Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 10:32:35 (2893)

1997-12-20 10:32:35# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[10:32]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi í ræðu sinni að fáir skildu ákvæði 2. gr. Ég held að þetta sé ofmælt því að það kom mjög skýrt fram í nefndarstarfinu að það væri valfrelsi um lífeyrissjóði svo fremi að launþeginn væri ekki í stéttarfélagi þannig að það var alveg kristaltært, hv. þm. Pétur Blöndal, að séu menn ekki í stéttarfélagi þá geta menn valið. Hættuna í þessu tel ég hins vegar vera að hér er verið að opna á það að þeir sem vilja una frelsinu, þeir sem vilja fá að vera frjálsir menn og ákveða sjálfir hvar sínum lífeyrissparnaði er fyrir komið, fari úr verkalýðsfélögum til þess að geta fallið undir þetta ákvæði. Í nefndarstarfinu kom líka fram að það er mjög sennilegt að núna fari einhver fyrirtæki að gefa út á geisladiskum eða prentaða ráðningarsamninga þar sem hvergi er vitnað til ákvæða þeirra ráðningarsamninga sem stéttarfélög gera. Þetta geta menn keypt, þess vegna í Pennanum eða hvar sem er, notað þetta sem sinn ráðningarsamning við sinn vinnuveitanda og þar með eru menn lausir undan því að þurfa að greiða í ákveðna lífeyrissjóði. Þar með eru menn frjálsir menn og þó að það sé gott að menn séu frjálsir hvað þetta varðar, þá er samt óeðlilegt að gera þetta með því að brjóta niður verkalýðshreyfinguna innan frá með þessu ákvæði. En það er hins vegar alveg ljóst að menn eru frjálsir ef þeir vitna ekki í sínum ráðningarsamningi í tiltekið stéttarfélag.