Fjárlög 1998

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 18:13:07 (2988)

1997-12-20 18:13:07# 122. lþ. 51.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, LMR (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:13]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um í 2. umr. hef ég vissan fyrirvara á ágæti skipanar stýri- eða miðstýrinefndar sem úthluta skal 300 millj. kr. til sjúkrahúsa í landinu og þar með leysa allan vanda þeirra.

Ég hef einnig fyrirvara á aðgerðum stýrinefndar með tilliti til þeirra pólitísku yfirlýsinga sem hæstv. heilbrrh. hefur gefið um yfirtöku ríkisins á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem nú virðist stutt af borgarstjóranum í Reykjavík. Þar er enn verið að staðfesta miðstýringaráráttu þá sem endurspeglað hefur afstöðu heilbrrh. að undanförnu. Slíkt tel ég ekki vera í samræmi við stefnu Sjálfstfl. En í trausti þeirrar yfirlýsingar sem varaformaður fjárln. hefur gefið um að unnið verði að lausn fjármála sjúkrahúsa á faglegum forsendum og með tilliti til þeirra viljayfirlýsingar sem felst í 100 millj. kr. viðbótarframlagi til Sjúkrahúss Reykjavíkur, mun ég greiða þessum lið atkvæði mitt. En ég áskil mér fullan fyrirvara á áframhaldandi vinnslu á lausn fjárhagsvanda sjúkrahúsanna ef, að mínu mati, ekki verður unnið faglega að þessi lausn og í fullu samráði við Alþingi og viðkomandi hagsmunaaðila heldur stefnt að fyrirframgefinni pólitískri lausn með miðstýringu í huga.