Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:04:48 (2950)

1997-12-20 16:04:48# 122. lþ. 50.11 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:04]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þm. var að ræða tillögu sem lögð hefur verið fram í nafni hv. þm. Vilhjálms Egilssonar vil ég segja að það er ekkert að því og er margoft þekkt að skerða fjármuni sem ganga til vegagerðar. Það hygg ég að hv. þm. þekki að hefur gerst margoft. Nú stendur þannig á að vegáætlun liggur fyrir vegna næsta árs. Það er ljóst hve miklir fjármunir fara til hennar samkvæmt áætlun og það er ekki verið að skerða þá fjármuni. Það liggur meira að segja fyrir að á yfirstandandi ári urðu tekjur, sem renna til Vegagerðarinnar, talsvert meiri en ráð hafði verið fyrir gert, jafnvel meiri en menn héldu í byrjun októbermánaðar. Þeir fjármunir renna til Vegagerðarinnar og koma fram sem viðbót þangað.

Til viðbótar við þetta vil ég bæta því við að við gerum jafnvel ráð fyrir því að markaðir tekjustofnar til vegagerðar skili meiru en þeim 100 millj. sem eiga í hlut og ég minni á, virðulegi forseti, að þessar 100 millj. eru samsvarandi upphæð og þær 100 millj. sem runnu nú út og munu fara til viðhalds á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Það er nefnilega einu sinni þannig að ekki er sífellt hægt að heimta meiri útgjöld og vera svo alveg yfir sig hissa á því að afkoman skuli ekki vera miklu betri en ella. Þetta er nefnilega þannig að maður verður að líta á tekjurnar og gjöldin og skoða síðan afkomuna og það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Í þessu tilviki stóð þannig á að það er hægt að fara í allar þær framkvæmdir sem menn ætluðu sér en nota þessa peninga heldur til sameiginlegra þarfa. Það er ekkert verið að láta peningana hverfa. Það er verið að nota þá til sameiginlegra þarfa.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn fer fyrir mér eins og öðrum að ég get ekki svarað því á þessari stundu. Ég verð að vísa á það sem hæstv. félmrh. hefur sagt. Ég veit ekki betur en hann sé að láta kanna málið og mér þykir afar leitt að geta ekki svarað því hver endanleg niðurstaða verður í málinu.