Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 12:08:47 (2910)

1997-12-20 12:08:47# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 2. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:08]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Hér er mjög stórt mál á ferðinni en því miður eru vinnubrögðin slík að ekki er þinginu til sóma. Þetta frv. sem fjallar um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt kveður í meginatriðum á um að keyptar aflaheimildir verði gerðar ófyrnanlegar en hingað til hafa veiðiheimildir fyrnst eða verið afskrifaðar um 20% á ári. Þetta er meginefni frv. en jafnframt er fjallað um í því hvernig fara eigi með hagnað af sölu aflaheimilda.

Hafa ber skýrt í huga að við erum ekki hér að tala um hinar hefðbundnu úthlutuðu veiðiheimildir til útgerðarmanna, að þær skuli t.d. vera afskrifaðar eða koma til eignarskatts eða eitthvað þess háttar. Þetta frv. fjallar ekkert um það. Þetta fjallar einungis um tiltekna skattalega meðferð á viðskiptum sem útgerðarmenn eiga sín á milli um veiðiheimildir. Frv. kom seint fram og knúið hefur verið á af hálfu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar að málið yrði afgreitt núna fyrir jól. Ekki gafst tækifæri til þess né tími að leita umsagna um þetta mál í hv. efh.- og viðskn. og ber að mótmæla því harðlega.

Minni hlutinn í efh.- og viðskn. lagði til að málið fengi eðlilega meðferð og það yrði skoðað vandlega enda mörg álitamál í þessu. Ekki var fallist á það. Við sem myndum 2. minni hluta efh.- og viðskn., þ.e. ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ástæðurnar fyrir því að við leggum þá málsmeðferð til eru þær að ekkert knýr á að þetta mál verði afgreitt núna fyrir áramót. Oft koma frumvörp seint fram af hálfu ríkisstjórnar og verða að hljóta afgreiðslu vegna þess að mikilvægt er að þau taki gildi um næstu áramót eða þá að einhver réttaróvissa er uppi sem brýnt er að skera úr um með lögfestingu tiltekinna mála. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Þvert á móti, herra forseti, eru fjölmörg erfið úrlausnarefni í tengslum við þetta frv., hvort heldur er skattalegs eðlis eða tæknilegs eðlis við útskýringu lagatexta, en einnig mörg lögfræðileg álitamál.

Við höfum áður á hinu háa Alþingi fjallað um hluti sem tengjast fiskveiðistjórnarkerfinu og veiðiheimildum. Ég minnist þess að hér var til umræðu frv. um veðsetningu aflaheimilda sem var mjög flókið lögfræðilegt úrlausnarefni. Þá var það niðurstaða í hv. allshn. að óska eftir sérstökum álitsgerðum frá löglærðum mönnum til að geta lagt betur mat á einstaka efnisþætti. Það hefði verið mjög eðlilegt í þessu tilviki að gera það. Meiri hluti efh.- og viðskn. féllst ekki á þá málsmeðferð. Við fengum á fund nefndarinnar tvo lögfræðinga, þá Þorgeir Örlygsson prófessor og Helga V. Jónsson hæstaréttarlögmann, báðir fagmenn á sínu sviði. Við ræddum málin en það kom fram í máli þeirra beggja að þeir höfðu ekki haft ráðrúm til þess að skoða þetta tiltekna mál sérstaklega og greindu nefndinni frá því að þær spurningar sem þeir svöruðu gætu ekki annað en skoðast sem lauslegt mat á stöðu málsins einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekki haft ráðrúm til þess að ljúka sinni vinnu. Hins vegar kom mjög skýrt fram í máli þeirra að þetta frv. tekur á fjölmörgum snertiflötum við álitaefni.

Ég harma þau vinnubrögð að knýja á um þetta mál núna, þ.e. að reyna að gera það að lögum í dag. Ég hefði verið fyrsti maður til að samþykkja frv. ef brýna nauðsyn hefði borið til, þetta væri eitthvert sérstakt hagsmunamál ríkissjóðs. Hér er ekki um að ræða neina sérstaka tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Það er óljóst hvernig tekjustreymið verður í kjölfar þessa frv. E.t.v. má búast við einhverjum auknum tekjum einfaldlega vegna þess að nú eru ekki afskrifaðar veiðiheimildir, en það er óverulegt atriði í þessu sambandi enda er frv. ekki lagt fram í þeim tilgangi að auka tekjur ríkissjóðs.

Við kölluðum nokkra þá sem málið snertir á fund nefndarinnar og kom í ljós að ekki hafði verið haft samráð við neinn af hagsmunaaðilum eins og oft er gert þegar verið er að breyta löggjöf. Endurskoðendur sem tengjast sjávarútvegsfyrirtækjum höfðu ekki verið kallaðir til. Landssamband ísl. útvegsmanna, sem málið snertir vitaskuld mikið því hér er verið að fjalla um skattamálefni útgerðarmanna, hafði ekkert komið að undirbúningi þess og það er augljóst þegar málið er skoðað að það er ekki nógu faglega unnið af hálfu fjmrn. og þeirra sem komu að því. Það er ósköp svipað og frumvörp eru, gott vitaskuld í meginatriðum en hefði þurft betri yfirlegu. Og eins og við þekkjum í hv. efh.- og viðskn., þá hefðum við, við eðlilega yfirferð á svona frv., gert svona 15--20 brtt. til að skýra lagatextann og gera hann betur úr garði. Það er ekkert óvanalegt og ekkert í sjálfu sér slæmt um það að segja í hvaða búningi frumvörp koma fram. Það koma yfirleitt góð frumvörp frá hæstv. fjmrh. en þetta mál hefði einfaldlega þurft meiri tíma í vinnslu nefndarinnar.

[12:15]

Ég get nefnt eitt smáatriði sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á við 1. umr. Í 2. gr. frv. er talað um kaup á varanlegri aflahlutdeild. Það er ekkert til sem heitir varanleg aflahlutdeild. Í lögum um stjórn fiskveiða er til hugtakið aflahlutdeild og svo er til hugtakið aflamark. Það er ekkert til sem heitir varanleg aflahlutdeild. Samt stendur það í frv. og nefndarmenn meiri hlutans hafa greinilega ekkert fylgst með umræðunni vegna þess að ekki varð gerð brtt. af hálfu nefndarinnar um að leiðrétta þetta, taka út orðið ,,varanlegur``. Hérna er dæmi um að verið er að knýja í gegn lagasetningu sem er bara rangt unnin. Ég veit ekki hvort brtt. kemur fram við 3. umr. um að kippa þessu orði út einfaldlega vegna þess að það á sér ekki stoð í lögum. Menn verða að vera mjög nákvæmir í lagasetningu þegar verið er að fjalla um skattalög. Þarna eru menn ekki að vinna vinnu sína.

Sú breyting að gera aflakvótann ófyrnanlegan breytir í sjálfu sér ekki neitt núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en festir það í sessi, einfaldlega vegna þess að þegar menn afskrifuðu veiðiheimildir hér áður. Nú var reyndar afskrifað um 20% eftir Hrannardóminn, en þá voru afskriftir veiðiheimildar m.a. rökstuddar með óstöðugleika í kerfinu. Það væri ekki víst hvort þessi réttindi munu ná yfir mörg ár og því væri eðlilegt að færa þau niður í bókun fyrirtækja og fyrirtækin hafa gert það og skattalögin hafa einnig heimilað eins og ég lýsti áðan. Með því að gera aflaheimildirnar ófyrnanlegar og hægt er að rökstyðja það að hafa þær ófyrnanlegar einfaldlega vegna þess að aflaheimildir eru þess eðlis að menn fá úthlutað hlutdeild. Á grundvelli þess fá menn árlegt aflamark, kannski 100 tonn af þorski, og menn fá aftur 100 tonn árið eftir en það rýrnar ekki. Eðli afskrifta er að mæla notkun, leggja verðmat á notkun framleiðsluþátta við rýrnun og aflaheimildirnar rýrna reyndar ekki í almennum skilningi. En þetta festir fiskveiðistjórnarkerfið í sessi.

Við fengum á fund nefndarinnar Kristján Ragnarsson, formann Landssambands ísl. útvegsmanna, og þar upplýstist að hann hafði varla séð málið og sérfræðingar hans ekkert komið að undirbúningi þess. Hann taldi það eina jákvæða við frv. að það auki varanleika kerfisins. Það var mat formanns LÍÚ. Eina jákvæða við frv. var að það yki varanleika fiskveiðistjórnarkerfisins. Menn geta haft sína skoðun á því hvort það er gott eða vont en menn þurfa bara að vera alveg skýrir á því um hvað frv. snýst og það snýst m.a. um þetta. Það þarf að vera ljóst af hálfu stjórnarþingmeirihlutans sem ég hef svolítið á tilfinningunni að hafi raunverulega ekki hugmynd um hvað málið snýst. Reyndar halda flestir þingmenn stjórnarliðsins að þetta fjalli eitthvað um að skattleggja söluhagnað í kvótaviðskiptum. Það er alger þvæla og hafi menn verið upplýstir á þann hátt þá ættu menn að lesa frv. aðeins betur. Það er ekki meginatriðið í frv.

Annað álitamál varðandi frv. er hvort um afturvirkni skattalaga að ræða. Það er vegna þess að eftir gildistöku þessa frv. segir að aflaheimildir sem hafa verið keyptar fyrir gildistökuna megi afskrifa eftir tilteknum reglum um 65%. Hingað til hefur verið heimilt að afskrifa aflaheimildirnar um 100%. Það er álitamál og vikið er að því í greinargerð með frv. að þarna vakni spurning um afturvirkni. Í frv. segir, herra forseti:

,,Vegna síðastnefndu tillögu nefndarinnar hefur komið til álita að sú breyting kunni að vera í ósamræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem um kunni að vera afturvirkna skattlagningu.``

Það er þetta ákvæði um að heimila einungis 65% afskrift á áður keyptum aflaheimildum. Þetta er afgreitt mjög stuttaralega: ,,Ekki er talið að svo sé.`` Síðan segir ekkert meira um það í frv. Þetta er álitamál. Við spurðum endurskoðendur og lögfræðinga um þetta. Þeir töldu að vísu að þetta væri í lagi svona og vissulega má færa rök fyrir því. En þetta er eitt af þeim málum sem hefði þurft að skoða einfaldlega betur því að auðvitað verða menn að vera alveg vissir um það hvort um afturvirkni í skattalögum er að ræða eða ekki. Þetta hefði efh.- og viðskn. vitaskuld farið betur yfir ef hún hefði fengið til þess tíma.

Í fiskveiðistjórnarkerfi okkar er aflaheimildum úthlutað á skip eftir tilteknum reglum. Þó að um verðmæti sé að ræða eru þær ekki færðar til tekna hjá þeim fyrirtækjum sem fá þær og þær eru heldur ekki færðar til eigna hjá viðtakendum kvótans. Þær eru einfaldlega gefnar. Þetta er það sem hefur gengið undir nafninu gjafakvótakerfið og það er réttnefni einfaldlega vegna þess að ríkisvaldið afhendir útgerðarmönnum veiðiheimildir, úthlutar þeim veiðiheimildum árlega, aflamarki árlega og menn greiða ekkert fyrir það en menn eru heldur ekki látnir tekjufæra þá gjöf og ekki heldur látnir eignfæra þá gjöf í bókum sínum.

Hér er hins vegar einungis verið að ræða um það að þegar útgerðarmaður selur frá sér aflahlutdeild, þ.e. varanlegan kvóta, þá er það tekjufært hjá seljandanum, hjá þeim útgerðarmanni sem selur og það er eignfært hjá kaupanda. Þegar útgerðarmenn fara að versla sín á milli með aflaheimildirnar, öðlast þetta fyrst verðmæti gagnvart reikningshaldi og skattalögum. Ekki er tekið af hinni almennu úthlutun gjafakvótans í upphafi. Í ljósi þess að í lögum er talað um að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar er vitaskuld mjög einkennilegt að þessi mikla úthlutun verðmæta er hvergi færð í bækur. Eignarskattur hefur verið greiddur af keyptum kvóta fyrir gildistöku frv. og það breytist ekkert með þessu frv. Það eina sem breytist er að kvótinn er nú færður að fullu til eigna en áður mátti afskrifa hann um 20% á ári. Eignin færðist niður í bókhaldi um 20% á ári og í rekstrarreikningi komu þessi 20% sem útgjöld og lækkuðu þá tekjuskatt ef um slíkt var að ræða. En aðalúthlutunin, aflakvótarnir sem er úthlutað árlega bera engan eignarskatt og engan skatt yfirleitt, þeir eru einfaldlega gjöf. Þetta þurfa menn að vera með í huga þegar menn tala um þetta frv. Það fjallar um mjög afmarkaðan þátt í fiskveiðistjórnarkerfinu, skattalega meðferð á kvóta sem er keyptur og seldur milli útgerðarmanna.

Þetta eru geysilega mikil verðmæti, herra forseti, og í efh.- og viðskn. voru lagðar fram upplýsingar frá ríkisskattstjóra um að um 20% af aflahlutdeildinni gengur kaupum og sölum milli aðila. Á fiskveiðiárinu 1994--1995 var aflahlutdeildin 530 þús. tonn og þar af var fluttur kvóti varanlega á milli aðila upp á 93 þús. tonn eða tæp 20%. Áætlað verðmæti þessa var um 14 milljarðar þannig að þarna er um að ræða geysilega mikið fé. Á fiskveiðiárinu 1995--1996 var aflahlutdeildin 510 þús. tonn og þá var flutt varanlega á milli útgerðarmanna 126 þús. tonn, að verðmæti 26 milljarðar. Þetta eru mjög umfangsmikil viðskipti sem eiga sér stað með varanlegan kvóta, þetta eru milljarðaviðskipti. Ef maður skoðar hins vegar flutninginn á leigukvóta, aflamarkinu, en leigukvótinn er kvótinn innan ársins, þá var á fiskveiðiárinu 1994--1995 1,6 milljarðar fluttir milli skipa sem eru gerð út frá sömu verstöð, það er einn flokkur. Það hafa menn heimild til að færa á milli og þetta ár varðar upp á 1,6 milljarða. 1,3 milljarðar ganga milli skipa miðað við jöfn skipti. Þá skipta menn á þorski og grálúðu og ekkert sérstakt um það að segja. Það er einn af þeim þáttum sem eru taldir styðja hagkvæmni kerfisins. En viðskipti milli skipa sem eru ekki gerð út frá sömu verstöð voru í leigukvóta fiskveiðiárið 1994--1995 4 milljarðar. Þetta eru venjulega peningaviðskipti, stór hluti af þeim þegar menn leigja til sín kvóta. Þetta er stundum kallað leiguliðakerfi og menn þekkja vel í umræðunni. Það er þessi þáttur viðskiptanna þegar menn leigja kvóta innan ársins og þá milli verstöðva, leigja kannski kvóta frá Norðurlandi á Reykjanes eins og hefur verið nokkuð í fréttum.

Árið eftir, þ.e. fiskveiðiárið 1995--1996, var leigukvóti miðaður við skip frá sömu verstöð 2,7 milljarðar, 1,5 milljarðar á milli skipa miðað við jöfn skipti og 6 milljarðar í þessum leiguliðaviðskiptum. Sem sagt, á síðasta fiskveiðiári sem tölur eru um, þ.e. 1995--1996, voru verðmæti flutnings á leigukvóta yfir 10 milljarðar og árið á undan voru heildarviðskiptin 7 milljarðar. Menn sjá á þessum tölum að viðskiptin eru sífellt að aukast. Þetta segir okkur náttúrlega að þegar um er að ræða svona stórar tölur, að þetta er ekkert smámál og það þarf að vanda sig mjög við lagasetningu í skattalögum sem tengjast svona miklum viðskiptum. Fjárhagslegir hagsmunir eru svo miklir, bæði þeirra sem eru í þessum viðskiptum og einnig ríkissjóðs.

Einnig má benda á að ýmsir telja að þessar aðgerðir, að gera kvótann ófyrnanlegan og kveða á um söluhagnað eins og gert er með þessum hætti og mörg af þeim álitamálum sem þar koma upp, dragi úr hagkvæmni fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég vil að það komi skýrt fram að sú skoðun þekkist varðandi frv. þó svo að það sé einungis að taka á afmörkuðum þætti í skattalögum þá hefur þetta samt miklu víðtækari afleiðingar.

Það er mjög mikið matsatriði, herra forseti, hvernig eigi að færa eignir og bókfæra og hvernig eigi að taka þær til skatts. Það er ekki einfalt mál. Það væri hægt að líta á kaup á veiðiheimildum sem einhvers konar kaup á aðstöðu. Menn væru að kaupa veiðiheimildir og væru með því að kaupa sér aðstöðu til að geta haldið til veiða. Hægt væri að líta á að aflaheimildir væru e.t.v. eitthvað svipað og viðskiptavild sem er eign en samt ekki eign í þeim skilningi að hún er hvorki gjaldfærð né eignfærð, hvorki í skattalögum né bókhaldslögum. Þetta er dæmi um að mjög erfitt er að leggja mat á viðskiptavild. Ég er bara að draga þetta upp sem dæmi að það er mjög erfitt að leggja mat á slíka þætti þegar kemur að álitaefnum um eignir.

[12:30]

Þetta atriði sem ég nefndi áður og er grundvallaratriði í reikningshaldi er mjög mikilvægt, þ.e. að ef eignir eru taldar úreldast tiltölulega fljótt vegna einhverra tækniframfara t.d., vegna mikils slits vitaskuld eða mikillar óvissu, þá segir varkárnisregla í reikningshaldi að við eigum alltaf að reyna að meta hluti á varkáran hátt og aldrei að sýna betri stöðu en hún raunverulega er. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að t.d. tölvubúnaður er oft gjaldfærður á einu ári þó hann endist lengur eða afskrifaður mjög fljótt, vegna þess einfaldlega að menn telja að tölvubúnaður úreldist mjög fljótt. Afskriftir eru því ekki bara það að sýna fram á slit og rýrnun framleiðsluþátta heldur geta þær að hluta til endurspeglað óvissu. Þetta dreg ég fram vegna þess að hér er kvótinn gerður ófyrnanlegur með þeim rökum að eignin er dálítið sérstæð. En röksemdin hér fyrr á árum fyrir afskrift var að varanleiki kerfisins væri e.t.v. ekki svo mikill að mönnum bæri að sýna sérstaka varkárni í bókhaldi og afskrifa þessar eignir.

Ef við erum að tala um eignir til eignarskatts, þá er einnig álitamál á hvaða verði þær eigi að færa í bækur. Venjan er sú að ef menn kaupa eign þá færa þeir hana inn í sínu bókhaldi. Segjum svo að menn kaupi bíl á eina milljón, þá er hann færður sem eign í reikningi á eina milljón og sú eina milljón kemur til eignarskatts. Þetta er hins vegar ekki algilt. T.d. gildir það um fasteignir að þær koma ekki til eignarskatts á bókfærðu verði heldur á fasteignamati þannig að fasteign getur verið upp á 10 millj. í ársreikningi fyrirtækja en hún kemur kannski ekki til eignarskatts nema á, segjum bara 7 millj. eða eitthvað þess háttar. Þetta er bara dæmi til að sýna að þetta getur verið mjög misjafnt. Auðvitað á þetta líka við t.d. hluti eins og aflahlutdeild sem hefur vitaskuld vissa sérstöðu.

Það er hægt að hugsa sér, og það er ein af hugmyndunum sem menn unnu hér út frá áður fyrr, að öll viðskipti með kvóta, varanleg kvótaviðskipti, væru gjaldfærð á því ári sem þau eru gerð alveg eins og gert er með leigukvóta. Þá mundi maður gjaldfæra allt þetta sem kostnað. Viss varanleiki er reyndar fólginn í því því að ef menn kaupa veðiheimildir fyrir segjum 100 millj. og gjaldfæra þær allar á því ári, þá dreifist það raunverulega yfir nokkur ár vegna þess að þetta mun væntanlega mynda tap eða mynda niðurstöðutölu á rekstrarreikningi og þess vegna yfirfæranlegt tap til næstu ára þannig að í reynd væru menn að lækka þar með tekjuskattsgreiðslur sínar í framtíðinni jafnvel þó að þær væru gjaldfærðar á einu ári. Þetta er líka álitaefni sem menn hefðu þurft að skoða betur.

Þetta frv. kveður á um frestun á skattskyldu á söluhagnaði aflaheimilda. Það eru mjög sérkennileg ákvæði. Segjum svo að einhver útgerðarmaður selji kvóta og fái fyrir það tekjur. Honum ber vitaskuld að greiða af þeim tekjuskatt. Það er þannig. En samkvæmt frv. hefur hann möguleika á að fresta þessum tekjuskattsgreiðslum. Hann gerir það með mjög óvanalegum hætti. Ef hann kaupir sér aftur kvóta innan tiltekins tíma, þá frestast tekjuskattsgreiðslan. Þetta er vitaskuld mjög mikið álitaefni og ég dreg það einmitt fram sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði hér upp með áðan, að upplegg í frv. alþýðubandalagsmanna er m.a. fólgið í því að tekjur vegna sölu komi strax til skatts og ekki sé um að ræða neina möguleika á frestun. En í frv. er gert ráð fyrir að hægt sé að fresta söluhagnaði ef menn endurfjárfesta í kvóta.

Nú eru til tvö viðhorf varðandi þetta. Sumir segja að þessi hagnaður af söluheimildum eigi að vera eins og hver annar hagnaður og ganga á móti einhverju öðru tapi innan fyrirtækjanna og segja sem svo: ,,Þarna er um að ræða meiri takmörkun en gengur og gerist í öðrum viðskiptum.`` Og nú muna menn að þegar við afgreiddum fjármagnstekjuskattinn fræga hér um árið, voru sett þau ákvæði að ef menn högnuðust á viðskiptum með hlutabréf, þá gátu menn frestað skattskyldu á þeim með því að endurfjárfesta í einhvers konar hlutabréfum aftur. Ekki voru settar takmarkanir eins og hér eru. Hér er það söluhagnaður vegna aflahlutdeildar og menn fresta ekki með því að kaupa skip eða eitthvað annað heldur einungis með því að kaupa kvóta aftur.

Auðvitað er hægt að sjá það fyrir að í reynd komi aldrei til neinnar skattlagningar af kvótaviðskiptum einfaldlega vegna þess að menn munu alltaf endurfjárfesta í kvótanum og þurfi þá aldrei að greiða af þessu tekjuskatt.

Þetta er orðin reyndar dálítið skrýtin umræða, herra forseti. Hér er ég að ræða um tekjuskatt og hvernig menn fresta söluhagnaði af sölu. En hvað er verið að selja? Á hverju eru menn að hagnast? Það er á sölu aflaheimilda. Það er á sölu kvótans, sameignar þjóðarinnar. Hérna er verið að búa til mjög flókna lagasetningu um hvernig fara eigi með annarra manna eign samkvæmt skattalögum því að útgerðarmenn eiga ekkert í þessum kvóta sem þeir eru að versla með sín á milli. Sett er upp mjög flókið lagaverk um hvernig söluhagnaður skuli meðhöndlaður, hvernig honum er frestað, hvernig hann komi til eignarskatts og allt saman vegna eigna sem menn eiga ekki nokkurn skapaðan hlut í. Þetta er mjög einkennileg umræða.

Annað atriði í þessu frv. sem menn hafa oft talað um, er það hvernig menn fara út úr greininni. Þetta frv. er raunverulega sniðið að því að menn séu að reka þetta í hlutafélagaformi. Ef menn eru að fara út úr greininni þá er þetta er miklu betur sniðið að því, t.d. endurfjárfesting og annað slíkt. Hér sýnast mér ekki vera einyrkjar, þ.e. þeir sem reka sín einstaklingsfyrirtæki, sína útgerð, fá sér kvóta og kaupa hann. Það hefði þurft að skoða miklu betur hvort þarna sé gætt fulls samræmis milli rekstrarforma.

Það er hins vegar, herra forseti, mjög erfitt að taka á því sem menn hafa verið að segja: ,,Reynum að skattleggja söluhagnað veiðiheimilda, skattleggjum hann sérstaklega, jafnvel með hárri skattprósentu.`` Fyrir liggur frv. frá félaga mínum, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þetta er hins vegar ekki einfalt. Það er vegna þess að flest þessi viðskipti, og þegar menn fara út úr sjávarútvegi, þá gerist það í formi þess að fyrirtæki sameinast, gerast með hlutabréfum og það er ekki, herra forseti, hægt að rekja t.d. hækkun á gengi hlutabréfa til þeirrar staðreyndar að viðkomandi fyrirtæki hafi fengið veiðiheimildirnar afhentar ókeypis. Það er mjög erfitt að reyna að ná utan um það sem heitir söluhagnaður af aflaheimildum. Vitaskuld ef fyrirtækið selur aflaheimildir, þá tekjufærist það í fyrirtækinu ef það nýtir ekki frestunina. En þeir sem eiga hlutdeild í þessum fyrirtækjum sem eru náttúrlega þeir sem njóta fyrst og fremst arðsins af þessum úthlutuðu heimildum, hafa mjög mörg ráð til að fresta allri eðlilegri gjaldtöku. Það er því ekki rétt þegar sagt er að tekið sé á aðalvandamálinu í þessu með því að segja: ,,Við skattleggjum söluhagnað sérstaklega þegar aðilar fara út úr greininni.`` Hugmyndin er alveg rétt og virðingarverð og hugsunin sem þar er á bak við. En það er mjög erfitt, herra forseti, að útfæra það þannig að það hafi í reynd eitthvert gildi.

Eitt mikilvægasta málið í þessu efni snýr að stjórnarskránni. Þess vegna skiptir varanleikinn svona miklu máli. Því ef eitthvað er orðið varanlegt í þessari úthlutun og menn eru komnir með einhvern rétt, þá gætu menn hugsanlega átt skaðabótakröfu á ríkissjóð ef fiskveiðistjórnarkerfinu yrði til að mynda breytt í grundvallaratriðum. Þessi umræða hefur staðið mjög lengi og löggjafinn hefur sett fyrirvara um þetta. Það er í fyrsta lagi þetta fræga ákvæði um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar sem að mati mjög margra lögfræðinga er ekki annað en viljayfirlýsing um hvernig að líta eigi á þessa eign. En í sömu grein er talað sérstaklega um að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þetta er 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Nú þurfum við að hafa í huga að lögfræðin kennir okkur að fyrirvarar í almennri löggjöf hafa ekki nema að hluta til gildi gagnvart álitamálum sem tengjast stjórnarskrá því að stjórnarskráin stendur ofar þeim og byggir m.a. á því hvernig þróunin verður í réttarkerfinu. Þessi umræða er tvískipt, þ.e. eignarréttur er tryggður í stjórnarskrá og er ekki hægt að taka af mönnum nema bætur koma fyrir, en atvinnuréttindi eru líka tryggð þannig að málið er alls ekkert einfalt. Við getum séð það fyrir okkur að einhver kaupi kvóta og er þá samkvæmt þessari löggjöf kominn með ófyrnanlega eign. Hann greiðir af henni eignarskatt, hefur af henni tekjur og ríkisvaldið tekur af þeim tekjuskatt. Hann hefur atvinnu af þessu. Hann er vitaskuld kominn með viss réttindi. Það er ekki hægt að neita því. Hann er kominn með viss réttindi. Ef síðan kerfinu væri t.d. breytt í grundvallaratriðum, þá er hugsanlegt að hann hefði einhverja bótakröfu á hendur ríkissjóði. Hann gæti haldið eftirfarandi fram: ,,Ríkissjóður er búinn að skattleggja þessa eign mína sem ég keypti af öðrum útgerðarmanni. Hann er búinn að skattleggja það í mörg ár. Gefur það mér ekki einhverja stöðu ef þessu er síðan kippt af mér?`` Þetta eru allt álitaefni. Ég er ekkert að fullyrða hvað sé rétt í þessu. Það er ekki hægt nema að skoða málin mun betur og það lögðum við til að gert yrði, þ.e. að leitað yrði lögfræðilegrar álitsgerðar varðandi þennan þátt.

Þetta mál snýr einnig að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess að mismunun er milli aðila, útgerðarmanns sem fær úthlutáð kvóta ókeypis og útgerðarmanns sem verður að kaupa kvóta af öðrum. Sá sem fær kvótanum úthlutað ókeypis og fiskar sinn fisk, greiðir engan eignarskatt og þarf ekkert að tekjufæra þessar veiðiheimildir. Annar útgerðarmaður sem kaupir veiðiheimildir af einhverjum öðrum útgerðarmanni þarf að greiða eignarskatt af þessum keypta kvóta og að því leytinu til er ekki jafnræði milli þeirra.

Helgi V. Jónsson hæstaréttarlögmaður var sá sem flutti málið fyrir Hrönn hf. á Ísafirði og upplýsti í nefndinni að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hafi verið skoðuð í þessu máli. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að þó að ekki gilti fullt jafnræði milli aðila --- því það er alveg augljóst að annar er að greiða eignarskatt af þessu en hinn ekki --- þá var það ekki talið frágangssök að mati Hæstaréttar, þó svo jafnræði væri ekki. En hann tók fram við okkur og sagði: ,, Já, á þessum tíma.`` Þá get ég rökstutt í viðbót við það: Sjáið þið núna hvað viðskiptin eru farin að verða umfangsmikil. Þetta eru orðin milljarðaviðskipti og þau aukast ár frá ári. Og þessi munur á jafnræði milli þess sem fær úthlutað ókeypis og hins sem verður að kaupa kvótann er í reynd kannski alltaf að aukast. Þetta getur því orðið álitamál aftur. En það er ekkert hægt að fullyrða um það nema skoða það betur.

Herra forseti. Ég tel brýnt að varpa annarri hugsun fram í þessari umræðu. Það er enn og aftur jafnræði og núna út frá samkeppnisforsendum. Segjum sem svo að hæstv. forseti fái úthlutað 100 tonnum af kvóta hjá ríkisvaldinu og greiði ekkert fyrir það. Hann rekur sína útgerð. Segjum svo að hv. þm. Ögmundur Jónasson --- af því að ég sé hann hér í salnum --- kaupi 100 tonna kvóta af hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur sem situr líka í salnum. Ég er bara að búa til dæmi. Síðan gera þeir út báðir, hæstv. forseti Guðmundi Árni Stefánsson og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hins vegar er mismunun í samkeppni þeirra vegna þess að annar fékk kvótann, 100 tonnunum, úthlutað ókeypis á meðan hinn þingmaðurinn, hv. þm. Ögmundur Jónasson, þurfti að kaupa sín 100 tonn og þurfti að greiða fyrir þau. Þarna er mismunun í samkeppnisstöðu þessara tveggja hv. þm. sem eru að gera út og þessi mismunun er sköpuð af almannavaldinu. Þetta eru leikreglurnar sem almannavaldið setur.

[12:45]

Það getur verið álitamál hvort þeim sem kaupir kvótann finnst að þarna sé sanngjarnlega að staðið og hvort verið sé að brjóta hans samkeppnisstöðu því að báðir hv. þm. eru í samkeppnisstöðu um aðra framleiðsluþætti, olíu, net, laun sjómanna o.s.frv. þannig að þetta einfalda dæmi --- ég vona að hv. þingmenn fyrirgefi mér það að hafa dregið þá persónulega inn í þetta litla dæmi --- sýnir að hér er álitaefni. Ég er ekkert að fullyrða um það að þetta kerfi brjóti samkeppnislög. En mér finnst að hægt sé að færa rök fyrir því að svo sé. Alla vega er hægt að segja: Er þetta ekki mál sem við ættum að skoða? Það er a.m.k. alveg heiðarlegt að spyrja þeirrar spurningar og það vildi ég að hv. efh.- og viðskn. hefði gert þegar hún var að vinna þetta frv.

Annað er einnig óljóst í þessu frv. og er eitt af því sem hefði þurft að kveða skýrar á um, þ.e. ef kvóti hækkar í verði, á þá að færa upp eignina og tekjufæra hana? Og hvað á að gera ef kvótinn lækkar í verði, t.d. vegna þess að kvótinn er orðinn svo mikill að veiðiheimildirnar eru í reynd einskis virði? Á þá að færa þetta niður? Ekki er kveðið neitt skýrt á um þetta í frv. Lögð var fram brtt. af hálfu meiri hlutans sem tekur að hluta til á þessu en þar er einungis verið að tala um inngrip stjórnvalda. En svo er annað mál, eins og rakið var í nefndinni. Hvað með flökkustofna sem menn kaupa kvóta í og eignfæra? Og af því að þetta er flökkustofn, þá fer hann í burtu í mörg ár. Hvað á hann að vera í burtu í mörg ár til að ég þurfi að fara að færa niður eignina í bókum og gagnvart skattalögum? Þetta þarf að skoða miklu betur, herra forseti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem menn geta hreinlega ekki hent svona inn í þingið. Og svo þegar spurningar vakna þá geta menn ekki svarað þessu. Við ræddum þetta við endurskoðendur, fengum þrjá af virtustu endurskoðendum landsins til okkar, Ólaf Nilsson, Þorvarð Gunnarsson og Árna Tómasson, allt landsþekktir menn á sínu sviði og færir. Þeir gátu ekki svarað öllum þeim álitamálum sem komu upp í tengslum við þetta frv. Þeir sögðu: ,,Við höfum heldur ekki fengið ráðrúm og tíma til að skoða þetta.`` Alltaf þegar við göngum frá flóknum skattalögum í efh.- og viðskn., þá leggjum við mikið upp úr áliti þessara manna. Þeir eru með sérstaka endurskoðendur að störfum, sérstaka starfandi nefnd sem aðstoðar okkur við útfærslu á tilteknum þáttum í skattalögum. Það er vegna þess að málin eru svo flókin að bestu manna ráð þarf við að búa til texta í þeim efnum. Þó svo hv. efh.- og viðskn. finni dálítið til sín hvað það varðar að vinna hlutina vel og vandlega, þá höfum við aldrei verið feimnir við að leita okkur utanaðkomandi ráða þegar nauðsyn krefst. Það hefðum við átt að gera í þessu máli, en við fengum það ekki.

Annað atriði, herra forseti, sem blasir við er að eftir löggildingu þessa frv. kemur strax upp ágreiningur við skattyfirvöld. Búum aftur til dæmi. Nú sé ég hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Við skulum segja að hann kaupi kvóta og skip af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir t.d. 100 millj. og hann ætlar að fara að gera út. Þá er mjög mikið matsatriði --- hann kaupir kvóta og skip --- hvernig samning þau gera á milli sín, þ.e. hvaða verð þau setja á skipið og hvaða verð á kvótann. Þetta eru 100 millj. sem þau eru sammála um að er heildarverðmæti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mun vilja að kvótinn verði verðlagður eins lágt og hægt er og það er vegna þess að núna er kvótinn ófyrnanlegur. Hann mundi helst vilja að kvótinn væri 10 millj. og skipið 90 því hann má afskrifa 90 millj., skipið, en ekki kvótann. Þetta er álitamál. Þessi samningur hér á milli hefur engin áhrif á fjárhagsstöðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur. Þó gæti verið matsatriði hvert kvótaverðið ætti að vera í sambandi við skattskyldu á söluhagnaði veiðiheimilda. Þar getur líka komið upp flókið álitamál. En skoðum þetta bara út frá þessari stöðu, vegna kaupa fyrir þessar 100 millj., hvernig þetta blasir við hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Almennt segir í skattalögunum að miða eigi við eitthvað sem heitir gangverð. En það er augljóst að þarna er svigrúm fyrir aðila að reyna haga þessum viðskiptum þannig að álitamál geti orðið gagnvart skattyfirvöldum. Auðvitað eru öll þessi viðskipti lögleg og enginn er að tala um það að menn séu að brjóta neinar reglur varðandi þetta. Ég er einungis að benda á að ekki er alveg skýrt sagt hvernig menn fara að því að greina á milli verðmæti kvóta og skips sem er náttúrlega ákveðið grundvallaratriði í öllum þessum viðskiptum vegna þess að það er líka alltaf verið að tala um eignfærslu á kvótanum og skattskyldu á söluhagnaði þannig að hér getur komið upp álitamál.

Menn hafa notað veiðiheimildir til að leika dálítið á skattkerfið og skattskyldu. Dæmi þekkjast um það að fyrirtæki hafi selt frá sér aflahlutdeild og fengið inn miklar tekjur. Það hefur gengið upp í tap. Tapið á kannski að detta út og menn hafa þá ekki þurft að greiða af því neinn tekjuskatt. Með því sýna þau góða afkomu. Síðan kaupa þau aftur þessar veiðiheimildir af þeim sem þau seldu. Þetta eru svona málamyndaviðskipti. Þar með fá menn eignarstofn sem þeir geta síðan afskrifað. Herra forseti. Á þessu dæmi sést að þarna hefur fyrirtækið sem gerir þetta sýnt betri afkomu. Það hefur fært upp eignir sínar og ársreikningur þess lítur mun betur út og það allt saman vegna viðskipta með veiðiheimildir sem stjórnvöld úthluta án kostnaðar.

Ég vil geta þess, herra forseti, þó að ég hafi ekki nefnt það orð enn þá í minni ræðu að hugmyndafræðin á bak við veiðileyfagjald, þ.e. að láta menn greiða gjald fyrir að fá veiðiheimildir til afnota, leysir mjög mörg af þeim álitaefnum sem eru í frv. Við erum ekki að fjalla um veiðileyfagjald í þessu máli en mér þykir rétt að draga það fram þannig að það sé ljóst.

Ég nefndi hindranir eða það að skattleggja söluhagnað á viðskipti með veiðiheimildir sérstaklega. Fyrir utan það að mjög erfitt er að útfæra það, þá getur það einfaldlega leitt til þess að menn sitji bara með sína eign áfram inni í sjávarútvegsfyrirtækjum og hirði af henni þann arð sem þessar úthlutuðu veiðiheimildir skila sem er náttúrlega meginatriði hjá mönnum sem þurfa að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort þeir vilji fara út úr greininni eða ekki. Þeir eru að velta fyrir sér hvar fé þeirra ávaxtast best og ef settar eru á sérstakar útgönguhindranir, þá mundi það, fyrir utan að mjög erfitt er að útfæra það eins og ég nefndi áðan, einfaldlega leiða til þess að menn mundu sitja inni í greininni og hirða arðinn af ókeypis úthlutuðum veiðiheimildum eins og þeir gætu þannig að sú hugmyndafræði öll þarfnast nánari skoðunar.

Við í 2. minni hluta leggjumst ekki gegn því að málið nái í sjálfu sér fram að ganga. Við erum fyrst og fremst að segja að þetta mál hefði þurft að fá vandaðri og betri umfjöllun og við báðum um að svo yrði og við sögðum við stjórnarliða: ,,Við skulum lögfesta þetta fljótlega eftir áramót og það er ekkert stórkostlegt í hættu þó að fyrningaákvæðin taki ekki gildi um næstu áramót. Þau geta alveg tekið gildi 1. mars og geta þess vegna tekið gildi á næsta ári. Misvísandi upplýsingar bárust til nefndarinnar hvort einhver viðskipti væru að eiga sér stað vegna þessa frv. eða ekki. Ég hef í sjálfu sér enga sérstaka trú á því. Nei, það virðist vera, herra forseti, eitthvert sáluhjálparatriði hjá ríkisstjórninni að keyra þetta í gegn að óathuguðu máli. Við hefðum viljað stuðla að því að málið yrði afgreitt þegar búið væri að fara vel yfir þau álitamál sem ég hef hér nefnt. Skattaleg rök eru fyrir því að meðhöndla þessi kvótaviðskipti eins og frv. gerir ráð fyrir en fjölmörg álitamál önnur sem tengjast þessu efni hefði þurft að skoða.

Úthlutun aflaheimilda, fiskveiðistjórnarkerfið, allt í tengslum við það, veiðiheimildir, veiðileyfagjald og öll þessi sjávarútvegsumræða er mjög brýn og hefur verið mjög áköf í þjóðfélaginu meðal almennings, meðal fólksins í landinu. Þetta er stjórnmálalegt deiluefni og þess vegna, herra forseti, þegar verið er að taka á afmörkuðum skattalegum þætti sem vekur upp fjölmargar spurningar á sviði lögfræði, reikningshalds, skattaréttar og skattaútfærslu, er einfaldlega ekki hægt að viðhafa þau vinnubrögð sem á að stunda hér í skjóli nætur. Þetta er 2. umr. málsins. Við höfðum ekki ráðrúm að senda það til umsagnar. Við áttum einn fund með hagsmunaaðilum. Þetta er keyrt í gegn á örfáum dögum. 2. umr. á að ljúka í dag og 3. í kvöld. Málið hefur svo marga snertifleti við aðra þætti í sjávarútvegsmálunum að það er til vansa, herra forseti, ef Alþingi ætlar að keyra það í gegn á þennan hátt. Þess vegna leggjum við í 2. minni hluta formlega til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.