Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 58 – 58. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á skaðabótalögum, nr. 50 19. maí 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997– 98.)


1. gr.

    Í stað ártalsins „1997“ í 2. málsl. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum, sbr. lög nr. 42 13. maí 1996, kemur: 1998.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með 3. gr. laga nr. 42/1996, um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, var bætt við lög in ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að dómsmálaráðherra skuli skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga. Jafnframt segir að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögunum eigi síðar en í október 1997.
    Í kjölfar gildistöku laganna skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að vinna að umræddu verk efni. Í nefndinni eiga sæti hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Sigrún Guðmundsdóttir auk Guðmundar Jónssonar, fyrrverandi hæstréttardómari, en hann er formaður nefndarinnar. Samkvæmt bréfi nefndarinnar til ráðherra, dags. 15. september 1997, er starf nefndarinnar vel á veg komið. Þó telur nefndin að enn skorti fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna eftir gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993. Slíkar upplýsingar séu forsenda þess að unnt sé að meta áhrif einstakra tillagna, sem nefndin kynni að gera, á iðgjöld bifreiðatrygginga. Þá telur nefndin að hún hafi fengið misvísandi upplýs ingar um fjölda bótaskyldra slysa sem leiða til bótagreiðslu fyrir líkamstjón. Nefndin telur að senn líði að því að slys, sem urðu síðari hluta árs 1993 og árið 1994, verði að mestu uppgerð. Því ættu brátt að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar til að unnt verði að meta áhrif skaða bótalaganna á bætur vegna líkamstjóna. Telur nefndin æskilegt að hún fái lengri tíma til að afla frekari upplýsinga og ljúka starfi sínu. Umrætt bréf nefndarinnar er birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.
    Með hliðsjón af röksemdum nefndarinnar er lagt til að ákvæði til bráðabirgða með skaða bótalögum verði breytt þannig að nefnd þeirri sem falið hefur verið að endurskoða lögin verði veitt nauðsynlegt svigrúm til að ljúka störfum sínum. Þykir hæfilegt að sá frestur verði til október 1998, enda er verkefnið í senn flókið og umfangsmikið.



Fylgiskjal I.


Bréf nefndar um endurskoðun skaðabótalaga.


Dómsmálaráðherra
Þorsteinn Pálsson
Arnarhváli
Reykjavík, 15. september 1997

    Samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 42 1996 var yður falið að skipa nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga nr. 50 1993. Í ákvæðinu er tekið fram að sérstaklega skuli hugað „að skaðabótum fyrir líkamstjón, meðal annars með hliðsjón af þeim tillögum sem allsherjarnefnd lét vinna fyrir sig á 120. löggjafarþingi og þeim athugasemdum sem fram hafa komið í nefndinni.“ Síðan er tekið fram að ráðherra skuli leggja fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögunum í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en í október 1997.
    Hinn 17. júlí 1996 skipuðuð þér Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra, Þorgeir Örlygsson, prófessor og Guðmund Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómara í nefnd þessa. Tveir hinir fyrr nefndu viku úr nefndinni að eigin ósk og í stað þeirra voru skipuð hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Sigrún Guðmundsdóttir. Nefndin var fullskipuð 21. nóvember 1996.
    Rétt er að minna á að þetta er þriðja nefndin sem skipuð er til endurskoðunar á skaðabóta lögum.
    Með bréfi yðar 18. febr. 1994 var hæstaréttarlögmönnunum Gesti Jónssyni og Gunnlaugi Claessen ásamt Guðmundi Skaftasyni, fyrrverandi hæstaréttardómara falið að leggja mat á hvort efni væru til að breyta nýsettum skaðabótalögum nr. 50 1993. Höfuðáherslan lá á því hvort rétt væri að breyta margföldunarstuðli laganna. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni. Meirihluti nefndarinnar gerði tillögu um breytingu á lögunum þ.m.t. hækkun á margföldunar stuðli. Minnihluti nefndarinnar taldi ekki tilefni til breytinga á nýsettum skaðabótalögum að svo stöddu.
    Hinn 6. júní 1995 fól allsherjarnefnd Alþingis þeim Gesti og Gunnlaugi að taka á ný upp athugun þeirra frá árinu 1994. Einkum var þeim falið að taka að nýju upp athugun á margföld unarstuðlinum og þá í ljósi dóms Hæstaréttar 30. mars 1995 um breytta vaxtaforsendu og jafnframt að yfirfara önnur atriði skaðabótalaganna og leggja mat á hvort gera þyrfti breytingar á þeim. Hinn 10. nóvember 1995 skiluðu þeir álitsgerð þar sem fram komu tillögur um breytingar á ákvæðum skaðabótalaganna.
    Með lögum nr. 42 1996 var tveimur ákvæðum skaðabótalaganna breytt. Margföldunarstuð ullinn var hækkaður og lágmark miskastigs í 2. mgr. 8. gr. var lækkað úr 15% í 10%. Þá var í lögunum mælt fyrir um skipun nefndar þeirrar sem getið er um í upphafi og við undirrituð skipum nú.
    Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 42 1996 er gerð grein fyrir gagnrýni sem fram hafi komið á einstaka þætti frumvarpsdraga þeirra Gests og Gunnlaugs. Sérstaklega var um að ræða þrjú atriði, þ.e. gagnrýni á ákvörðun lágmarkslauna til viðmiðunar við bótaútreikning og um afmörkun bótaréttar fyrir varanlega örorku við aldur. Í öðru lagi að tillögurnar myndu í ýmsum tilvikum leiða til ofbóta og í þriðja lagi að aukinn bótaréttur gæti leitt til umtalsverðrar hækkunar iðgjalda.
    Auk þessa taldi allsherjarnefnd rétt að huga sérstaklega að nokkrum atriðum: Hvort rétt sé að víkja frá þeirri stöðlun bótareglna sem lögfest var 1993 með því að láta bætur frá öðrum en hinum bótaskylda hafa áhrif á skaðabótakröfu. Hvort unnt sé að láta sömu meginreglu gilda við ákvörðun skaðabóta til tjónþola hvort sem þeir hafa aflað sér atvinnutekna fyrir slysið eða ekki og hvort rétt sé að lögfesta lágmarkstekjur í því sambandi. Hvort rétt sé að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslu skaðabóta þegar örorkustig er hátt og hinn bótaskyldi er fær um að taka á sig slíka skuldbindingu. Hvort eðlilegra sé að reikna framtíðartjón út frá nettóárslaunum fremur en heildarárslaunum. Hvort möguleikar á frambúðarávöxtun séu aðrir en Hæstiréttur gekk út frá í dómi sínum 30. mars 1995.
    Eins og að framan greinir var nefndin fullskipuð 21. nóvember 1996 og var fyrsti fundurinn haldinn 27. nóvember 1996. Alls hafa verið haldnir 22 fundir. Á fundi nefndarinnar hafa m.a. komið fulltrúar atvinnurekenda, læknar, lögmenn, fulltrúar tryggingafélaganna og tryggingastærðfræðingar. Auk þess hafa nefndinni borist skriflegar greinargerðir frá hópi lögmanna, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, umboðsmanni barna, Vátryggingaeftirlitinu og fleirum. Þar fyrir utan hefur veruleg gagnasöfnun farið fram.
    Starf nefndarinnar er vel á veg komið. Þó telja nefndarmenn að enn skorti fullnægjandi upplýsingar um tjónakostnað bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna eftir gildistöku skaðabótalaganna 1. júlí 1993. Slíkar upplýsingar eru forsenda þess að unnt sé að meta áhrif einstakra tillagna, sem nefndin kynni að gera, á iðgjöld bifreiðatrygginga. Þá eru upplýsingar sem nefndin hefur fengið um fjölda bótaskyldra slysa, sem leiða til bótagreiðslna fyrir líkamstjón, misvísandi.
    Nú eru liðin rúm fjögur ár frá gildistöku skaðabótalaganna. Senn líður að því að slys sem urðu síðari hluta árs 1993 og árið 1994 verði að mestu uppgerð. Því ættu brátt að liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar til þess að meta áhrif skaðabótalaganna á bætur vegna líkamstjóna. Nefndarmenn telja æskilegt að nefndin fái lengri tíma til þess að afla frekari upplýsinga og ljúka starfi sínu.

Virðingarfyllst,

Guðmundur Jónsson
Gestur Jónsson
Sigrún Guðmundsdóttir



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um
breyting á skaðabótalögum, nr. 50/1993.

    Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að veita nefnd, sem falið var að endurskoða skaðabótalögin, nauðsynlegt svigrúm til að ljúka störfum sínum með því að frestur til þess verði í október 1998 í stað október 1997. Kostnaður af nefndinni er talin vera á bilinu 0,2–0,3 m.kr. og greiðist af fjárlagalið aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytis. Að mati fjármálaráðuneytis mun frumvarpið ekki hafa önnur áhrif á útgjöld ríkissjóðs.