Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:09:27 (2952)

1997-12-20 16:09:27# 122. lþ. 50.11 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki mörgu við það að bæta sem hér hefur verið sagt. Það er ljóst og það þarf að skoða það í dálítið sögulegu samhengi til þess að átta sig á því hvernig fjármunir hafa gengið til vegamála á undanförnum árum. Ég minni á að þegar illa áraði og atvinnuleysi var sem mest voru settir fjármunir til vegamála umfram markaða tekjustofna. Þetta verða menn að hafa í huga og rifja upp og segja frá eins og hlutirnir eru.

Ég vil einnig láta það koma fram að sú var tíðin að ákveðið var í fjárlögum og sérstökum lögum, lánsfjárlögum, hve miklir peningar ættu að fara til vegamála en afgangurinn rann í ríkissjóð. Þannig var gengið frá löggjöfinni til skamms tíma. Það eru aðeins örfá ár síðan þessu var snúið við og Vegagerðin nýtur þess nú að seljist meira bensín eða þungaskatturinn skilar sér betur en ráð hafði verið fyrir gert. Ekki er langt síðan sá háttur var tekinn upp þannig að það er ekki hægt að fullyrða það með þeim hætti sem hv. þm. gerði áðan að sífellt sé verið að skerða vegafé. Það er ljóst að mjög miklir fjármunir renna til vegagerðar og ekki nóg með það, heldur horfum við á það núna að til viðbótar þeim fjármunum sem koma frá ríkinu er verið að setja heilmikið einkafjármagn í Hvalfjarðargöngin þannig að heilmikið er að gerast á þessu sviði hér á landi sem betur fer.