Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 42 – 42. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, með síðari breytingum.

Flm.: Sigríður Jóhannesdóttir, Svavar Gestsson.



1. gr.

    2. og 3. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. og 3. mgr. 7. gr. laga um framhaldsskóla falli brott. Í 2. mgr. 7. gr. er kveðið á um að skólanefnd ákveði upphæð innritunar- og efnisgjalda sem nemendum er gert að greiða við upphaf hverrar námsannar eða skólaárs. Er annars vegar um að ræða innritunargjald, sem er þjónustugjald vegna kostnaðar við kennsluefni og pappír, og hins vegar efnisgjald sem innheimt er af nemendum sem njóta verklegrar kennslu vegna efniskostnaðar við efni sem skólinn lætur nemendunum í té. Er kveðið á um það í núgildandi lögum að innritunargjald megi aldrei vera hærra en 6.000 kr. á skólaári, en efnisgjald aldrei hærra en 12.500 kr. á önn.
    Í 3. mgr. 7. gr. er að finna reglur um sérstakt endurinnritunargjald sem framhaldsskólum er heimilt að innheimta af nemendum sem endurinnritast í bekkjardeild eða áfanga og gera lögin ráð fyrir því að upphæð gjaldsins miðist við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu á síðustu önn.
    Í frumvarpi þessu er þó gert ráð fyrir að ákvæði síðari málsgreinar 10. gr. haldi gildi sínu, en þar er fjallað um gjöld til nemendasjóða.