Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 15:52:39 (2947)

1997-12-20 15:52:39# 122. lþ. 50.10 fundur 330. mál: #A lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (uppgjör á skuldbindingum, iðgjöld til B-deildar) frv. 142/1997, PHB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[15:52]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í gær felldi hv. Alþingi brtt. frá mér sem fólst í því að reikna iðgjaldið til B-deildarinnar. Þetta var fellt mjög myndarlega. Það var greinilega mjög mikill meiri hluti fyrir því að reikna ekki iðgjaldið. Sömuleiðis var felld brtt. frá mér sem fólst í því að reikna áfram alla skuldbindingu sem B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins veldur ríkissjóði og fyrirtækjum. Það mátti ekki gera heldur.

Að sjálfsögðu sætti ég mig við þessa niðurstöðu en ég hef hugleitt dálítið hvernig á henni stendur. Þetta er greinilega einhver dýpri skilningur en ég hef að hv. þm. skuli ekki vilja reikna þennan raunveruleika, þ.e. reikna iðgjaldið sem ríkissjóður verður að borga hvort sem er eða ákvarða skuldbindingu sem fyrirtækin verða að greiða.

Það sem mér dettur helst í hug að vaki fyrir þingmönnum er að BSRB hafi óskað eftir því að iðgjaldið sé ekki reiknað þannig að það komi ekki í ljós hver laun opinberra starfsmanna séu. Það er helst það sem mér dettur í hug því að ef iðgjaldið er reiknað út og það kemur í ljós að það þyrfti að vera 18, 19 eða jafnvel 20% framlag í B-deildinni þá kæmi í ljós að það mætti greiða þessu fólki ein mánaðarlaun á ári til viðbótar alla starfsævina ef það nyti venjulegra lífeyrisréttinda. Það er spurning hvort fólkið mundi kæra sig um það að fá þessi lífeyrisréttindi að geta farið á lífeyri 65 ára í staðinn fyrir sjötugt og fórnað fyrir að heilum mánaðarlaunum á ári alla starfsævina. Þetta er kannski ein skýringin sem ég sá ekki alveg í gær.

Önnur skýring gæti verið sú að ekki megi sýna skuldbindingar opinberra stofnana, þ.e. það megi ekki sýna hvað spítalar og alls konar opinberar stofnanir skulda raunverulega í lífeyrisskuldbindingum. Kannski vilja menn ekki sýna þetta. Ég veit reyndar ekki af hverju, en kannski er óþægilegt að vita hvað Landspítalinn skuldar í lífeyrisskuldbindingar og kæmi kannski í ljós hver launakjör starfsmanna eru raunverulega en það virðist greinilega ekki mega sýna það.

En sem sagt, ég er búinn að hugleiða þetta mikið og það er greinilega einhver dýpri skilningur á þessum málum sem ég næ ekki en að sjálfsögðu sætti ég mig við niðurstöðuna, herra forseti.