaði fólk til að borga í lífeyrissjóði og atvinnurekendur líka. Það var til þess að losa atvinnurekendur undan þessari húsbóndaábyrgð. Hin stóru kerfi sem löggjöf flestra landa hefur sett á eru til að losa atvinnurekendur undan húsbóndaábyrgðinni. Í dag er líka erfitt, þar sem fólk skiptir um vinnu kannski mörgum sinnum á ævinni, að segja: Hver ber þessa húsbóndaábyrgð? Til þess að leysa vandamálið fundu menn upp lífeyrissjóði, skylduaðild, almannatryggingar og félagslega hjálp sveitarfélaga. Öll þessi kerfi eru til þess að losa atvinnurekendur undan húsbóndaábyrgðinni. Í dag bera þeir enga húsbóndaábyrgð. Hætti 70 ára maður að vinna og verður lífeyrissjóður hans verður gjaldþrota, þá er ábyrgð atvinnurekandans til að borga honum lífeyri engin. Þá taka almannatryggingar við og bregðist þær tekur við félagsþjónusta sveitarfélaganna. Viðkomandi ætti því aldrei að lenda á vonarvöl. Þannig er húsbóndaábyrgðin er horfin. Grundvöllurinn fyrir 6% iðgjaldinu eru þar með horfin líka og rökin fyrir eign atvinnurekanda í lífeyrissjóðunum er þar með horfinn líka.

Hver á þá lífeyrissjóðina? Auðvitað sá sem á réttindin. Þegar maðurinn er hættur að vinna hjá fyrirtæki A og byrjar að vinna hjá fyrirtæki B, þá á hann réttindin og enginn annar. Þegar maðurinn fer loksins á lífeyri segir fyrirtækið bless, gefur honum kannski gullúr fyrir 20 ára starf og þeirra samskiptum er lokið. Maðurinn á réttindin í lífeyrissjóðnum og enginn annar. Réttindin eru hans og ekki annarra. Með þessum rökum segi ég: Lífeyrissjóðirnir eru eign sjóðfélaga sinna og ég flyt brtt. sem segir einmitt þetta. Lífeyrissjóðurinn er eign sjóðfélaga sinna og ég geri ráð fyrir að allir hv. þingmenn geti samþykkt þetta og greiði þessu atkvæði.

Herra forseti. Þá er ég með brtt. sem tekur á lýðræðinu. Þar segir: ,,Félagsfundur fer með æðsta vald í málefnum lífeyrissjóðs.`` Þetta er nákvæmlega eins og í hlutafélögum og flestum öðrum félögum. ,,Heimild til þess að sitja félagsfund hafa sjóðfélagar eða umboðsmenn þeirra.`` Þetta er eins og í hlutafélagalögunum. Síðan kemur að stjórn lífeyrissjóðsins boði til félagsfundar o.s.frv. en atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum eftir nánari ákvæðum samþykktar sjóðsins. Hér segir að sjóðfélagarnir sem mæti á félagsfund geti kosið stjórn en ekki eins og hjá BSRB þar sem þeir sitja og mega hlusta og koma með tillögur eins og ráð er fyrir gert í þessu frv. Samkvæmt þessu frv. mega þeir koma með tillögur, þeir hafa málfrelsi en hvað gerist svo? Hluti fundarmanna dregur sig til hlés, 10--20 fundarmenn, og kjósa stjórn. Upplitið á launþeganum verður undarlegt þegar hann mætir á félagsfund og sér það að hann hefur engin áhrif samkvæmt þessu frv. Hann hefur engin áhrif. Úti í bæ eru einhverjir búnir að ganga frá þessu. Vinnuveitendasambandið er búið að tilnefna, ætli það tilnefni ekki svona 50 manns í stjórnir lífeyrissjóða vítt og breitt um landið á félagsfundi eða bara á stjórnarfundi í Vinnuveitendasambandinu. Verkalýðshreyfingin er með sínu háþróaða lýðræði, herra forseti, fulltrúalýðræði sem er gersamlega óumbreytanlegt í aldanna rás, búin að tilnefna fulltrúa sem mæta þarna á fundinn og kjósa stjórn.

Hinn almenni félagsmaður hefur sárasjaldan nokkur áhrif á þetta. Á því eru þó heiðarlegar undantekingar, þess verð ég að geta. Ég nefni Lífeyrissjóð verkfræðinga þar sem er raunverulegt lýðræði í dag og ég held að hjá Samvinnulífeyrissjóðnum sé það þannig líka. En þetta eru algerar undantekningar. Sjóðfélagar hafa yfirleitt engin áhrif á stjórnir lífeyrissjóðanna og ég hefði (Gripið fram í: ... hjá Íslandsbanka.) Hvað kemur Íslandsbanki þessu máli við, herra forseti? Ég skil ekki þessi frammíköll.

Hér er lögð fram tillaga um að komið verði á lýðræði í lífeyrissjóðunum og ég spyr hv. þingmenn sem umgangast kjósendur sína vítt og breitt um landið: Hafa þeir spurt sjóðfélaga sína hvernig hafi verið á síðasta aðalfundi? Hvern kaustu í stjórn hjá þínum lífeyrissjóði? Hafa þeir spurt þeirra spurninga? Hvernig var á síðasta aðalfundi? Er staða lífeyrissjóðsins góð? Hefur hann ávaxtað fé sitt vel? Kaustu nýja menn í stjórn eða ertu ánægður með störf stjórnarinnar? Ætli það yrði ekki frekar lítið um svör. Fæstir Íslendinga vita hver lífeyrissjóður þeirra er. Þeir vita það varla. Þeir eru skyldugir til að borga inn í þetta. Þetta er nánast eins og skattur. Oft er í alþjóðlegum samanburði rætt um hvort íslenska lífeyrissjóðakerfið sé ekki í rauninni opinbert kerfi og iðgjaldið í rauninni skattur. Það er alveg á mörkunum. Þetta er svona grátt jaðarsvæði.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir þessum þremur tillögum sem ég ásamt hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni flyt. Þá kem ég að síðasta liðnum sem er liðurinn um almannatryggingar. Það var það mikið verkefni að ég sá mér ekki fært að setja inn í þessar tillögur ákvæði um samspil lífeyrissjóðanna og almannatrygginga en það er verðugt verkefni og mjög brýnt. Það er mjög hastarlegt fyrir gamla fólkið að sjá allar þessar skerðingar sem eru í gangi hjá almannatryggingum og þegar fólkið fær hækkun upp á 4.000 kr. hjá lífeyrissjóðnum sínum eins og ég þekki dæmi um eru það 400 kr. sem skila sér til lífeyrisþegans. 90% fóru í að lækka lífeyri hjá almannatryggingum, 90% í skatt og til að lækka lífeyri hjá almannatryggingum í skerðingar hingað og þangað. Gamli maðurinn sem ég talaði við er mjög glöggur, hafði verið bókari og vissi nákvæmlega allt um þessi mál en botnaði ekkert í þessu. Ég fór í gegnum þetta. Ég er tryggingafræðingur, það er mitt starf, þetta er fag mitt. Ég skil þetta rétt á meðan ég les það. Þá skil ég það en svo man ég það ekki stundinni lengur og ég hugsa að það sé þannig með þá örfáu sem skilja almannatryggingalögin. Ég býst við að þannig sé með þá líka, þeir skilji það rétt meðan þeir lesa það og ekkert þar á milli. Þetta er orðið óheyrilega flókið skerðingakerfi og mjög brýnt að taka á því. Ég sá mér ekki fært, á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan frv. kom fram að taka á þessum vanda með brtt. Það kæmi inn á almannatryggingalöggjöfina líka þannig að hér er enn þá verk að vinna fyrir hv. Alþingi og ég legg til að menn taki á honum stóra sínum og leysi þetta vandamál með almannatryggingarnar og samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn á lögin frá 1974 sem segja í einni setningu að öllum launamönnum sé rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir í reynd að manni sem vinnur einhvers staðar úti í bæ er gert að borga í lífeyrissjóð sem af tilviljun hefur í reglugerð sinni ákvæði um að starfsstétt mannsins skuli borga í þann lífeyrissjóð. Ekkert annað. Hann er ekki í stéttarfélagi og honum ber yfirleitt ekki skylda til þess að vera í stéttarfélagi en samt er honum gert að borga í þennan ákveðna lífeyrissjóð hvort sem hann vill eða ekki. Ég þekki mörg dæmi þess að menn hafi verið skyldaðir til að borga í handónýta lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðir eru ekki allir jafngóðir, ávöxtunin hefur verið mjög misjöfn, þeir hafa lent í áföllum vegna þess að það eru engin lög sem passa þá eða það sem ég gat um áðan að þeir eru með mismunandi gamla sjóðfélaga. Manni úti í bæ sem vinnur heiðarlega sitt starf er gert að borga í lífeyrissjóð og það er undir hælinn lagt hvernig staða þess lífeyrissjóðsins er. Staða sumra lífeyrissjóða er dúndrandi góð. Staða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nýtur þess að hafa veð í vösum okkar skattborgara. En aðrir lífeyrissjóðir verða að standast vegna iðgjalda sinna eingöngu og þar er staðan oft og tíðum ekki góð. Ég nefni Lífeyrissjóð sjómanna, Lífeyrissjóð bænda svo eitthvað sé nefnt. Aðrir sjóðir standa vel, t.d. Söfnunarsjóðurinn og Lífeyrissjóður verslunarmanna sem hvor um sig inniheldur mjög ungt fólk og það skýrir stöðu þeirra. Þetta er eitt vandamálanna.

En þetta makalausa ákvæði frá 1974 sem var svo víkkað út 1980 svo það næði yfir alla sjálfstætt starfandi menn er alveg ótrúleg lagasetning, herra forseti, alveg ótrúleg lagasetning. Allir landsmenn eru skyldaðir til að borga í lífeyrissjóð án þess að nokkuð sé tekið á því hvort þeir lífeyrissjóðir geti borgað þann lífeyri. Eins vantar reglur um hvernig farið skuli með fé þeirra o.s.frv. Við höfum mjög stranga lagasetningu um banka, enn þá strangari um verðbréfafyrirtæki en hingað til höfum við haft mjög slaka lagasetningu um lífeyrissjóði og þetta frv. bætir úr því. Ég er því mjög fylgjandi þessu frv. þó á því séu þessir gallar. Ég hef nú flutt brtt. við flesta gallanna og ég mælist til að hv. þingmenn samþykki þessar brtt. og fallist á þau rök sem ég hef fært fyrir máli mínu.