Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:45:26 (2903)

1997-12-20 11:45:26# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:45]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í hógværri ræðu sinni: ,,Fullt samkomulag er um þann skilning sem fram kemur í athugasemdum við 2. gr.`` Af þessu tilefni tel ég rétt að lesa upp úr nefndarálitinu það sem segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Þá er það einnig skilningur nefndarinnar með hliðsjón af ákvæði 2. gr. að starfi einstaklingur án þess að ráðningarbundin starfskjör hans grundvallist að nokkru leyti á kjarasamningi þá sé hann óbundinn af aðild að tilteknum lífeyrissjóði.``

Þetta er það sem ég var að tala um áðan. Þetta er það sem ég óttast að geri það að verkum að verkalýðshreyfingin brotni niður innan frá.

En það er annað mál sem ég vildi nefna sem fram kom í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Hann sagði, ég held nokkurn veginn orðrétt: ,,Auðvitað eiga sjóðfélagar lífeyrissjóðina.`` Og hann líkti sjóðunum við bankabók. Því vil ég spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon vegna þess sem hann segir, að hann er sammála mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal um að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðina: Mun hann í atkvæðagreiðslu hér á eftir styðja þá brtt. sem ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal höfum flutt við 1. gr. þar sem það er ítrekað að sjóðfélagar eigi lífeyrissjóðina?