Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:30:52 (2902)

1997-12-20 11:30:52# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:30]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eins og reyndar fleiri ræðumenn hafa gert fagna því sérstaklega að þeim áfanga er náð að hér er til 2. umr. og væntanlegrar lokaafgreiðslu heildarlöggjöf um málefni lífeyrissjóðanna og ég tel sérstaklega mikilvæga þá samstöðu sem tekist hefur um afgreiðslu þessa máls. Það má heita svo að um það sé víðtæk sátt, hygg ég vera, í þjóðfélaginu. Að samkomulagi um afgreiðslu þessa máls standa með fáum undantekningum heildarsamtök atvinnulífsins í landinu og fulltrúar stjórnmálaflokka eins og sjá má m.a. á sameiginlegu nefndaráliti frá efh.- og viðskn. að vísu með þeirri undantekningu að tveir hv. þm. hafa lagt til nokkrar brtt. og tala fyrir þeim.

Það er e.t.v. rétt að ég byrji á því að upplýsa í sambandi við meintan eða fyrirhugaðan verslunarrekstur minn í Reykjavík sem hefur orðið nokkurt umtalsefni þar sem afgreiðslumaður mundi verða hv. þm. Pétur Blöndal, að þetta dæmi hefur að sönnu þjónað vel til skýringar á því hvernig einstök ákvæði frv. gætu komið út, en hitt er rétt að upplýsa að hér er eingöngu um dæmi að ræða. Það standa engin áform til þess að gera þetta að veruleika, a.m.k. ekki í bráð. Enn síður er það rétt sem sumir hafa haldið fram að þetta ætti að vera verslun tiltekinnar gerðar með tilteknar vörur. Það er ekkert slíkt á ferðinni. Hins vegar hefur þetta í efh.- og viðskn. og í vinnunni þar þjónað vel hlutverki sínu sem dæmi um tilvik sem gætu hugsanlega komið upp, a.m.k. fræðilega, þ.e. að ég stofnaði verslun, jafnvel kvenfataverslun, og réði hv. þm. Pétur H. Blöndal til afgreiðslustarfa. En þetta er sem sagt ekki annað en fræðilegt dæmi, enn sem komið er a.m.k.

Ég er þeirrar skoðunar og hef látið hana iðulega koma fram í umræðum um ríkisfjármál og framtíð íslenska velferðarkerfisins að eitt allra mikilvægasta málið í því sambandi sé fyrirkomulag lífeyrissparnaðar landsmanna og að þar sé þjóðin sem betur fer á réttri braut með það fyrirkomulag samtryggingarsjóða og uppsöfnunarsjóða eða sjóðsuppbyggingar sem hér hefur verið við lýði í hartnær 30 ár. Ég er ekki í neinum vafa um að þegar kemur inn á næstu öld, þá mun það sýna sig að þetta var eitt allra gæfuríkasta spor sem við höfum tekið, að hefja sparnað í stórum, öflugum samtryggingarsjóðum til að eiga fyrir lífeyrisskuldbindingum eða réttindum fólks, sérstaklega þegar að því kemur hér, sem væntanlega gerist eins og annars staðar þó síðar verði, að aldurssamsetning þjóðfélagsins verði orðin verulega breytt og hlutföllin milli þeirra sem eru á vinnumarkaði og hinna sem eru á eftirlaunaaldri hafi verulega breyst, en frammi fyrir þeirri þróun standa flestar þjóðir og reyndar glíma nú þegar við verulegt vandamál af þeim sökum, þ.e. að hlutfall þeirra sem eru á vinnumarkaði lækkar borið saman við hina. Þá mun þetta uppsöfnunarkerfi verða ákaflega mikilvægt og það mun ekki síst verða mikilvægt fyrir þá sem halda utan um ríkisfjárhirsluna á komandi áratugum að lífeyrissparnaðurinn verði mikill og góður og vel fyrir þeim málum séð.

Það er heldur enginn vafi á því í mínum huga, og ég held að það sé stutt óhrekjandi rökum, að stórir samtryggingarsjóðir séu ódýrasta og besta fyrirkomulagið í þessum efnum. Það leysir alls konar vandamál sem einstaklingsbundið eða frjálst, eins og sumir kalla það, kerfi þar sem hver og einn væri að reyna að tryggja sig skapar. Nærtækasta og kannski stærsta dæmið í því sambandi er aðstöðumunur kynjanna sem ella yrði til staðar en er jafnaður út í stórum samtryggingar- eða hóptryggingarsjóðum af því tagi sem við eigum. Fyrir vikið er lífeyristrygging kvenna ekki dýrari eins og hún ella hlyti að verða af augljósum ástæðum, sem sagt þeim að lífaldur kvenna er hærri en karla svo að munar nokkrum árum og tryggingin yrði af þeim sökum sem því næmi dýrari ef hún væri á einstaklingsgrunni.

Ég segi út af því sem hér kom fram í sambandi við lífeyrissjóðina sem slíka að ég held að það sé mikill misskilningur að fjalla um þá sem eitthvert fyrirbæri sem lifi í sjálfu sér, eins og þeir séu einhver stofnun sem lifi í sjálfu sér. Auðvitað eiga sjóðfélagar lífeyrissjóðina. Þetta er þeirra sparnaður. Hverjum dettur í hug að halda öðru fram? Það er svo morgunljóst að um það þarf ekki að ræða. Menn verða líka að hafa í huga að lífeyrissjóðir sem eru í fullkomnu jafnvægi eru í raun og veru ekkert annað en bankabók þar sem sparnaður sjóðfélaganna er geymdur til elliáranna og þegar sjóður er kominn í jafnvægi og hefur verið byggður upp að fullu þá er hann horfinn úr því hlutverki að vera nettófjárfestingaraðili í þjóðfélaginu og eftir stendur eingöngu ávöxtun þess fjár sem þar er geymt til sparnaðar eða sparnaður þeirra sem síðar njóta. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt. Menn gera oft þau mistök að ræða um lífeyrissjóðakerfið út frá tímabundnu ástandi sem í því ríkir á meðan sjóðirnir eru að byggjast upp. Þannig eru til að mynda áhyggjur manna af því að lífeyrissjóðirnir eignist allt Ísland algerlega óþarfar vegna þess að staða þeirra í þeim efnum er fyrst og fremst til komin á því tímaskeiði í ævi þeirra sem þeir eru að byggjast upp.

Hitt vil ég taka undir sem hér kom fram, m.a. hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að samspil lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins og reyndar fleiri þátta í okkar velferðarkerfi, skattkerfisins, félagslegrar framfærslu sveitarfélaga og slíkra þátta, er auðvitað ákaflega mikilvægt í þessu sambandi öllu. Það er alveg augljóst mál að það þarf að fara yfir þau mál í heild sinni og það hefur oft verið rætt, m.a. hefur hv. efh.- og viðskn. Alþingis lagt í það vinnu á undanförnum missirum og skoða þau mál og þeirri vinnu þarf að halda áfram. En það tekur sömuleiðis mið af því að kerfin eru ekki fullþroskuð, þau eru ekki fulluppbyggð, a.m.k. ekki lífeyrissjóðakerfið og það er augljóst mál að hlutverk þess er að vaxa og mun vaxa á næstu árum og vægi þess í heildarvelferðarkerfinu sem við komum til með að búa við á næstu öld vonandi. Þá mun sú stoðin sem stendur á lífeyrissjóðakerfinu að sjálfsögðu verða hvað gildust.

Af einstökum efnisatriðum frv., herra forseti, ætla ég aðeins að nefna 2. gr. Það er ljóst að athyglin hefur mjög beinst að 2. gr. frv. af eðlilegum ástæðum. Hún er afar mikilsverð. Þar vil ég fyrst og fremst segja að sá skilningur sem áréttaður er í nefndaráliti efh.- og viðskn. er mjög mikilvægur. Um hann er samkomulag að ég tel. Í reynd er byggt á því að raska ekki því starfsgreinabundna og kjarasamningabundna skipulagi á aðild að lífeyrissjóðum sem við lýði eru í dag. Það er alveg ljóst í mínum huga að ákvæði 2. gr. ber að skilja svo að um það er samkomulag og sá skilningur sem er áréttaður í nefndaráliti efh.- og viðskn. að ekki er ætlunin að raska því starfsgreinabundna og kjarasamningabundna fyrirkomulagi sem gildir í dag.

Varðandi 14. gr. frv. vil ég fyrst og fremst vekja athygli á því að þar er á ferðinni merkt nýmæli og mikilvæg réttarbót að mínu mati fyrir lífeyrisþega eða aðildarmenn sjóðanna. Þar á ég að sjálfsögðu við það ákvæði að heimilt verður eða lagður er hér lagarammi utan um rétt sjóðfélaga til að skipta lífeyri. Menn geta sem sagt annaðhvort samtímis sparnaðinum eða áður en að töku lífeyris kemur gengið frá því í samningum sín í milli, sjóðfélagi og maki hans, um að lífeyrisréttindin tilheyri báðum, geta samið um eðlilega skiptingu þeirra. Þetta er t.d. frá jafnréttissjónarmiðum séð mjög mikilvægt þannig að hjón geta þá tryggt fullan jöfnuð sín á millum með því að skipta lífeyrisréttindum ef t.d. lífeyrissparnaður eða lífeyrisréttindi annars aðilans er að byggjast upp mikið frekar en hins. Það er að vísu alveg ljóst að talsverð vinna er eftir við að útfæra reglur í þessu sambandi og að einhverju leyti mun þetta ætíð þurfa að byggja á frjálsu samkomulagi viðkomandi aðila. En ég held að það sé engu að síður mjög mikilvægt að lagaramminn í þessu ákvæði verði festur í sessi með 14. gr. frv.

Þá vil ég að lokum nefna eina brtt. Það er 15. tölul. brtt. á þskj. 458 frá efh.- og viðskn. Þar leggjum við til í efh.- og viðskn. að við lögin bætist ný grein sem verði 33. gr. og fjallar um gerðardóm sem til staðar skuli vera í öllum lífeyrissjóðum. Það er að vísu svo að í samþykktum mjög margra lífeyrissjóða hafa verið ákvæði um gerðardóma. Ekki hefur reynt oft á þau en það breytir ekki hinu að mjög mikilvægt er að slíkur úrskurðarfarvegur sé festur í sessi til að tryggja réttláta málsmeðferð ef menn eru ekki sáttir við þau réttindi sem þeim eru reiknuð eða ef ágreiningur kynni að koma upp um önnur atriði sem þarna skipta máli. Þarna er sú regla sömuleiðis lögfest að þó að málskostnaði sé skipt milli málsaðila þá skuli sá sem óskar úrskurðar dómsins, sjóðfélagi, ekki greiða meira en 1/3 þannig að því er í hóf stillt hversu íþyngjandi það getur verið. Ég held að það sé einnig mikilvægt réttaratriði að menn eigi þennan úrskurðarfarveg eða málskotsfarveg tryggðan í lögum, að slíku skuli fyrir komið í samþykktum eða reglum allra lífeyrissjóða á grundvelli þess ramma sem þessi nýja grein mun setja.

Mörg fleiri atriði mætti hér nefna að sjálfsögðu sem eru mjög til bóta og tvímælalaust fagnaðarefni að skuli koma inn í þessari almennu löggjöf eða rammalöggjöf um málefni lífeyrissjóðanna. Af sjálfu leiðir að af því verður mikil bót að samræma og lögfesta starfsgrundvöll þessa kerfis með einni almennri löggjöf þó að það megi segja að kerfið hafi í sjálfu sér byggst upp á þeim nótum sem þetta síðan lögfestir. Að sjálfsögðu er það ekki svo að lífeyrissjóðakerfið hafi byggst upp á einhvern þann hátt að það sé mjög á skjön við þær reglur sem hér er verið að lögfesta. Þær eru þvert á móti að ýmsu leyti sniðnar að því sem reynslan hefur sýnt vera farsælt fyrirkomulag í þessum efnum.

Herra forseti. Ég er í þeim hópi sem fagnar mjög væntanlegri löggjöf um þetta og þegar svo verður komið að Alþingi hefur lokið afgreiðslu þessa máls og það er orðið að lögum, þá hefur á skömmum tíma tekist að lögfesta fyrirkomulag lífeyrissparnaðar í raun og veru allra landsmanna með farsæli afgreiðslu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir ekki löngu síðan og svo þessu frv. hér.