Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 12:56:59 (2911)

1997-12-20 12:56:59# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[12:56]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess dæmis sem hv. þm. tók af væntanlegri útgerð minni ef ég mundi t.d. kaupa skip eða bát ásamt með veiðiheimildum fyrir 100 millj. af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur ... (Gripið fram í: Eða búðinni í Reykjavík.) Já, ég skýt því að hér í leiðinni að ég fer að verða býsna umsvifamikill í atvinnulífinu ef öll þessi dæmi sem hér hafa verið tekin ganga eftir. Í síðasta máli var lagt út af því að ég mundi stofna til verslunarreksturs í höfuðborginni og ráða hv. þm. Pétur Blöndal til afgreiðslustarfa en nú eru menn að gera því skóna að ég muni fara út í stórútgerð og kaupa hana af hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur. (PHB: Fyrir hagnaðinn af búðinni.) Já, sennilega þá fyrir gróðann af versluninni.

En varðandi dæmið. Ef að ég eða einhver annar kaupir skip, þá mun kaupandinn vilja að í samningnum sé það skráð þannig að verðmæti skipsins sé sem mest og veiðiheimildinna sem minnst. Það er að sjálfsögðu hægt að setja dæmið þannig upp að á þessu geti verið hætta. En það er ekki þar með sagt að skattyfirvöld eða aðrir séu varnarlausir gagnvart slíku, aldeilis ekki. Í fyrsta lagi gera tekjuskattslögin áskilnað eða kröfu um að verðmætin séu höfð aðskilin og tilgreint sé sérstaklega hvert sé verðmæti skips og hvert sé verðmæti veiðiheimilda. Auk þess geta skattyfirvöld að sjálfsögðu gert athugasemdir við verðlagninguna ef þau telja hana óeðlilega. Það er alveg ljóst að skattyfirvöld munu fara með þetta mál með sambærilegum hætti og ýmis önnur þar sem mönnum er gert skylt að sundurliða, sundurgreina, verðmæti vegna skattlagningar og er ekki mjög flókið mál þannig að þetta mun væntanlega verða leyst þannig.

Í öðru lagi eru þetta auðvitað ákveðin rök fyrir því að veiðiheimildirnar muni lækka í verði og er það þá ekki gott. Eru menn ekki almennt sammála um að þær hafi verið á uppsprengdu og óraunhæfu verði? Ef það verða að hluta til áhrifin af þessum breytingum, þá tel ég það vera jákvætt.