Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 263 – 66. mál.Svariðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um sölu á raforku um sæstreng.

1.      Hver er staða viðræðna um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlandseyja eða meginlands Evrópu?
    Ráðuneytið á ekki í viðræðum um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlandseyja eða meginlands Evrópu. Á undanförnum árum hafa nokkur orkufyrirtæki í Evrópu sýnt áhuga á að kanna hugsanlega lagningu sæstrengs. Meðal þeirra eru hollensk fyrirtæki sem tóku þátt í ICENET-verkefninu með Reykjavíkurborg, orkufyrirtæki Hamborgar (HEW) og skoska raforkufyrirtækið Scottish Hydro.
    Í lok heimsóknar iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Landsvirkjunar til umhverfis- og orku málaráðherra Hamborgar sl. haust var undirrituð sérstök bókun um sæstrengsmálið. Í henni lýstu framangreindir aðilar yfir vilja til að fram fari víðtæk heildarathugun á forsendum sæ strengs á milli Íslands og grannríkja þess í Evrópu. Miðað var við að aðilum sem sýnt hafa málinu áhuga á undanförnum árum yrði boðið að eiga aðild að slíkri athugun. Samkvæmt bókuninni er miðað við að farið verði yfir alla þætti sem gætu haft áhrif á ákvörðun um slíkt verkefni. Var gert ráð fyrir að sérstök sameiginleg vinnunefnd innlendu og erlendu aðilanna undir forustu íslenskra stjórnvalda stýri þessari heildarathugun. Í heimsókn iðnaðar- og viðskiptaráðherra til Hollands í byrjun þessa árs lýstu hollensku fyrirtækin sem hafa verið aðilar að ICENET-verkefninu yfir áhuga á að taka þátt í slíkri athugun með íslenskum stjórnvöldum.
    Ráðuneytið hefur skipað starfshóp til þess að kanna forsendur af Íslands hálfu fyrir slíku verkefni. Hópnum hefur verið falið að undirbúa nánar stefnu Íslands varðandi tenginu ís lenska raforkukerfisins raforkukerfum grannríkjanna um sæstreng. Enn fremur er starfshópn um ætlað að undirbúa drög að starfsáætlun vegna heildarathugunarinnar. Hópurinn hefur ekki lokið störfum. Starfshópnum var falið að miða við lagningu eins sæstrengs milli Íslands og Bretlands eða meginlands Evrópu. Miða skal við að flutningsgeta strengsins verði að hluta til nýtt til útflutnings á raforku frá Íslandi en að hluta til inn- eða útflutnings, eftir vatnsbúskap í miðlunarlónum og því hversu raforkukerfið er vel nýtt. Jafnframt skal miða við að strengurinn styrki raforkukerfi landsins, bæti nýtingu orkulindanna og stuðli að sam vinnu við orku- og iðnfyrirtæki í öðrum ríkjum Evrópu. Lögð er áhersla á að undirbúningur miðist við hagsmuni íslenska raforkukerfisins og að frekari vinna verði undir forystu ís lenskra stjórnvalda.
    Í tillögu til þingsályktunar um framtíðarskipan raforkumála sem lögð hefur verið fyrir Al þingi er meðal annars lagt til að iðnaðarráðherra verði falið „að kanna tæknilega, fjárhags lega og umhverfislega kosti og galla þess að tengja íslenska orkukerfið við raforkukerfi á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu.“ Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að gert er ráð fyrir að gengið verði til samstarfs við erlend orkufyrirtæki um athugun á því hvort hagkvæmt geti verið að tengja raforkukerfi landsins raforkukerfi Evrópu og þá hvaða tenging sé hagkvæmust og æskilegur áfangi skilgreindur. Sérstaklega verði kannað með hvaða hætti slík tenging geti orðið íslenska raforkukerfinu til góðs, aukið öryggi, bætt nýtingu virkjana, skapað sveigjanleika o.s.frv. Sömuleiðis miðist athugunin við lagningu eins sæstrengs með svipaða flutningsgetu og þeir strengir sem reynsla er fengin af erlendis. Með henni verði jafnframt stefnt að hámarksgildi slíkrar tengingar fyrir íslenskan orkubúskap, en stefna til lengri tíma mótuð með hliðsjón af niðurstöðu athugunarinnar. Samtenging raforkukerfis landsins við raforkukerfi grannríkjanna er því til umfjöllunar á Alþingi.

2.      Hverjir eru tækni- og kostnaðarþættir málsins, m.a. flutningsgeta og áætlaður stofn- og rekstrarkostnaður?
    Eins og sjá má af svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar liggja þessar upplýsingar ekki fyrir. Í þessu sambandi má þó benda á að í fylgiskjali III með tillögu til þingsályktunar um fram tíðarskipan raforkumála, sem hefur verið lögð fyrir Alþingi, er greint frá áætlunum ICENET-hópsins um kostnað við orkuver á Íslandi og sæstreng til Skotlands ásamt endabúnaði. Þar kemur fram að miðað við 600 MW flutningsgetu sé heildarkostnaðurinn um 180 milljarðar kr.

3.      Um hversu mikla orku er rætt í þessu samhengi, afl og ársframleiðslu, og til hvaða virkjana hefur einkum verið horft í því samhengi?

     Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. En þó má ætla að fyrst og fremst yrði litið til virkj ana á Norðaustur- og Austurlandi.

4.      Á hvaða forsendum yrði samið um slíka orkusölu, fjármögnun, afhendingu og orkuverð?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar liggja þessar upplýsingar ekki fyrir.

5.      Hverjir hafa umsjón með málinu af Íslands hálfu og hvaða áfangar eru fram undan í viðræðum um það?
    Eins og fram kom í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar hefur iðnaðar- og viðskiptaráð herra skipað starfshóp til að undirbúa heildarathugun á forsendum sæstrengs á milli Íslands og Bretlandseyja eða meginlands Evrópu og vinna að nánari stefnumótun. Jafnframt hefur eins og þegar er komið fram verið lögð fram tillaga til þingsályktunar þar sem lagt er til að iðnaðarráðherra verði sérstaklega falið að vinna að þessu máli. Ráðuneytið mun fljótlega boða til fundar með þeim aðilum sem sýnt hafa áhuga á málinu. Í framhaldi af því verður væntanlega hafin vinna við heildarathugun á forsendum tengingar íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi grannríkjanna. Iðnaðarráðuneytið mun hafa með höndum yfirstjórn verkefn isins af Íslands hálfu, en Landsvirkjun mun vinna að tækni-, kostnaðar- og markaðsþáttum könnunarinnar og eiga þannig aðild að verkefninu.