Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 13:26:17 (2921)

1997-12-20 13:26:17# 122. lþ. 50.3 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[13:26]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af spurningunni um hvort kvótaverðið er hátt eða lágt og hvernig það verður til. Það er út af fyrir sig rétt að það verður til á markaðslegum forsendum af samspili framboðs og eftirspurnar. Þó er það aðeins flóknara. Það eru ekki aðeins hinir ósýnilegu kraftar markaðarins sem ráða verðinu heldur einnig löggjöfin og með hvaða hætti við tökum t.d. ákvörðun um að skattleggja þessa hluti, hvernig við ákveðum rekstrar- og starfsumhverfi sjávarútvegsins, hvernig við kjósum að hátta afskriftareglum í sjávarútvegi o.s.frv. Allt þetta hefur auðvitað mikil áhrif á kvótaverð og umhverfi greinarinnar. Þess vegna er þetta mál flóknara en svo að hægt sé að segja að verðið sé hvorki hátt né lágt. Ýmsir aðrir þættir hafa áhrif og með lagasetningunni erum við að reyna að búa til tiltekið umhverfi. Umhverfið hefur áhrif á kvótaverðið og ég held að við hv. þm. hljótum að geta verið sammála um það.

Ég get alveg tekið undir það með hv. 11. þm. Reykn. að heppilegra hefði verið að fjalla um málið fyrr eins og gjarnan er með skattamál. Þannig hefðu menn getað skoðað það enn þá betur. Hins vegar held ég að mikilvægt sé að festa þetta mál í lög og óæskilegt fyrir starfsgreinina að bíða með það fram yfir áramót. Ég tel að meginspurningunum hafi verið svarað. Mat okkar er ólíkt á að fresta þessu máli. Ég tel að það mjög óskynsamlegt og vont fyrir atvinnugreinina að fresta þessu og þess vegna eigum við að ljúka málinu nú fyrir þinghlé.