Jólakveðjur

Laugardaginn 20. desember 1997, kl. 18:46:54 (2996)

1997-12-20 18:46:54# 122. lþ. 51.91 fundur 157#B Jólakveðjur#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur

[18:46]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Þá er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé. Hér hafa að venju verið annir síðustu daga. Góður starfsandi hefur hins vegar einkennt haustþingið og vil ég láta í ljós sérstakar þakkir mínar í garð þingmanna fyrir samstarfsvilja þeirra. Greiðlega hefur gengið að afgreiða þau mál sem ljúka þurfti fyrir árslok. Ýmsa löggjöf mætti nefna en sérstaklega nefni ég tímabæra löggjöf um lífeyrisréttindi sem beinlínis varðar hag allra landsmanna.

Mér eru ofarlega í huga þau tímamót sem orðið hafa og varða Alþingi. Samþykkt hefur verið sérstök fjárveiting á fjárlögum til húsnæðismála þingsins og þar með mun hefjast uppbygging á reitnum í kringum Alþingishúsið sem við köllum Alþingisreit. Með þessu hefur verið áréttuð sú stefna að aðsetur Alþingis eigi að vera um fyrirsjáanlega framtíð í Kvosinni í Reykjavík og skapa eigi þeim sem starfa á vettvangi löggjafans nútímalega starfsaðstöðu. Þessi niðurstaða er fagnaðarefni og ánægjulegt að leiddar hafa verið til lykta áratuga vangaveltur um framtíðarskipan húsnæðismála þingsins. Þetta hefur gerst í góðri sátt við skipulagsyfirvöld höfuðborgarinnar og þau samtök sem láta sig varða yfirbragð og umhverfi miðbæjarins. Ég fagna því hversu vel hefur tekist til um lausn þessa máls.

Nú verða tímamót í lífi hv. 9. þm. Reykv., Jóns Baldvins Hannibalssonar, er hann lætur af störfum sem alþingismaður. Í dag afhenti hann mér bréf þar sem hann afsalar sér þingmennsku frá og með næstu áramótum. Við afsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar hverfur af þingi stjórnmálamaður sem verið hefur í forustuhlutverki á annan áratug. Hann hefur á þeim tíma sett sterkan svip á störf Alþingis og markað spor í sögu íslenskra stjórnmála. Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið þingmaður Reykvíkinga síðan 1982. Fyrst tók hann sæti á Alþingi sem varamaður 1975. Hann var formaður Alþfl. í 13 ár og ráðherrastörfum gegndi hann frá 1987--1995, þar af lengst sem utanrrh. Við þessi þáttaskil í lífi Jóns Baldvins Hannibalssonar vil ég færa honum þakkir fyrir þau störf sem hann hefur unnið á vettvangi Alþingis. Við brotthvarf hans af þingi er eftirsjá af litríkum stjórnmálamanni sem gustað hefur um. Á ráðherraferli sínum stóð hann vörð um íslenska hagsmuni í óvenjuviðamiklum og erfiðum alþjóðasamningum og á alþjóðavettvangi nýtur hann álits fyrir framgöngu sína. Þjóðin mun áfram njóta starfskrafta hans, reynslu og þekkingar erlendis. Ég óska honum allra heilla í nýju starfi og þakka honum ánægjuleg kynni og gott samstarf á undanförnum árum.

Jólahátíðin er í nánd. Hv. alþingismönnum og starfsfólki Alþingis gefst nú tækifæri til að vera samvistum við sína nánustu um hátíðirnar og njóta með þeim friðsemdar jólanna eftir annasamar vikur. Ég færi alþingismönnum öllum, svo og starfsfólki Alþingis bestu óskir um gleðilega og friðsæla jólahátíð og færi þeim bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á því ári sem nú er senn að enda. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.