Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 11:49:24 (2906)

1997-12-20 11:49:24# 122. lþ. 50.2 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 129/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[11:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt nú ekki að það ætti fyrir mér að liggja að þurfa að útskýra fyrir framsóknarmönnum hvað séu kaupfélagsleg fyrirbæri. (Gripið fram í.) Svo má auðvitað spyrja að því, já.

Ég get ekkert að því gert ef hv. þm. eiga í erfiðleikum með að fóta sig á því hvað félagsleg sameign sé og ég þarf reyndar lengri ræðutíma en gefst í stuttu andsvari til að útskýra það til hlítar. En það hefur ekkert með það að gera að að sjálfsögðu fela menn einhverjum forsvar hinnar félagslegu sameignar sinnar. Það er e.t.v. hægt að taka að nokkru leyti samlíkingu við það að vera í sveitarfélagi sem á tilteknar eignir og íbúar sveitarfélagsins eiga þær að sjálfsögðu en það er félagsleg sameign íbúa sveitarfélagsins. Hún er ekki persónubundin í þeim skilningi að hver og einn íbúi í sveitarfélaginu geti komið við á sveitarstjórnarskrifstofunum, t.d. ef hann er að flytja burtu úr sveitarfélaginu, og fengið útleystan sinn hlut. Það er ekki þannig. Það er þessi eðlismunur á félagslegri sameign og einkaeign sem menn verða auðvitað að hafa hér í huga þegar um sameignar- eða samvinnufyrirtæki af þessu tagi er að ræða og um félagslega sameign eins og hóptryggingu lífeyrisréttinda í stórum sjóði auðvitað er. Það er af þessum ástæðum sem ég held að engin ástæða sé til að raska við einmitt því fyrirkomulagi sem þessi væntanlega löggjöf, þetta frv., býr sjóðunum að þessu leyti.