Húsaleigubætur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:26:55 (2942)

1997-12-20 15:26:55# 122. lþ. 50.6 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mér finnst hæstv. fjmrh. tala af nokkrum hroka. Hann setur sig í spor kennarans og er að útskýra hluti fyrir hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og öðrum hv. alþm. Við skiljum fyllilega hvað er á ferðinni. Það þarf ekki að útskýra eitt eða neitt fyrir okkur. Þess var hins vegar farið á leit við hæstv. ráðherra að hann rökstyddi skoðanir síðan og ákvarðanir. Við kunnum síðan að vera á öndverðum meiði eða hafa ólík sjónarmið.

Ég er t.d. mjög ósammála því sjónarmiði hæstv. ráðherra að heppilegra sé að húsaleigubætur séu hjá sveitarfélögum en ríkinu. Ég tel að öll aðstoð við þá sem eru að afla sér húsnæðis, hvert sem eignarformið er, hvort sem þeir leigja eða kaupa, eigi að vera á hendi ríkisins og hér sé um að ræða réttindi sem eigi að vera óháð eignarformi.

Ég tek mjög eindregið undir afstöðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það er mjög óeðlilegt að ekki gildi sambærilegar reglur um skattlagningu á vaxtabótum og húsaleigubótum. Hv. þm. benti á um hve ólíkar fjárhæðir er hér að tefla. Annars vegar nema vaxtabæturnar yfir 3 milljörðum kr., 3.300 millj. kr., en nettóstuðningur við leigjendur var rúmlega 230 millj. kr. Þá er skattlagningin reyndar tekin til greina. En í umræðu um húsaleigubætur kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, að hann nefndi dæmi um hátekjufólk, fjölskyldu með 600 þús. kr. á mánuði, 600 þús. kr. mánaðartekjur, fjölskyldu sem fengi 200 þús. kr. á ári í vaxtabætur. Þetta eru miklir peningar, óskattlagðir. Þeir eru ekki skattlagðir. En þegar kemur að húsaleigubótunum byrjar skerðingin við tekjur yfir 125 þús. kr. og ef um barnlausa fjölskyldu er að ræða falla bæturnar niður við 155 þús. kr. tekjumarkið, rúmlega 200 þús. ef um barnafjölskyldu er að ræða. Við erum að tala um allt aðrar og miklu minni upphæðir og skattlagðar í þokkabót.

[15:30]

Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til frv. um húsaleigubætur og ég styð það þegar á heildina er litið og mun greiða atkvæði með því. Ég tel þetta vera mjög mikilvæga réttarbót. Ég ítreka fyrri sjónarmið sem falla saman við það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur einnig lagt áherslu á að það er mjög mikið áhyggjuefni hver útkoman verður fyrir það fólk sem er í félagslegu húsnæðiskerfi. Eins og hún nefndi er um að ræða rúmlega 2.400 íbúðir, ef ég man rétt, og útreikningar á vegum Reykjavíkurborgar hafa sýnt að ef ekki kemur til veruleg aðstoð frá borginni þegar saman fer annars vegar hækkun á leigu upp í það sem kallað hefur verið raunleiga, en er fínt nafn á markaðsvæðingu þessa kerfis og tilkomu húsaleigubóta, hins vegar þá kemur í ljós að það er um verulega skerðingu að ræða hjá mörgu fólki.

Hæstv. ráðherra talaði um að margt af þessu fólki sem var í leiguíbúðum og margt í félagslegu húsnæðiskerfi væri undir skattleysismörkum. Í þeim gögnum sem ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerðum grein fyrir við fyrri umræðu kom fram að fólk sem er með í árstekjur langt innan við eina millj. varð fyrir skerðingu á bilinu 10--20 þús. kr. á mánuði. Nú hefur Reykjavíkurborg lýst því yfir að hún muni koma til móts við tekjulága leigjendur. Hvar þau mörk liggja hins vegar, hvar skilgreiningin á hinum tekjulága liggja, það er allt á huldu um það, og hætta er á því að þessi yfirfærsla muni leiða til tekjuskerðingar hjá mörgu fólki. Við vitum ekki enn hvernig þetta verður nákvæmlega í Reykjavík en óvissan er enn meiri annars staðar og nefni ég t.d. þar Kópavog til sögunnar. Okkur var sagt í félmn. að þar hefðu menn ekki hugleitt hvernig þeir mundu leysa þessi mál eða hvort yfirleitt yrði farið í sams konar ráðstafanir og Reykjavíkurborg er að undirbúa og annars staðar er þetta allt á huldu enn þá.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og ég gengum eftir því í þingsal við fyrri umræðu, að krefja hæstv. félmrh. þess að hann gengi eftir því við sveitarfélögin eða Samband ísl. sveitarfélaga að þau fullvissuðu hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að sú lagabreyting sem hann væri ábyrgur fyrir og hefði forgöngu um mundi ekki leiða til tekjuskerðingar hjá þessu fólki en við höfum ekki fengið nein haldbær eða sannfærandi svör frá hæstv. ráðherra. Þessi mál hljóta náttúrlega öll að vera áhyggjuefni og ég minni aftur á að í 1. gr. þessara laga segir að markmið þeirra sé að bæta kjör tekjulágra leigjenda. Ekki að sjá til þess að þau versni ekki eða standi í stað heldur batni og ef það gerist ekki, þá eru menn einfaldlega ekki að framfylgja þessum lögum. Þess vegna eru allar þessar breytingar á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þá ábyrgð verður ríkisstjórnin að axla.

Síðan er mjög fróðlegt að heyra sjónarmið hæstv. fjmrh. á hugmyndum hans um skattlagningu og hverja eigi að skattleggja og hverja eigi að undanskilja skatti en hann þarf ekkert að útskýra fyrir okkur í þessum efnum. Við vitum nákvæmlega hvað er á ferðinni en erum hins vegar á öndverðum meiði við hæstv. ráðherra í þessum efnum.

En aðeins eitt í sambandi við hugmynd sem hæstv. ráðherra nefndi. Það var að til greina kæmi að skattleggja allt bótakerfið. Mér finnst að það sé hugmynd sem sé umræðuvirði að taka tekjutenginguna á bótakerfinu, barnabótum og öðrum bótum í tekjuskattskerfinu. Mér finnst það hljóti að vera til skoðunar. Ég er ekki endilega að lýsa afstöðu minni til málsins því að hún hlýtur að ráðast af því hvernig dæmið kemur út fyrir fólk. En mér finnst þetta alveg til umhugsunar og þess virði vissulega að skoða. En það sem mér finnst ekki til umhugsunar og vera ekki rétt er að láta annað gilda um leigjendur og kaupendur þegar kemur til stuðnings frá hinu opinbera.