Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:26:24 (2901)

1997-12-20 11:26:24# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, VH
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:26]

Vigdís Hauksdóttir:

Hæstv. forseti. Ekki eru mörg ár síðan lífeyrissjóðakerfið virtist ekki geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart umbjóðendum sínum. Margir lífeyrissjóðir voru starfræktir smáir í sniðum með tiltölulega fáa sjóðfélaga, aðrir stærri sem gátu staðið við skuldbindingar sínar. Þetta leiddi til þess að lífeyrissjóðum fækkaði og þeir sameinuðust. Í byrjun mars 1997 voru starfræktir 66 lífeyrissjóðir en af þeim taka 10 sjóðir ekki við iðgjöldum. Samtryggingarsjóðir eru alls 54 og starfa 35 án ábyrgðar launagreiðenda og 19 með ábyrgð launagreiðenda. Séreignarsjóðir eru 13.

Með tilkomu séreignarsjóðanna breyttist allt umhverfi lífeyrissparnaðar til muna. Sterk umræða hafði átt sér stað í þjóðfélaginu og aukin krafa var um meira valfrelsi og frjálsræði í þessum veigamesta sparnaði hvers einstaklings. Í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr kom skýrt fram að treysta skyldi starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins og sérstök áhersla skyldi lögð á að finna leiðir til að auka valfrelsi í lífeyrissparnaði, innleiða samkeppni milli lífeyrissjóða og tryggja bein áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna. Stefnuyfirlýsingin vakti vonir um að loks yrði stigið veigamikið skref í frjálsræðisátt til handa sjóðfélögum til að velja sér lífeyrissjóð og til að ákveða hvort hluti iðgjalds skuli ganga til myndunar séreignar.

Hæstv. fjmrh. lagði síðan fram frv. í byrjun apríl sl. sem lokaði á alla starfsemi séreignarsjóða. Víðtæk andstaða var við frv. sem leiddi m.a. til þess að samtök áhugafólks um lífeyrissparnað var stofnað á fjölmennum fundi í Reykjavík. Um 12 þúsund manns greiða nú lífeyrissparnað sinn til séreignarsjóða og fannst þessu fólki mjög að sér vegið. Markmið samtakanna er að vinna að því að auka lífeyrissparnað og frelsi í lífeyrismálum og beita sér fyrir því að skattalegt umhverfi sé með þeim hætti að það hvetji til öflugs lífeyrissparnaðar. Hv. efh.- og viðskn. tók við málinu og var falið að leita málamiðlunar sem flestir gætu sætt sig við.

Í kjölfarið skipaði hæstv. fjmrh. nefnd til að yfirfara drög að frv. til laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Víðtæk sátt náðist í nefndinni og opnað er fyrir það á nýjan leik að séreignarsjóðir gætu starfað áfram sem fullgildir lífeyrissjóðir og að skilgreind lágmarkstryggingavernd gæti byggst á samtryggingu og lífeyrissparnaði. Þótt flestir hefðu kosið að frv. fæli í sér meira frelsi en raun ber vitni er það yfirlýst markmið frv. að auka valmöguleika sjóðfélaga samanber ákvæði til bráðabirgða II sem ég vil leggja á þunga áherslu að ekki týnist í umræðunni. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á árinu 2001 skal fjármálaráðherra láta gera skýrslu um þróun lífeyrismála í framhaldi af samþykkt laga þessara. Sérstaklega skal fjalla um hvernig lífeyrissjóðir hafa breytt samþykktum sínum og boðið sjóðfélögum upp á fleiri valmöguleika í samsetningu lífeyrisréttinda sinna, sbr. 4. gr., enda er það eitt af markmiðum laga þessara að auka valmöguleika sjóðfélaganna. Komi í ljós að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki boðið upp á valmöguleika með hliðsjón af lágmörkum skv. 4. gr. skal fjármálaráðherra láta, í samráði við hagsmunaaðila, undirbúa frumvarp um breytingu á lögum þessum þannig að þetta markmið þeirra náist.``

Þá vegur einnig þungt yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um sérstaka frádráttarheimild einstaklinga frá skatti vegna lífeyrissparnaðar að eigin vali. Þetta eru fyrstu skrefin í þessu stóra hagsmunamáli þjóðarinnar allrar en einungis fyrsti áfangi í átt til aukins frelsis á þessu sviði. Þess vegna styð ég þetta frv.