Skaðabótalög

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 16:43:31 (2961)

1997-12-20 16:43:31# 122. lþ. 50.4 fundur 58. mál: #A skaðabótalög# (endurskoðun laganna) frv. 149/1997, JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur

[16:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Allshn. er sammála því að mjög brýnt sé að fá niðurstöðu í endurskoðun skaðabótalaganna sem um hafa verið deilur, raunar allt frá setningu þeirra 1993. Þessi langi tími sem endurskoðun hefur tekið bitnar fyrst og fremst á þeim sem verða fyrir slysi og líkamstjóni en deilurnar standa einkum um það hvaða áhrif breytingar á skaðabótalögum og betri réttur þeirra sem verða fyrir líkamstjóni hafi á tjónakostnað tryggingafélaganna. Það er óþolandi að þeir sem verða fyrir líkamstjóni eða slysi þurfi að líða fyrir þær deilur og tregðu tryggingafélaganna að veita nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að klára málið. Ég tel nauðsynlegt að ljúka málinu eigi síðar en á vorþingi sem á að vera hægt ef tryggingafélögin verða af stjórnvöldum og Alþingi knúin til nauðsynlegrar samvinnu í málinu og tel ég reyndar miðað við forsögu málsins og tortryggni í garð tryggingafélaganna og Vátryggingaeftirlitsins að fela hefði átt óháðum aðila, tryggingasérfræðingi, að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga um málið. Ég tel líka að verið sé að veita of langan frest til að ljúka málinu eða til október á næsta ári og greiði því ekki atkvæði.