Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 12:03:32 (2909)

1997-12-20 12:03:32# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:03]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 653.

Frumvarpið snýst um það að ganga frá því með óyggjandi hætti að keyptur réttur til að nýta varanleg náttúruauðæfi eða auðlindir sem endurnýjast, svo sem aflahlutdeild í fiskveiðistjórnkerfinu, skuli ekki gjaldfærður og meðhöndlaður sem fyrnanleg eign. Sú hefur hins vegar verið framkvæmdin að undanförnu í kjölfar úrskurða skattayfirvalda og dómsniðurstaðna.

Það er rétt að það komi fram hér að á tveimur síðustu þingum hefur hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutt frumvarp um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem felur í sér að taka af skarið um þetta efni og ákveða að aflahlutdeild skuli skilgreina sem ófyrnanleg réttindi til þess að nýta náttúruauðæfi. Þetta var frv. á 121. löggjafarþingi, sbr. þskj. 1176 og á yfirstandandi þingi, 122. löggjafarþingi, er þetta frv. þskj. 77 og liggur hér fyrir þinginu. Þá hafa þrír þingmenn þingflokks Alþýðubandalags og óháðra flutt frumvarp til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum þar sem einnig er komið inn á skattalega meðferð veiðiheimilda, sbr. þskj. 330 á yfirstandandi þingi. Þar er í 9.--10. gr. III. kafla þess frv., sem er bandormur og kemur inn á nokkur mismunandi lög sem varða sjávarútveginn, gert ráð fyrir að allur söluhagnaður veiðiheimilda skuli talinn til tekna og vera skattskyldur á söluári. Það er því efnislega sambærilegt við það sem hér er á ferðinni en til viðbótar er í frv. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar kveðið á um að slíkur söluhagnaður veiðiheimilda skuli skattlagður sérstaklega. 1. minni hluti vísar til þessara frumvarpa og þess frumkvæðis sem þingmenn Alþb. og óháðra hafa haft hvað varðar skattalega meðferð veiðiheimilda.

Það er okkar skoðun að sú breyting sem stjórnarfrumvarpið boðar og gengur í sömu átt og frv. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem sagt að taka af skarið um að aflahlutdeild sé ófyrnanleg, sé til bóta og við munum að sjálfsögðu styðja hana. Ýmislegt annað er hins vegar ófrágengið og þetta frv. tekur ekki á mörgum öðrum álitamálum sem tengjast skattalegri meðferð veiðiheimilda. Við höfum því fyrirvara á um þá þætti málsins. Þar má t.d. nefna álitamál sem tengjast meðferð á eignafærslu slíkra réttinda í skattalegu tilliti, ákvæði um frestun skattlagningar söluhagnaðar sem þetta frv. leggur til með tilteknum hætti en alls ekki er sjálfgefið að skuli ganga þannig frá. Síðast en ekki síst má nefna sjálfa skattlagninguna eða skattprósentuna af söluhagnaði réttinda af þessu tagi sem frv. okkar þingmanna Alþb. og óháðra á þskj. 330 á yfirstandandi þingi tekur á. Við höfum sem sagt fyrirvara á um ýmsa aðra þætti málsins. Við teljum að þetta frv. leiði ekki til lykta ýmis önnur álitamál sem skattalegri meðferð veiðiheimilda tengjast þó að það gangi skýrt, rétt og eðlilega frá því að okkar mati að veiðiheimildir eða afnotaréttindi af þessu tagi þegar um auðlind er að ræða sem endurnýjast, skuli ekki vera fyrnanleg.

Ég vil sérstaklega undirstrika að lokum, herra forseti, að með ákvörðun um að gera nýtingarrétt náttúruauðlinda sem endurnýjast ófyrnanlegan í skattalegu tilliti er ekki á nokkurn hátt verið að færa þau réttindi nær því að verða eign handhafans. Hér er einungis verið að ganga frá tilteknu skattaatriði og ekki á nokkurn hátt verið að veikja sameignarákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þaðan af síður er verið að veikja ótvíræðan rétt Alþingis til að breyta stjórnkerfi fiskveiða, þar með talið að afnema aflahlutdeildarkerfið, án þess að til bóta komi. Það er alveg ljóst og það þarf að vera alveg skýrt í tengslum við afgreiðslu þessa máls, að engir slíkir hlutir eru hér á ferðinni.