Húsaleigubætur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:47:45 (2945)

1997-12-20 15:47:45# 122. lþ. 50.6 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:47]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst það koma mjög skýrt fram í fyrri ræðu hæstv. ráðherra áðan að hann vissi ekki um hvað málið snerist vegna þess að hann sagði að hér væri verið að breyta mjög því kerfi sem hefði verið komið á 1995. Ráðherrann hefur ekki mótmælt því að ekki er verið að breyta því svo máli skipti nema verið er að gera þetta að skyldu sveitarfélaganna.

Ástæða þess að ég taldi líka að ráðherrann vissi ekki um hvað málið snerist og vitnaði þá í þessar 280 millj. var að ráðherrann sagði að það væri algerlega verið að færa þetta yfir til sveitarfélaganna. Ríkissjóður er enn inni í dæminu þar sem stendur í einni lagagrein að ríkissjóður skuli árlega leggja til 280 millj. þannig að að hluta til er það líka áfram hjá ríkisvaldinu.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að löggjöfin hefur reynst í megindráttum vel og auðvitað mun hæstv. fjmrh. samþykkja hana hér við 3. umr. málsins enda hefur hún í alla staði reynst vel og framkvæmdin einnig. Það mun sjást í atkvæðagreiðslunni að ráðherrann er mér alveg sammála. Löggjöfin er að stofni til óbreytt frá því 1995 og hún hefur reynst vel og er löggjöf sem gildir hér næstu árin og ráðherrann mun auðvitað samþykkja það.

Svo fagna ég því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. ætli að lesa jólaguðspjöllin yfir hátíðarnar.