Skaðabótalög

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 14:50:22 (2937)

1997-12-20 14:50:22# 122. lþ. 50.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv. 149/1997, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[14:50]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu lætur lítið yfir sér en ég tel nauðsynlegt að fram komi nokkur atriði sem varða þetta mál í heild sinni. Fyrir liggur að að störfum er nefnd til að endurskoða skaðabótalög frá 1993 en þá voru sett fyrstu skaðabótalög á landinu. Allt fram að því höfðu gilt fordæmi hæstaréttardóma og sérstök ákvæði í sérgreindum lögum um ýmsar starfsgreinar og atvinnuhætti. En þetta eru fyrstu almennu lögin um skaðabætur og slíka starfsemi á Íslandi.

Lögin urðu þess efnis að flestir sem hafa starfað við tryggingastarfsemi og svo lögmenn sem hafa gætt hagsmuna umbjóðenda þeirra sem hafa verið þolendur tjóna af þessu tagi, allir þessir aðilar fögnuðu löggjöfinni og töldu hana mjög til bóta og ég hygg að það sé rétt að við höfum þetta í huga. Það hefur ekkert komið fram sem segir að löggjöfin almennt hafi ekki staðist þessi fáu ár sem hún hefur verið notuð. Hins vegar er rétt að geta þess að skömmu seinna var ákveðið að taka lögin til endurskoðunar vegna þess að menn töldu hugsanlegt að of langt hefði verið gengið í einu atriði sem var raunar sett sem eitt af meginmarkmiðum löggjafarinnar. Og vegna þess að það hefur komið upp aftur og aftur vil ég nefna að þarna var um að ræða að með löggjöfinni var ætlunin að fá fram hækkun bóta fyrir alvarleg líkamstjón og að fá fram lækkun bóta fyrir minni háttar líkamstjón. Um þetta voru lögmenn, tryggingatakar, hagsmunaaðilar bæði tryggingataka og annarra, sammála. Fyrir lá það álit fjölmargra aðila, þar á meðal lækna sem annast sjúklinga eða fólk sem býr við örkuml eftir slík líkamstjón, að þeir sem hefðu hin alvarlegustu meiðsl hefðu farið illa út úr skaðabótum en þeir sem hefðu orðið fyrir minni örkumlum hefðu farið vel út úr þeim og fengið nokkuð rúmar fjárhæðir í sínar hendur vegna bóta. Má rekja allt þetta mál í gögnum Alþingis.

Hins vegar er núna borinn fram aftur og aftur samanburður á bótum til þeirra sem búa við minni háttar örkuml eftir minni háttar líkamstjón fyrir og eftir setningu þessara laga. Við þennan samanburð tel ég nauðsynlegt að við gætum þess fyrrnefnda sem kom fram við setningu laganna og við þá vinnu sem þá fór fram, ekki einasta af hálfu þeirra sem undirbjuggu frv. heldur hér í hv. Alþingi nokkur þing í röð. Þetta er ekkert nýtt mál.

Auk þessa hafa verið til umræðu önnur atriði sem ég hygg að þegar við höfum næg gögn í höndunum til þess að meta málið í heild sinni, þá verðum við frekar sammála um, t.d. um hvernig beri að reikna bætur á grundvelli hugsanlegra útreiknaðra ævitekna og hvernig hugsanlega sé rétt að meta lágmark eða bótaþröskuld. En það eru atriði sem eru miklu meira almenns eðlis og hefur ekki verið gerð nein sérstök tilraun til þess að breyta við setningu þessara laga eða við meðferð þeirra. Hins vegar vil ég segja að mér sýnist þáttur eða framganga hinnar opinberu stofnunar sem annast þennan málaflokk ekki með felldu og þess vegna tel ég rétt að allshn. fylgist sérstaklega með framvindu þessa máls. Vel að merkja, það var hv. allshn. Alþingis sem átti frumkvæði að því að lögin eru nú til endurskoðunar. Það var vegna umræðu sem fór fram í nefndinni og þeirrar viðræðu sem hún átti við hina ýmsu hagsmunaaðila, ekki aðeins tryggingafélög heldur tryggingataka, umbjóðendur þeirra og ýmsa aðra. Þetta var almenn niðurstaða eftir mikla umræðu sem ég tel hafa verið skynsamlega og ég teldi óskynsamlegt að við færum að haska okkur og flýta málinu núna.