Húsaleigubætur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:36:40 (2943)

1997-12-20 15:36:40# 122. lþ. 50.6 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. forseta kannski rekur minni til ætlaði ég að beina einni lítilli fyrirspurn til hæstv. fjmrh. við 2. umr. málsins en hæstv. ráðherra var þá ekki viðstaddur þannig að ég var fús til að bíða með hana til 3. umr. til að tefja þá ekki umræðuna. Ég vil láta það koma fram að sú litla fyrirspurn sem ég hef beint til hæstv. ráðherra hefur gefið hæstv. fjmrh. tilefni til þess að vera með mjög ósmekklega og ósvífna ræðu í stólnum þar sem hann hefur farið vítt og breitt yfir sviðið og miklu víðar en ég ætlaðist til með spurningu minni þannig að ég segi það, herra forseti, að töf sem verður á að ljúka þessari umræðu, ég veit að það er stuttur tími sem lifir af þinginu en við stefnum í að ljúka þingi á þessum sólarhringi, skrifast ekki á reikning minn heldur á reikning hæstv. fjmrh.

Það er náttúrlega alveg ljóst af orðum hæstv. ráðherra áðan sem voru mjög hrokafull að honum leiðist mjög að ræða húsaleigubætur enda hafa húsaleigubætur aldrei verið áhugamál hans eða flokks hans þótt um sé að ræða kjarabætur til þeirra sem verst eru staddir í þjóðfélaginu. Það er ekki oft sem maður hlustar í þessum ræðustól á iðrun ráðherra vegna fyrri gjörða. En hæstv. fjmrh. sagði það berum orðum að hann iðraðist þess að hafa átt hlut að þessari lagasetningu sem kemur þó fram í skýrslu sem liggur fyrir um framkvæmd húsaleigubóta að er ein besta kjarabótin sem láglaunafólk hefur fengið hin síðari ár. Hæstv. ráðherra orðaði það svo smekklega að hann sagði að ég hefði nauðgað málinu í gegnum ríkisstjórnina. Ja, hérna. En þessi nauðgun sem hæstv. ráðherra orðaði svo smekklega áðan hefur þó orðið til þess að skila því fólki sem verst er statt í þjóðfélaginu verulegum kjarabótum á umliðnum tveimur árum. Hæstv. ráðherra segir að þetta hafi allt verið gert til þess að tryggja að sú sem hér stendur yrði áfram í ríkisstjórn. Ég þakka bara hæstv. ráðherra fyrir komplímentið. (Fjmrh.: Ekkert að þakka.)

Nú segir hæstv. ráðherra að sem betur fer hafi verið sólarlagsákvæði í löggjöfinni og það hafi átt að endurskoða hana að tveimur árum liðnum því að kerfið hafi ekki getað gengið. En hverju erum við að breyta hér, herra forseti, frá gildandi lögum? Fyrst og fremst eru það tveir meginþættir. Litlar aðrar breytingar. Það er að skylda núna öll sveitarfélögin til þess að greiða húsaleigubætur. Hæstv. ráðherra man það eins vel eins og ég að öðruvísi var málinu ekki komin í gegnum þingið nema að þetta yrði valþætt í fyrsta áfanga, að sveitarfélögin sjálf réðu því hvort þau greiddu húsaleigubætur eða ekki. Það er breytingin núna að það er skylda að sveitarfélögin greiði húsaleigubætur.

Í annan stað, þó að það komi ekki beint frv. við, stefnir í það að sveitarfélögin ætli að færa leiguna upp í raunkostnað. Það er áfram inni ef hæstv. ráðherra hefur ekki tekið eftir því, það er brtt. sem kom inn í meðförum þingsins og ég veit að hæstv. ráðherra hefur örugglega ekki fylgst með þeim brtt. eða nefndaráliti sem kom fram frá hv. félmn. því að honum leiðist svo að ræða húsaleigubætur, kjarabætur fyrir láglaunafólk. Þar kemur inn að það er sett inn í lögin að ríkissjóður greiði árlega 280 millj. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að ríkissjóður á enn áfram hlut að máli í þessu efni. Að öðru leyti eru sárafáar breytingar þannig að að stofni til erum við að staðfesta áfram lögin sem hafa gilt í tvö ár um húsaleigubætur sem hæstv. fjmrh. iðrast svo sárlega að hafa tekið þátt í að samþykkja. Þetta eru breytingarnar, herra forseti, fyrir utan að menn hafa verið að reyna að fá hæstv. ráðherra af villu síns vegar að vera að skattleggja húsaleigubætur.

Hvaða fólk er það sem fær húsaleigubætur sem hæstv. ráðherra iðrast svo sárlega að hafa átt þátt í að samþykkja? Þetta er aðallega atvinnulaust fólk, einstæðir foreldrar, öryrkjar, aldraðir. Og hæstv. ráðherra sér ástæðu til að koma í ræðustól og lýsa yfir iðrun yfir að hafa átt þátt í að samþykkja þessa kjarabót. Þetta eru mjög athyglisverðar yfirlýsingar rétt fyrir jólin, herra forseti, til þess fólks sem hefur notið þessara kjarabóta á umliðnum tveimur árum að fjmrh. landsins sé fullur iðrunar yfir að þetta fólk hafi fengið kjarabætur. (Fjmrh.: Það var ekki sagt.) Ég skrifaði það niður eftir hæstv. ráðherra. (Fjmrh.: Þetta er hreinn útúrsnúningur.) Hæstv. ráðherra játaði að hann iðraðist þess að hafa átt þátt í þessari löggjöf. (Fjmrh.: Þetta er hreinn útúrsnúningur sem ræðumaður ...) Þetta er nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra sagði. Hann sagði að sú sem hér stendur hefði nauðgað málinu í gegnum ríkisstjórn. Sagði hæstv. ráðherra það ekki? (Fjmrh.: Jú, það er rétt.) Þannig að mér fannst ræða hæstv. ráðherra mjög ósmekkleg og ósvífin og gefa tilefni til langrar umræðu um húsnæðismál almennt vegna þess að hæstv. ráðherra fór líka inn á reglur um Húsnæðisstofnun ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna og fleira og ég heyrði hann orða það svo að setja Húsnæðisstofnun á hausinn. Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra nefndi. En þetta gefur fullt tilefni til þess að ræða hvernig farið hefur verið með byggingarsjóðina á umliðnum árum, framlögin til byggingarsjóðanna og fleiri þætti. En ég skal, herra forseti, af því að ég veit að hæstv. forseti kann að meta það við mig, fresta því að ræða þessi mál þar til eftir áramót við hæstv. fjmrh.

(Forseti (ÓE): Forseti metur það.)

Það sem snýr að Húsnæðisstofnun, Byggingarsjóði verkamanna og Byggingarsjóði ríkisins og að sú sem hér stendur hafi verið við það að setja Húsnæðisstofnun ríkisins á hausinn (Fjmrh.: Ég sagði það ekki.) vegna þess að þetta eru stór orð, herra forseti, og gefa tilefni til langrar umræðu um þetta mál. En af því að hæstv. fjmrh. leiðist svo að ræða húsaleigubætur og flokki hans leiðist að verið sé að setja löggjöf um húsaleigubætur fyrir láglaunafólk í landinu, þá veit hæstv. ráðherra greinilega ekki um hvað frv. hæstv. félmrh. snýst. Hann veit ekki um það. Hann veit ekki um brtt. sem félmn. gerði við 2. umr. málsins þar sem ríkissjóður er enn þá áfram inni í málinu. Það er lögbundið framlag ríkissjóðs og hæstv. ráðherra stendur í þeirri trú að verið sé að gjörbreyta þeirri löggjöf sem sett var árið 1995. Það er bara hreint ekki svo að verið sé að breyta henni enda kemur fram í skýrslunni um framvæmd húsaleigubóta í fyrsta lagi að framkvæmdin hafi reynst mjög vel. Það voru ekki síst sjálfstæðismenn sem spáðu því í þingsölunum að framkvæmdin mundi reynast illa. En framkvæmdin hefur reynst mjög vel. Það hafa öll þau sveitarfélög viðurkennt sem hafa tekið upp húsaleigubætur og það hefur komið fram í skýrslunni að hún hefur skilað sér sérstaklega vel til tekjulágra hópa enda er ekki verið að breyta miklu í löggjöfinni, einungis að skylda sveitarfélögin öll til að taka upp húsaleigubætur. Það er meginbreytingin í löggjöfinni þannig að ég ráðlegg hæstv. fjmrh. að hafa það sem jólalesningu yfir hátíðina að lesa vandlega frv. til laga um húsaleigubætur og þá löggjöf sem verið er að samþykkja.